Iðjuþjálfinn - 2020, Side 41
Iðjuþjálfinn 1/202041
Implementing Authentic Occupational Therapy Services”. Hún hóf
námskeiðið með því að spyrja spurninga sem finna má í bókinni
Powerful Practice: A model for Authentic Occupational Therapy.
Spurningarnar voru til þess gerðar að fá okkur þátttakendurna til
að skoða okkar fagímynd, hlutverk og skilning annarra á okkar
fagi. Spurningar á borð við: Átt þú erfitt með að gera (á þínum
vinnustað) það sem þér finnst að iðjuþjálfar eigi að gera? Vilja aðrir
í teyminu þínu að þú gerir það sem þeir vilja, frekar en það sem þú
vilt?
Þegar Anne fór í gegnum þessar spurningar og las þær upphátt var
ég farin að standa mig að því að rétta nánast alltaf upp hönd og
kinka kolli. Ég hef ótal dæmi sem ég gæti talið upp um það sem mér
finnst vera þekkingarleysi annarra á faginu.
Fagaðili stoppaði mig eitt sinn og segir við mig: „Heyrðu Gullveig,
einstaklingnum á stofu 24 leiðist getur þú ekki fundið eitthvað fyrir
hana að gera, púsla eða eitthvað?“ Ég varð alveg orðlaus. Hingað til
hafði ég lítið sem ekkert mátt koma að málum þessa einstaklings
en úr því viðkomandi „leiddist“ í legunni þá mátti ég fá það hlutverk
að finna fyrir viðkomandi eitthvað til að drepa tímann. Vá hvað mér
fannst ég ekki metin að verðleikum. Hvaða starfsmaður í húsinu
sem er hefði getað gengið inn á deildina og boðið viðkomandi
afþreyingu. Ekki misskilja mig, jú auðvitað er okkar hlutverk að
aðstoða fólk við að finna afþreyingu/viðfangsefni sem hefur
þýðingu og gildi fyrir einstaklinginn. Hefði ég í upphafi mátt koma
að málum viðkomandi með mati og íhlutun þá hefði viðkomandi
líklega haft eitthvað fyrir stafni. Hver veit, mögulega hefði
viðkomandi geta verið útskrifaður á þessum tímapunkti. Ég hef
oftar en einu sinni svarað þessari spurningu frekar fýlulega, jafnvel
móðgandi: „veistu nei ég er ekki „leiðindaþjálfi“ og nú í seinni tíð
fylgir með „en hvað gæti viðkomandi hugsað sér að gera?“ Einnig
mætti mögulega líta á þessar aðstæður sem tækifæri til fræðslu.
Anne Fisher minnti okkur á að hafa iðjuna í forgrunni. Að vera
iðjumiðuð (e. Occupation centerd) bæði í grunnin ( Occupation
based) og með iðjusýn að leiðarljósi (occupation focused) og horfa
gagnrýnið á þau matstæki og íhlutunarleiðir sem við notum. Einnig
minnti hún á að Top – down/“true top-down“ rökleiðsla sé forsenda
skjólstæðingsmiðaðs starfs. Við ættum að byrja að safna
upplýsingum um styrkleika og aðstæður einstaklings og tilgreina
iðjuvanda. Því næst gera framkvæmdagreiningu (leggja fyrir mat,
skilgreina og túlka niðurstöður) og einungis ef þörf er á, að meta þá
líkamsstarfsemi. Að detta ekki í „Bottum -Up“ eða „top - to Bottom
-Up“ gryfjuna að „þjálfa þessa ákveðnu hendi“ og horfa einungis „á
hendina“ sem „vandamál“ án þess að vinna með iðjuvanda eða
setja iðjumiðuð markmið. Er raunhæft að vinna með hendina á
þessum tímapunkti eða ættum við að skoða hvernig einstaklingurinn
getur sinnt þeirri iðju sem hann þarf og/eða vill geta stundað burt
séð frá ástandi handarinnar eða væntingum annarra sem að
skjólstæðingnum koma.
