Studia Islandica - 01.06.1986, Page 30
28
sandfokið, óvissan og sársaukinn óviðráðanleg örlög, sem
einungis verður aflétt um stundasakir.
Kjarni hinnar rómantísku hugsjónar er eining, sem birst
getur með ýmsum hætti: í sambandi manns við guð, nátt-
úru eða aðra mannveru. í öllum tilvikum brýst einstak-
lingurinn úr einveruprísund og verður eitt með umheimi.
Rómantíkerar trúðu á endanlega lausn þeirrar þverstæðu,
sem lýst var hér áðan. í þeirra augum er einingin lögmál
lífsins, jafnt á kosmísku sem sálfræðilegu sviði. Þeir höfn-
uðu hugmyndum um mann-andspænis-heimi og settu í
þeirra stað fram kenningu um mann-í-heimi, álitu að
skautin tvö væru í raun eitt. Skynjun þessarar einingar fól
í sér að þeirra hyggju opinberun hins algilda, fullkomna. í
dag hrista menn hlekki sína án þess að geta slitið þá, þörfin
er söm og áður en trúin ekki. Þorgeir Þorgeirsson hefur
lýst þessari breytingu í „Bréfi til Sigurðar málara“. Þar seg-
ir hann meðal annars:
Þín kynslóð hafði tilhneigingu til að ræða um Frelsið og Ástina með stór-
um stöfum hvortveggja. Hugtök ykkar voru massíf og traust, nánast áþreif-
anleg frá okkar sjónarhóli í dag. Mér liggur við að segja að þau hafi haft lit
og lögun.
Ég hef það til marks um aðra reynslu, fleiri vonbrigði kanski að hugtök
okkar eru varfærnislegri og loftkenndari í dag, en samt þarf það ekki endi-
lega að merkja að okkur sé minna niðrifyrir.11
Hin rómantíska ást er sjálfstæður og „massífur“ veru-
leiki. Þegar manninn síst varir dettur hún yfir, hrífur með
sér, heltekur. Hún er alger: manneskja gengur hjá og til-
veran breytir öll um svip, hlutirnir verða gegnsæir og þráin
ein veruleg, mynd hennar þurrkar út umhverfið og þú flyst
nálega yfir á annað tilverusvið, einsemdin er ekki lengur
þín heldur fjarvera hennar. Ástandið líkast algleymi eða
innblæstri, galdri. Skemmtilegt dæmi um þetta er lýsing
Þorgils gjallanda á ástum þeirra Þórarins og Sigríðar í
Gömlu og nýju. Hún felur í sér stígandi, sem höfundur tjá-
ir með myndmáli, geðhrifin sveiflast frá blygðunarkennd til
glötunartilfinningar.12