Fréttablaðið - 06.03.2021, Side 28

Fréttablaðið - 06.03.2021, Side 28
Á mánudaginn verða liðin 30 ár frá því að Jón Gísli Sigurðsson og Hafsteinn Hálf-dánarson héldu af stað frá Reykjavík til Ísafjarðar. Lík þeirra fundust nokkru síðar uppi á Steingríms- fjarðarheiði. Þeir voru 18 og 19 ára gamlir. Dánarorsökin var sögð að þeir hefðu orðið úti. Mál þeirra vakti litla sem enga athygli á sínum tíma og er það ekki fyrr en nú sem einhverju ljósi er varpað á þetta örlagaríka ferðalag. Á mánudaginn verða frumfluttir í hlaðvarpi RÚV útvarpsþættir Snærósar Sindra- dóttur, Heiðin, þar sem hún ræðir við þá sem að málinu komu, sem og fólk sem þekkti Jón Gísla og Haf- stein. „Þetta er mál sem kom til mín árið 2017 þegar ég var að vinna á Fréttablaðinu. Ég var leiðandi þar í að fjalla um hvarf Birnu Brjáns- dóttur. Í tengslum við  það ræddi ég töluvert í fjölmiðlum um múg- æsinguna sem myndaðist áður en hún fannst. Það var allt morandi í sjálfskipuðum rannsóknarlöggum og eina nóttina var ég að vinna til fimm um nóttina en þá var hópur fólks að leita við Hvaleyrarvatn. Þá var einnig mikið af sögum í gangi um grænlenska togara og um meint glæpsamlegt athæfi þar um borð. Það var í því umhverfi sem góður samstarfsfélagi minn, Svavar Hávarðsson, mundi eftir sögu sem hann hafði heyrt 24 árum áður um grænlenskan togara sem tengdist mögulega hvarfi á tveimur ungum mönnum árið 1991.“ Gömul saga kemur upp Sagan sem Svavar sagði var eftir- farandi. „Tveir ungir menn fóru til Ísafjarðar og urðu úti á Steingríms- fjarðarheiði, en lögreglan hafði ekki rannsakað tilgang ferðarinnar. Ástæða ferðarinnar var sú að þeir höfðu mælt sér mót við grænlensk- an togara til að selja skipverjum fíkniefni. Sá bakgrunnur leiddi til þess að sögur um hvarfið fóru á flug á meðal fjölskyldu og vina. Kenn- ing margra var að þeir hefðu verið myrtir af grænlenskum sjómönn- um sem eltu þá upp á heiðina.“ Snærós ákvað að kynna sér málið. „Ég komst f ljótlega að því að það hafði nánast ekkert verið fjallað um þetta mál. Það voru sagðar fréttir af leitinni frá 16. mars, en ekki mikið meira en það. Þeir lögðu af stað vestur 8. mars og snúa til baka sama dag, sem ég taldi mjög óvenjulegt. Á þessum tíma var keyrð lengri leið en í dag, ferðalagið hefur tekið þá að minnsta kosti um átta tíma aðra leið. Ég komst seinna að því að þeir ætluðu að stoppa á Ísafirði í tvo daga, en þeir lögðu af stað til baka til Reykjavíkur nokkrum klukku- tímum eftir að þeir komu í bæinn.“ Í minningargrein um annan þeirra fann Snærós nafn systur hans, konu sem hún kannaðist við. „Með hennar aðstoð fæ ég að vita meira um bakgrunn málsins. Fjöl- skyldan hafði óteljandi spurningar en hafði alla tíð verið neitað um lögregluskýrslurnar. Málið kemur aldrei inn á borð lögreglunnar fyrir sunnan. Lögreglan á Hólmavík var fyrst á vettvang, málið fer svo inn á borð lögreglu á Ísafirði. Skjölin voru komin á Landsbókasafn en ég þurfti aðstoð systurinnar til að verða mér úti um þau,“ segir Snærós. Lögregluskýrslan þunn Átti Snærós von á þykkum bunka af pappírum en skýrslan sem hún fékk í hendur var hins vegar mjög þunn. „Mér varð ljóst að lögreglan hafði aldrei velt því upp hvað tveir ungir menn, 18 ára og 19 ára, hefðu verið að gera uppi á heiði um miðja nótt að vetri til, á bláum Volvo á sumardekkjum. Það var aldrei hluti af rannsókninni hvers vegna þeir fóru til Ísafjarðar og hvers vegna þeir fóru aftur sama dag.“ Snærós fékk gögnin vorið 2017, stuttu síðar skipti hún um vinnu og fór að starfa sem verkefnisstjóri RÚV Núll. Á meðan voru gögnin í náttborðsskúffunni. „Mér fannst þetta mál ekki eiga heima á síðu í Fréttablaðinu. Ég hef samt alltaf ætlað að gera eitthvað með þetta. Síðasta vor var svo skorað á mig að klára þetta bara.“ Hóf hún þá að hafa samband við fólk og taka við það viðtöl. „Sumir vildu ekki tala við mig, þá er það bara þannig. Eitt skiptið var ég mætt heim til manns sem mér skildist að vildi koma í viðtal en var rekin öfug út. Þegar á hólminn var komið fannst honum ég vera að garfa í málum sem voru honum sár og vildi ekki ræða við ókunnuga manneskju um mál sem honum þótti að kæmi engum við. Ég skil það sjónarmið alveg.