Ég hef verið spurð að því af tveimur aðilum annarra fagstétta hvers
vegna ég geti ekki bara hitt „einstaklinginn“ og tekið „hann“ beint í
„þjálfun“. Þar sem í tilvísuninni kæmi fram hverskonar „þjálfun“
viðkomandi þyrfti. Eins og við vitum þá er lífið ekki fullkomið og
beiðnirnar aldrei svo ítarlegar að fram komi iðjuvandi viðkomandi
auk markmiða og íhlutunaráætlunar. Þótt jú stundum fáum við fyrir
fram upplýsingar um að barn sé með fínhreyfivanda en það eitt
getur alveg verið nokkuð víðtækt. Ef ég myndi leggja af stað í vinnu
með einstakling án þess að hafa lagt mitt faglega mat á aðstæður,
án þess að hafa nokkuð í höndunum með það hvaðan við erum að
koma, hvernig vitum við þá hvert á að taka stefnuna og hvenær
markmiðum er náð?
ÞAÐ ER MIKILVÆGT Í ÞESSU SAMHENGI AÐ ÞJÓNUSTAN SÉ
MARKVISS
Mér finnst einnig mikilvægt í þessu samhengi að fólk festist ekki í
þjálfun hjá okkur af því að „samfélgið“ telur viðkomandi eiga rétt á
„þjónustu“ iðjuþjálfa. Mikilvægt að hafa þjónustuferli til að fylgja.
Þegar markmiðum hefur verið náð, lengra er ekki komist í þjálfun
og ekkert er eftir nema útskrift, erum við þá að vinna að vilja og
væntingum skjólstæðingsins eða annarra í samfélaginu? Erum við
að vinna að „viðhaldsmeðferð“ á grundvelli iðjuvanda eða
líkamsstarfsemi? Á þessum tímapunkti er mikilvægt að geta klárað
að skrifa kaflann og loka bókinni.
Nú veit ég ekki hvort aðrir iðjuþjálfar kannist við það sem ég fjalla
um hér að ofan. Tilgangur þessa pistils er einungis að draga fram
vangaveltur mínar um mikilvægi þess að við nálgumst verkefni
okkar út frá hugmyndafræði iðjuþjálfa, höfum gagnrýna hugsun að
leiðarljósi og séum dugleg að tala um og kynna fagið okkar út á við.
Ramminn sem við vinnum eftir er stundum óskýr og mér finnst
mikilvægt að geta teygt mig út fyrir hann og hafa rými til sköpunar.
Það er mín skoðun að sama hvað ég fæst við og hvernig ég vinn
mína vinnu þá vinn ég alltaf út frá því að vera iðjuþjálfi eins og ég
menntaði mig til og er stolt af. Þó hugmyndir annarra um fagið séu
á ýmsa vegu þá er mikilvægt að ég viti og haldi í hvaðan ég kem og
hvert ég stefni. Að hugmyndir annarra sem ekki þekkja til mín eða
fagsins og meta mig ekki að verðleikum móti mig ekki um of.
Mig langar í lokin að fagna tillögunni um endurhæfingarstefnu sem
kom frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar sem fram kom að auka þyrfti
Þverfaglega teymisvinnu í endurhæfingu. Við útskrift bjóst ég við
því að þverfagleg teymisvinna væri komin lengra innan
heilbrigðisstofnanna sérstaklega á landsbyggðinni. Ég tel að með
bættri þverfaglegri vinnu aukist þekking á faginu, en þá er jafnframt
mikilvægt fyrir okkur að halda í okkar sterka fagsjálf og geta sýnt
öðrum hvað í okkur býr.
HEIMILDIR:
Kristjana Fenger og Guðrún Pálmadóttir. (2011). Iðja og heilsa. Í
Guðrún Pálmadóttir og Snæfríður Þóra Egilson (Ritstjórar), Iðja,
heilsa, velferð: Iðjuþjálfun í íslensku samfélagi (bls. 21-36). Háskólinn
á Akureyri.