Skólavarðan - 2017, Síða 51
HAUST 2017 51
Ragnheiður segir skýrsluna til vitnis
um að víða sé verið að gera frábæra hluti í
skólum hér á landi. „Við tölum hins vegar
ekki nógu mikið um það sem vel er gert og
mættum halda því betur á lofti. Hluti af því
gæti verið myndbandagerðin sem við ætlum
að ráðast í – þar gætum við vakið athygli
á því metnaðarfulla starfi sem unnið er í
skólum. Það eru nefnilega ótrúlega margir,
jafnt notendur sem veitendur, sem átta sig
ekki á að þeir eru vinna í anda stefnunnar
um menntun fyrir alla, t.d. þegar unnið
er að eflingu læsis, gegn brotthvarfi úr
framhaldsskólum og aðgerðir skóla gegn
einelti. Við þurfum að benda á þetta þannig
að fólk átti sig á því að andi skólastarfsins
er í takt við stefnuna menntun fyrir alla.
Fólk er auðvitað ekki að spyrja sig þessarar
spurningar á hverjum degi.“
Úttekt Evrópumiðstöðvarinnar kemur
út í íslenskri þýðingu innan skamms. „Við
höfum reynt að vanda mjög til þýðingar-
innar með það að markmiði að hún sé
ekki of tæknileg – án þess þó að vera ótrú
frumtextanum. Við viljum koma skýrslunni
í umferð og nota hana sem útgangspunkt.
Það er á sama tíma mikilvægt að nálgast
hvern hóp út frá hans forsendum; það er
ekki mitt eða okkar í stýrihópnum að messa
yfir fólki – heldur ætla ég að hlusta á fólk.
Ég hef mikið af upplýsingum sem ég get
speglað með fólki,“ segir Ragnheiður.
Sjálfstraustið mikilvægt
Menntun fyrir alla felur í sér uppbyggingu
lærdómssamfélaga um land allt. „Okkur
sem vinnum úr niðurstöðum úttektarinnar
er ætlað að skilgreina betur þjónustuna á
hverju svæði fyrir sig. Þetta snýst þó ekki
um að segja til um hvaða lágmarksþjónusta
þurfi að vera til staðar eða hvaða gólf við
getum sætt okkur við. Miklu frekar viljum
við geta sagt kinnroðalaust að við séum að
veita þjónustu sem hæfir á hverjum stað og
gæta jafnræðis um allt land og á milli skóla-
stiga. Um þetta atriði þurfum við að efna
til samtals um hvernig við getum virkjað
þjónustu á svæði þannig að allir njóti. Þegar
horft er til landshlutanna, sem eru mismun-
andi, þá þarf að hugsa vítt. Hvernig leysum
við þá staðreynd að við höfum ekki alla
sérfræðingana á staðnum? Getum við fengið
sérfræðing reglulega á staðinn eða er betra
að nýta netlausnir og fjarþjónustu? Fyrst og
síðast þarf þó að byggja upp sjálfstraust á
hverjum stað þannig að kennarar, skóla-
stjórnendur og aðrir sem koma að málum
fái á tilfinninguna að þeir séu nógu sterkir
til að halda uppi því sem er á þeirra könnu
og einnig að sækja þær bjargir sem upp á
vantar,“ segir Ragnheiður.
Lykilatriði er að byggja upp lærdóms-
samfélag. Það er þó ekki bara byggt upp
innan skólasamfélagsins heldur líka í
nærsamfélaginu. „Með þessu erum við að
búa til sameiginlegan mannauð, menningu
og þekkingu. Markmið okkar með samtalinu
er að halda áfram að sá þeim fræjum sem
við vitum að eru til fyrir og vinna áfram í
menningunni sem fylgir menntun fyrir alla.“
Skilningur ekki alltaf sá sami
Ragnheiður segir koma skýrt fram í skýrsl-
unni að kennarar upplifi sig vanmáttuga.
„Það er eins gott að við hlustum á það og
auðvitað höfum við orðið þess áskynja í
fjölmiðlum og víðar. Við þurfum að spyrja
hvað upp á vanti og hvers vegna kennarar og
skólafólk finni til vanmáttar. Svörin munu
fela í sér alls kyns skýringar en við erum þó
ekki að fara að kollvarpa einu eða neinu.
