Studia Islandica - 01.06.1986, Side 18
16
Framvindu þjóðsögunnar má nú greina í sjö stig: 1) upp-
haflegt jafnvægi og bæling, 2) fyrra brot, 3) ólöglegt ástar-
samband, 4) tilraun til aðlögunar, þ. e. gifting stúlkunnar,
5) misheppnuð aðlögun, 6) síðara brot, 7) dauði elskend-
anna. Veigamikill munur er á brotunum tveimur. í fyrra
tilvikinu eru elskendurnir lítt meðvitaðir um bælinguna og
afleiðingu brots síns, öðrum þræði er það kvendómsvígsla
því stúlkan er vart komin af barnsaldri, saklaus og ósnort-
in. í síðara tilvikinu er mótsetningin meðvituð. Elskend-
urnir vita að ást þeirra er brot gegn guðs og manna lögum,
svo og að hún er banvæn. Þjóðsagan leiðir m. ö. o. í ljós að
mótsetningin er ósœttanleg. í baksýn má greina samfélag,
sem fordæmir frjálst kynlíf og sér í því eitthvað óttalegt og
dýrslegt, samfélag, sem viðheldur sjálfu sér með því að
bæla náttúrlegar hvatir manna. Sagan „gagnrýnir“ þetta
samfélag og er öðrum þræði skáldleg uppreisn, málsvörn
hinnar upprunalegu mennsku, ásthneigðarinnar.
Saga matseljunnar á sér margar systur meðal þjóðsagna.
Ófáar taka þó, andstætt henni, svari hinnar opinberu hug-
myndafræði. í þeim er hinn hugþekki heimur goðkynjaðs
huldufólks orðinn að demónskri veröld tröllslegra óvætta,
ástin að áhrínsorði, djöfullegri leiðslu. Gott dæmi má finna
í klerklegu riti frá 13du öld, Jóns sögu helga:
Maður nokkur, Sveinn að nafni, lifði „ljótligu lífi“, segir
sögumaður; hafði hann nálega kastað kristinni trú og
gleymt því siðferði, sem mönnum byrjar að hafa, „farandi
ráðlausliga, einreikull, hirði ok hugsaði eitt ok annat.“
Hafði maður þessi ærst fyrir „ást nökkurs sjónhverfiligs
skrimsls“, er honum sýndist vera kona, há vexti og væn að
áliti. Segir sögumaður að hún hafi villt Sveini sýn svo að
hann gleymdi öllu siðlegu líferni.7
Örlög þessa elskhuga verða önnur en selmatseljunnar
því Jóni biskupi tekst að kúga hann til iðrunar og réttrar
reglu á nýjan leik. í fyrri sögunni brýtur hið erótíska af sér
öll bönd siðgæðis með „katastrófískum“ afleiðingum. í síð-
ari sögunni fellur hins vegar allt í ljúfa löð. Forsendurnar