Skólavarðan - 2017, Side 19
HAUST 2017 19
Um áttatíu manns sóttu umræðufund KÍ
sem var meðal viðburða á Fundi fólksins
sem fram fór í Hofi á Akureyri í september.
Lagt var upp með spurninguna hvort
kennarinn yrði óþarfur í framtíðinni; hvort
tæknin myndi leysa hann af hólmi. Þá
var velt upp spurningunni hvort tölvu- og
tæknivæðing nútímans væri til þess fallin að
auka skilvirkni og gæði í skólastarfi.
Fjörugar umræður voru á fundinum en
í pallborði voru Anna R. Árnadóttir, leik-
skólastjóri Krógabóls, Hans R. Snorrason,
grunnskólakennari í Hrafnagilsskóla, Guð-
jón H. Hauksson, framhaldsskólakennari
í Menntaskólanum á Akureyri og Helena
Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi í Háskólan-
um á Akureyri. Fundarstjóri var Aðalheiður
Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ.
Fram kom að kennarar líta tækniþróun
nútímans jákvæðum augum og telja að
tölvu- og netvæðing geri það að verkum að
hægt sé að búa til fjölbreyttara námsefni,
ná betur til nemenda og gera námið meira
einstaklingsmiðað en áður. Hlutverk
kennarans var rætt og fram kom að eftir sem
áður verði það mikilvægt. Hversu tækni-
væddir sem nemendur eru þá verður alltaf
þörf fyrir mannlega handleiðslu; kennara
sem hefur yfirsýn, hvetur og veitir aðhald.
Hvenær verður nemandinn í forgrunni
en ekki kennarinn? spurði Helena Sigurðar-
dóttir kennsluráðgjafi. Hún sagði nem-
endamiðað nám hafa átt erfitt uppdráttar
hérlendis og þar þyrfti að bæta úr.
Kennsluhættir hafa tekið breytingum og
svo mun verða áfram. Fram kom að þörfin
fyrir einhæfa kennsluhætti, svo sem að lesa
upphátt af glærum, væri hverfandi en þess í
stað ættu menntayfirvöld að hvetja til útgáfu
námsefnis í tölvutæku formi, myndböndum
og öðru slíku sem hentaði betur í kennslu.
„Tilgangur skóla er að vera samfélag
utan um nemendur þar sem þeir vinna í
hópum og afsala sér ákveðnu einstaklings-
frelsi til hópsins og læra að búa í samfélagi.
Það er skóli og þess vegna getur kennari
ekki verið app,“ sagði Guðjón H. Hauksson.
NÁMSEFNI VERÐI ÓKEYPIS OG FRAMBOÐ AUKIÐ
Löngu er tímabært að ráðast
í aðgerðir til að auka framboð
á vönduðum og fjölbreyttum
náms- og kennslugögnum.
Náms- og kennslugögn eiga að
vera nemendum að kostnað-
arlausu frá upphafi leikskóla
til loka framhaldsskóla og í
tónlistarskólum til að tryggja
jafnrétti til náms óháð efnahag
og aðstæðum.
Svo hljóðar inntak ályktunar
sem var samþykkt á málþingi
Skólamálaráðs KÍ, sem fram
fór 5. september síðastliðinn. Ríflega 60 manns sóttu málþingið. Erindi fluttu Anna
María Gunnarsdóttir framhaldsskólakennari, Daníel Arason, fyrrverandi skólastjóri,
Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólakennari, Kristjana Hrafnsdóttir grunnskólakennari,
Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri, Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri,
Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri og Aðalheiður Steingrímsdóttir, varafor-
maður KÍ.
Meðal aðgerða sem fundurinn lagði til voru bætt aðgengi nemenda að tölvum
og tæknibúnaði, afnám skatts á bækur og úttekt á þörfum nemenda og kennara fyrir
vönduð náms- og kennslugögn. Hægt er að horfa á málþingið á vef Netsamfélagsins,
www.netsamfelag.is. Yfirskriftin er: Skóli framtíðar – námsgögn fortíðar.
KENNARAR ERU JÁKVÆÐIR Í
GARÐ TÆKNINÝJUNGA
Góð þátttaka var á umræðufundi KÍ sem bar yfirskriftina „Verður framtíðarkennarinn app?“
Anna R. Árnadóttir, Guðjón H. Hauksson, Helena Sigurðardóttir og Hans Rúnar Snorrason voru í pall-
borði á viðburði Kennarasambandsins á Fundi fólksins 2017 á Akureyri.