Skólavarðan - 2017, Page 18

Skólavarðan - 2017, Page 18
18 HAUST 2017 dæmi um það sem ekki var þegar hún byrjaði að kenna. „Við erum að taka við börnum sem áður voru í sérskólunum en skóli án aðgreiningar er umdeilanlegur, aðallega fyrir þær sakir að undirbúningur fyrir þær breytingar hefur verið af mjög skornum skammti. Það hefði þurft að undirbúa skólastarfið svo mikið betur fyrir þessa breytingu. Á hinn bóginn er það tvímælalaust hollt fyrir börn að sjá að við erum ekki öll eins og það þarf að taka til- lit til þeirra sem skera sig úr á einhvern hátt. Við þurfum öll að koma til móts við þessi börn og finna okkur í hinni nýju stöðu. Það er tvennt sem mér finnst sérstaklega að þurfi að bæta en það strandar ævinlega á fjár- magni til skólanna. Menntaðir sérkennarar þurfa að vera við hlið hins almenna kennara og hinn almenni kennari verður að fá aukna menntun í sérkennslu með hliðsjón af þessum breyttu skólaháttum. Við þurfum að fá meiri stuðning og fræðslu um hvernig við eigum að kenna þessum nemendum. Allt þetta kallar á aukið fjármagn sem ráðamenn virðast ekki hafa skilning á.“ Nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað undanfarin ár og segir Hildur að það einnig kalli á breytingu skólastarfsins. Breytingar á stjórnunarháttum hafa orðið á þessum tíma. „Þegar ég hóf störf í Breiðholtsskóla var hér skólastjóri og yfirkennari. Nú eru í skólanum skólastjóri og aðstoðarskólastjóri og þrír deildarstjórar í 50% stöðum.“ Hildur nefnir að skólaárið sé mun lengra nú en þegar hún byrjaði að kenna en þá fengu nemendur um þriggja mánaða sumarfrí. Góðir kennarar Hildur er spurð hvað einkenni góðan kennara. „Hann þarf að mínu mati að búa yfir mikilli þolinmæði, festu, áhuga á náms- efninu, hlýju og mannkærleika auk þess sem ekki sakar að hann sé hugmyndaríkur og spaugsamur. Fyrir lifandi löngu var einn sona minna með íslenskukennara í fram- haldsskóla sem hann var mjög hrifinn af. Ég spurði hvað væri svona gott og merkilegt við þennan tiltekna kennara. Svarið var einfalt: „Hann er svo rosalega heimilis legur.“ Þetta svar sagði mér margt um hvernig ungmenni upplifa góðan kennara og hve nauðsynlegt það er að vera hlýr og afslappaður auk þess að vera fær í að miðla sínu námsefni. Það þarf náttúrlega að miðla náms- efninu á áhugaverðan hátt þannig að börn finni tilgang með að læra; ef maður er að kenna eitthvað sem börnin finna ekki tilgang í er það dálítið borin von í raun og veru því tilgangurinn skiptir svo miklu máli. Þess vegna finnst mér svo gaman að kenna heimilisfræði því afraksturinn er kominn til þeirra í lok tímans. En heimilisfræðin snýst ekki bara um að baka og elda því í þessum tímum fer fram margvísleg almenn umræða, meðal annars um matarmenningu og siði í öðrum löndum og borðhald. Við ræðum einnig mikið um hreinlæti, matarsóun, plastmengun og náttúruvernd í beinu framhaldi.“ Læsi Hildur segir að það þurfi að efla læsi. „Það er mjög brýnt mál því það að vera vel læs er lykillinn að öllu námi. Það þarf að viðhalda móðurmálinu – og gott betur en það – og efla læsi. Byrjendalæsi og Pals var innleitt hér í skólanum fyrir nokkrum árum með mjög góðum árangi. Það lýsir sér í betri námsárangri sem nýlegar kannanir hafa leitt í ljós. Það má aldrei sofna á verðinum gagnvart móðurmálinu okkar. Þar erum við skóla fólkið í lykilstöðu ásamt fjölmiðlunum. Þessi vísa er aldrei of oft kveðin.“ Sjálfstraust Hildur segir að sér finnist það vera sér mikið lán að hafa valið kennarastarfið. „Ég hef kynnst dásamlegu fólki í skólanum mínum. Fyrir utan nemendurna hef ég eignast marga af mínum bestu vinum hér innan veggja skólans, bæði kennara og annað starfsfólk. Það gleður mig þegar ég sé að fyrrverandi nemendum okkar gengur vel; en ég get auðvitað ekki fylgst með öllum. Við erum að undirbúa nem endur undir lífið og það er náttúrlega stærsta áskorunin að undirbúa þá undir fram- haldsnám. Breiðholtsskóli er mjög góður skóli og það er okkar stærsta markmið í raun og veru að skila nemendum héðan sem öflugum einstaklingum; ekki bara öflugum námsmönnum heldur líka fólki með sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Það eflir sjálfs vitund krakka, eins og allra annarra, að ná árangri. Ef við getum hjálpað þeim að ná settu marki er til einhvers unnið.“ Hildur við kennslu í Flatey á Breiðfirði. Olíulampi stendur á borðinu.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.