Við búum við gott menntakerfi en á sama
tíma vitum við að það þarf að styrkja nýja
kennara á vettvangi, taka betur á móti þeim
í upphafinu og búa svo um hnúta að þeim
finnist þeir ráða við verkefnið og skipuleggja
markvissa faglega starfsþróun fyrir alla.“
Þá segir Ragnheiður að fram komi í
skýrslunni að skilningur á inntaki stefn-
unnar sé oft ólíkur milli skólastiga. „Við
sjáum glöggt að leikskólinn er fullkomlega
í anda menntunar fyrir alla án aðgrein-
ingar. Nemendur í leikskólum eru ekki
flokkaðir með neinum hætti. Lögin okkar
bjóða upp á flokkun nemenda og það er
gert í mörgum grunnskólum, sumir eru
með sérbekki og svo eru skólar á borð
Klettaskóla, Hlíðarskóla og Brúarskóla sem
margir þekkja. Við megum ekki sjá fyrir
okkur að menntun fyrir alla sé alltaf þannig
að allir séu saman að gera allt. Við þurfum
að hugsa þetta út frá hverjum og einum
nemanda og réttindum hans til menntunar.
Ef nemandi með athyglisbrest er til dæmis
settur í 25 manna bekk þar sem honum er
gert að læra allt eins og hinir og einbeitingin
er farin eftir 5 mínútur – hvað þá? Sama
gildir um barn á einhverfurófi sem lætur
truflast af ljósum eða öðru. Við verðum
að skoða hvaða umhverfi hentar barninu
og hvaða kennsluaðferðir, starfshættir og
skipulag er líklegt til að virka. Ef kennari
breytir kannski aðferð þannig að barni með
athyglisbrest gengur betur þá njóta allir. Það
á ekki að líta á það sem vandamál – því ef
hægt er að breyta þannig að allir njóti góðs
af þá er takmarkinu náð.“
Hausatalning og fjármagn
Umræða um fjármagn er oft ekki langt und-
an þegar rætt er um skólakerfið. Ragnheiður
segir eina af stóru niðurstöðum skýrslunnar
þá að leik-, grunn- og framhaldsskólakerfið
hér á landi sé ágætlega fjármagnað þegar
á heildina er litið. „Þetta segir okkur að í
leiðslunum sé að finna heilmikið fjármagn.
Hins vegar sjáum við í svörum að margir
virðast ósáttir og segjast ekki fá nægilega
góða þjónustu og þetta á við jafnt um
veitendur sem notendur. Þetta segir okkur
að fjármagninu sé ekki dreift rétt og það má
segja að streymi fjármagns í skólakerfinu sé
að sumu leyti einstrengingslegt. Það er of
mikið tengt greiningu og fjárveitingakerfin
eru ekki nægilega samhæfð,“ segir Ragn-
heiður.
Hún segir skólastjórnendur þurfa að
reiða sig á að fjármagn fylgi nemendum með
greiningum. „Þetta hefur í för með sér að
þjónustan er ekki lifandi. Skólastjórnendur
eru að bíða eftir greiningu en hvað gerist á
meðan sú bið stendur yfir? Hvernig er með
nemandann? Við viljum sjá breytingar á
þessu þannig að fjármagn verði ekki svona
bundið við hausatalningu eða merkimiða.
Það er hægt að skoða hvert svæði eða skóla
lýðfræðilega, reikna út hversu margir að
jafnaði eru með viðbótarþarfir af einhverju
tagi og vinna með það. Skólastjórnendur fá
fjármagn í samræmi við það og geta dreift
því eins og þeir telja best til árangurs. Að
þessu leyti þurfum við að hætta að hugsa í
kössum og byrja að treysta stjórnendum og
kennurum til að meta hvernig þjónustan eigi
að líta út og hvernig efla megi þjónustu og
ráðgjöf við skóla.“
„Við tölum hins vegar
ekki nógu mikið um
það sem vel er gert
og mættum halda því
betur á lofti.“