Studia Islandica - 01.06.1986, Page 140
138
sögu Þorgils. Þuríður, systir söguhetjunnar, er rómantísk
meyja en um leið sýnir hún söguhetjunni móðurlegt
ástríki, sem hefði getað hafið hana upp úr óviðunandi
ástandi og skírt hana til nýs lífs. Líkt og móðirin er hún
ímynd friðarins, hreinleikans, upphafsins.
Samtíðin sigraði Þórarin og Sigríði. í Upp við fossa bíða
söguhetjurnar ósigur fyrir fortíðinni, arfur þeirra gerir
lausn óhugsanlega. Þemað er að þessu leyti hið sama og í
Gengangere Ibsens (1882): Fædrenes synder hjemspges pá
bprnene. Líkt og Ibsen fjallar Þorgils um ástarsamband
hálfsystkina, sem ekki vita af skyldleika sínum. Orsökin:
spillt samfélagsgerð, sem viðheldur sjálfri sér með blekk-
ingum og kúgun tilfinninga. Það kallar andlegar og sið-
ferðilegar hrakfarir yfir fólk og ber í sér sína eigin upp-
lausn því að það getur ekki endurnýjast með eðlilegum
hætti. í Gengangere heyr kona baráttu fyrir hamingju sinni
sem konu og móður en bíður ósigur af því að hún hefur
gert málamiðlun við siðferði, sem hún fyrirlítur. Faðirinn í
sögu Þorgils reynir einnig málamiðlun með því að leyna
faðerni sonar síns en uppsker aðeins niðurlægingu og sorg.
í báðum tilvikum veldur viðtekin siðaskoðun því að fólk
getur ekki leyst mótsagnirnar í eigin lífi. Afturgöngur for-
tíðarinnar sveima um á meðal þess og breyta því í aftur-
göngur svo að tekin sé líking.79
Ákveðna stígandi má lesa í Upp við fossa. Fyrri ástar-
sagan sýnir þær aðstæður, sem gera ástina útlæga úr mann-
legu félagi, sú síðari skilgreinir innri mótsetningar í þessum
aðstæðum. Öðrum þræði er verkið þroskasaga Geirmund-
ar og sýnir hann á leið frá sakleysi um reynslu til uppgjafar
og loks „uppreisnar“, leið, sem einkennist af sívaxandi vit-
und um erótískan og félagslegan veruleika. Lýsing Geir-
mundar felur í sér sams konar minni og Önnu í sögu Gests:
andstæðu upplags og aðstæðna, lyndis og lífskjara, vilja og
getu. Hann er mörgum góðum kostum búinn og ber af öðr-
um mönnum hvað snertir greind, yfirbragð og dugnað. En