Börn og menning - 01.02.1997, Blaðsíða 13

Börn og menning - 01.02.1997, Blaðsíða 13
BÖRN OG /v\ENN|NG ‘Ttté'i £ C ft tfs&t . . . *Vett(A<z*týun, 'ittHö^ccculci, o-y, m<f*tcttc&tcvicpuictu<z. Ég hef stundum haldið því fram, að ég sé að basla við að skrifa bækur sem börn geti líka lesið. Almennt eiga bækur helst að vera ætlaðar fólki — öllu fólki. Og víst er að ekkert vita böm betra en að njóta einhverrar ánægju með hinum fullorðnu, hvort sem það er bók, leiksýning, tónlist eða bara samverustund, sem börnin vita að gllir hafa nokkurt gaman af. Þetta þýðir auðvitað ekki að höfundur skrifi á sama hátt fyrir böm og fullorðna. í fyrsta lagi er málþroski lítilla bama hvergi nærri nægur til lesturs hvers sem er né heldur reynslu- heimur þeirra slíkur, að þau ráði við þann frumskóg sem heimur okkar hinna fullorðnu er. Það ætti að vera hlutverk okkar sem skrifum fyrir börn að leiða þau hægt og varlega inn í þann heim. Ofurvarlega. Það fer því ekkert milli mála að langtum vandasamara er að skrifa fyrir börn en fullorðna, sem ekki er alltaf metið sem skyldi. Menn hafa víða um heim gert sér ljóst að lestrarkunnátta kunni að vera í hættu vegna aðstreymis annarra fjölmiðla, börn og unglingar venjist af því að lesa langan texta og orðaforði rýrist svo mjög að fólk nálgist að verða ólæst. Grunnskólakennarar hér í landi heyja hetjulega bráttu gegn þessari þróun og oft með ágætum árangri, svo að enn sem komið er lesa íslensk börn umtalsvert magn bóka. Það er því verðugt verkefni fyrir rithöfunda að skrifa fyrir börn, en hvort tveggja er að slíkar bækur skila miklu minni tekjum fyrir höfundana en bækur fyrir fullorðna og eru oft dýrari í útgáfu, einkum bækur fyrir allra yngstu börnin, þar sem þær krefjast mikilla myndskreytinga. Og ekki er síður mikilvægt að börn kynnist góðri myndmennt. Það ætti því að vera kappsmál stjórnvalda að hlúa að blómlegri bókaútgáfu handa yngstu lesendunum með einhvers konar stuðningi, en á því hefur ekki verið sýnilegur áhugi. Höfundur barnabókar sem vandar sig gerir sér ljóst að bók ætluð börnum lýtur öllum sömu lögmálum og bók fyrir fullorðið fólk. Hún þarf að hafa trausta byggingu, vera á góðu máli og persónusköpun þarf að vera skýr og umfram allt verður hún að vera skemmtileg, þ.e.a.s. að vekja áhuga lesandans. Barnabók sem börnunum leiðist að lesa er lítils virði, eins og raunar gildir um allt fólk og allar bækur. Ég hygg að skrifa megi fyrir böm um flest það sem fyrir ber í mannlegu lífi og engin nauðsyn sé að hlífa þeim við staðreyndum lífsins. Heimur bamanna er ekki miklu rósrauðari en foreldranna og fölsun á veruleikanum er andstæða allrar góðrar listar. Þvert á móti á listin að varpa ljósi á hann, mörgum ljósum, en ekki sveipa hann þoku og myrkri. Meginatriðið er að farið sé að með gát. Gleði, sorg, reiði og dapurleiki mega ekki renna saman í tilfinningalegan rugling, sem barnið fær ekki unnið úr. Slíkt kann að vekja barninu angist sem ekki er æskilegur fylginautur þess. Barninu þarf að gefa væntingar til lífsins, styrkur til að takast á við það, svo að það verði sterkara að lestri loknum. Fmmkrafa til þeirra sem taka að sér óumbeðnir þá ábyrgð að hafa áhrif á annarra manna börn — vonandi er ætlunin að þau áhrif séu þroskandi og góð — geta það því aðeins að þeim þyki vænt um börn. Bækurnar þurfa að vera börnunum gleðigjafi sem gerir þau að ötulum lesendum ævina út. Án lesenda verða engir rithöfundar og stöðnun tungunnar blasir við. Og hvar erum við þá stödd? Höfundurinn, bókin, lesandinn er þrenning sem ekki verður aðskilin. Hún er næstum heilög hverri þeirri þjóð sem vill búa í frjálsu og sjálfstæðu samfélagi hugsandi einstaklinga. Og er það ekki það sem við viljum vera um alla framtíð hér í landinu okkar? Guðrún Helgadóttir

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.