“ Eiga inni að fjallað sé um þá Vekur það upp siðferðislegar spurningar um hvort það eigi yfir- leitt að fjalla um mál sem eru fólki sár, í þessu tilfelli mál þar sem gróið hefur yfir sárin í þrjá áratugi. Sýkt sár gróa hins vegar seint. Er það jafnvel spurning um sanngirni eða virðingu að saga þeirra Hafsteins og Jóns Gísla sé sögð. „Jón Gísli og Hafsteinn eiga það inni hjá blaðamönnum að um þá sé fjallað. Ég man eftir að hafa fjallað um fólk sem hefur horfið. Minnis- stætt er mál tveggja kvenna sem hurfu í gljúfri á Suðurlandi. Við gerðum þeim missi þau skil sem við gátum, auðvitað er það sárt en þetta snýst um ákveðna virðingu að sagan sé sögð. Þarna erum við með tvo menn sem hurfu og fundust, en enginn veit hverjir þeir eru. Það eru sum mannshvörf hér á landi sem eru á allra vörum. Í þessu máli eru persónur og leikendur hins vegar öllum hulin ráðgáta. Það á enginn skilið að gleymast svona hratt.“ Færa má rök fyrir því að það sé hluti af þjóðarsálinni að hugsa til þeirra sem hafa horfið. Er það meðal annars hluti af persónu- sköpun Erlendar Sveinssonar í bókum Arnaldar Indriðasonar. Á það einnig við um þá sem hafa horf- ið og fundist látnir. „Það er erfitt að segja nákvæmlega hvað það er við svona mál. Við veltum þessu ekki mikið fyrir okkur þegar um er að ræða erlenda ferðamenn, þau mál eru yfirleitt afgreidd þannig að við- komandi hafi ekki þekkt íslenskar aðstæður. Svo kemur að málum eins og í tilfelli Birnu og Einar Arnar Birgissonar þar sem almenningur vill taka þátt í að leita og hjarta þjóðarsálarinnar slær með fólkinu. Í máli Hafsteins og Jóns Gísla sýndu fjölmiðlar og almenningur engan áhuga.“ Það kom margt óvænt í ljós þegar Snærós hóf að taka viðtölin. „Það sem kom við mig var að þeir sem áttu að þekkja þá, miðað við þær upplýsingar sem ég hafði, mundu margir hverjir ekki eftir þeim. Áttu engar minningar af þeim.“ Er það til marks um að kannski sé of langur tími liðinn til að rétt mynd fáist af atburðunum og persónum þeirra. „Ég hefði ekki þurft að grafa svona mikið ef allir hefðu unnið vinnuna sína árið 1991.“ Hefur þér tekist að leysa hvað gerðist 8. mars 1991? „Ég er búin að ná að svara fullt af spurningum sem fjölskyldan hafði. Ég er búin að ná að púsla saman stóru myndinni. En svo er það þann- ig að það eru bara tveir menn sem vita nákvæmlega hvað gerðist þessa nótt uppi á Steingrímsfjarðarheiði og þeir eru ekki til vitnis um það.“ Það vantar þó aðeins upp á heildarmyndina. „Það er eitt stórt púsl, hornpúsl, sem mér hefur ekki tekist að leysa. Ég vonast til þess, þó ólíklegt sé, að einhver þarna úti hlusti á þættina og viti. Það er minn draumur að einhver hafi samband eftir þættina og komi með það púsl. Þá get ég gert aukaþátt,“ segir Snærós glettin. Fyrsti þátturinn af þremur verður aðgengilegur í hlaðvarpi RÚV á mánudaginn. Þættirnir verða jafn- framt fluttir í útvarpi í páskadagskrá Rásar 2. MÉR VARÐ LJÓST AÐ LÖG- REGLAN HAFÐI ALDREI VELT ÞVÍ UPP HVAÐ TVEIR UNGIR MENN, 18 ÁRA OG 19 ÁRA, HEFÐU VERIÐ AÐ GERA UPPI Á HEIÐI UM MIÐJA NÓTT AÐ VETRI TIL, Á BLÁUM VOLVO Á SUMARDEKKJUM. Þrjátíu ára ráðgáta óleyst Þrjátíu ár eru liðin frá því að tveir ungir menn létust á Steingríms- fjarðarheiði. Lögreglan rannsakaði aldrei hvað mennirnir voru að gera fyrir vestan, en fjölskyldan taldi að þeir hefðu verið myrtir. Snærós Sindradóttir fjölmiðlakona sökkti sér ofan í málið. Ari Brynjólfsson arib@frettabladid.is Hafsteinn Hálfdánarson, 18 ára. Jón Gísli Sigurðsson, 19 ára. Björgunarsveitarmenn við leit á Steingrímsfjarðarheiði. MYNDIR/TIMARIT.IS Snærós gerir hlaðvarpsþætti þar sem hún varpar ljósi á hverjir piltarnir voru og hvað gerðist . FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR Fréttir voru sagðar af leitinni en ekki var mikið meira fjallað um málið. 6 . M A R S 2 0 2 1 L A U G A R D A G U R28 H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.