Skólavarðan - 2017, Síða 27
HAUST 2017 27
afar fjölbreytt en markmið áætlunarinnar
er almennt að auka gæði í menntun á öllum
skólastigum, efla sköpunargáfu, innleiða
upplýsingatækni og efla starfsmenntun.
Þjónustan þykir góð
Umsóknir eru afgreiddar á Landskrif-
stofunni við Borgartún og ekki fást allar
umsóknir samþykktar. Árangurshlutfallið
er mismunandi á milli flokka og á milli ára.
Ágúst segir að í mati sem gert var á fram-
kvæmd áætlunarinnar í öllum löndunum þá
hafi komið fram að fólk væri almennt sátt
við þjónustuna hér á landi.
„Við vorum mjög ánægð að heyra að
fólk væri sátt við þjónustuna, líka þeir sem
höfðu fengið neikvætt svar við umsókn. Fólk
fær endurgjöf, það er hægt að leita ráðgjafar
hér á á skrifstofunni um hvað megi bæta
en við höfum ekki tök á að setja fram mikið
af skriflegum athugasemdum um hverja
umsókn. Kennarar hafa alltaf verið duglegir
að hafa samband og svo er auðvitað til
stór hópur kennara sem hefur tekið þátt í
verkefnum og kennarar leita auðvitað mikið
hver til annars.“
Grunn- og framhaldsskólar eiga
eftir að verða alþjóðlegri
Erasmus+ er ekki bara stærsta mennta-
áætlun veraldar heldur er hún einnig
talin best heppnaða áætlunin í sögu
Evrópusambandsins. „Þessi áætlun hefur
verið velheppnuð frá upphafi og áhrifin á
þátttakendur meira og minna mjög jákvæð.
Það er erfitt að mæla nákvæmlega áhrifin á
stofnanir og á skólastigin í heild. Við sjáum
hins vegar hvað samstarf af þessu tagi getur
haft jákvæð áhrif á þróun einstakra skóla
og stofnana. Ég ætla að halda því fram að
Háskóli Íslands og þær miklu breytingar
sem hafa orðið síðustu 25 árin tengist
virkri þátttöku í Erasmus. Til þess að verða
fullgildur þátttakandi í áætluninni varð Há-
skólinn að auka kennslumagn á ensku. Við
það jókst áhuginn jafnt og þétt og nú tekur
HÍ við helmingi fleiri nemendum en þeir
senda út – það skapar forsendur fyrir enn
frekara alþjóðlegu samstarfi sem aftur eykur
burði skólans á alþjóðavísu. Þannig vindur
þetta upp á sig,“ segir Ágúst og bætir við að
sams konar dæmi megi sjá í leik-, grunn- og
framhaldsskólum, og einnig á ákveðnum
landssvæðum.
„Mögulega er alþjóðasamstarf af þessu
tagi enn mikilvægara í smærri skólasam-
félögum úti á landi. Þar má til dæmis
nefna Menntaskólann á Tröllaskaga
sem er sérdeilis virkur og til margra
ára hafa grunnskólarnir á Akureyri
verið mjög virkir svo dæmi séu tekin,“
segir Ágúst.
Til framtíðar litið þá telur Ágúst víst
að grunnskólinn og framhaldsskólinn muni
feta sömu leið og háskólarnir hafa gert á
undanförnum árum. „Þetta helst í hendur
við samfélagslegar og tæknilegar breytingar.
Við lifum í svo alþjóðlegu umhverfi, bilið á
milli landa er orðið svo lítið, hugmyndirnar
flæða hratt og nemendur eru fjölþjóðlegir í
öllum skilningi. Það má alltaf finna einhvern
í skólanum sem er fæddur í öðru landi eða
hefur búið í öðru landi. Heimurinn færist
sífellt nær og þess vegna held ég að bæði
grunn- og framhaldsskólarnir eigi eftir að
verða enn alþjóðlegri í framtíðinni,“ segir
Ágúst Hjörtur Ingþórsson að lokum.
Segir árið á Ítalíu hafa
breytt lífi sínu
Þóra Arnórsdóttir fjöl-
miðlakona var í hópi
þeirra fyrstu sem fóru utan
á vegum Erasmus. Hún hélt
til náms á Ítalíu og segir árið sitt þar
hafa breytt lífi sínu til frambúðar. ,,Ég
tel afar mikilvægt að áætlunin nái til
stærri hóps – ekki bara þeirra sem
fara í háskóla. Eins og við þekkjum á
Íslandi eru viðkvæmir hópar sem hætta
námi í menntaskóla, sem gæti skipt
miklu að fengju svona tækifæri. Eins er
stefnan sú að gera það auðveldara að
sækja nám í fleiri en einum evrópskum
háskóla, án þess að þurfa að semja um
mat á einingum o.s.frv,” sagði Þóra um
upplifun sína á vefnum www.erasmus.
plus.is.