Studia Islandica - 01.06.1986, Blaðsíða 145
143
ar Geirmundur saman erótískri og félagslegri reynslu sinni.
Augu hans hafa opnast fyrir tvískinnungi og ómannúðlegri
dómhörku fólks, auk þess sem hann sér innihaldsleysið í
mörgum boðum og siðum. Reynslan hefur kennt honum
bölsýni, sem á köflum nálgast mannhatur. Andstaða Geir-
mundar beinist þó ekki gegn skipulaginu sem slíku heldur
afleiðingum þess. Enn hefur hann trú á ýmsum aðiljum
innan þess, einkum séra Jósteini, sem er í hans augum tákn
heiðarleika og mannúðar.
Geirmundur er á þessu skeiði sannfærður um eigin sekt,
hugmyndafræði bælingarinnar nagar hann að innan. En
samtímis fæðist ný tilfinning, sem heldur honum frá ör-
væntingu og uppgjöf. Ung stúlka, Puríður, dóttir Jósteins
prests, leggur hönd sína á öxl hans: „Friður og ró, líkn og
hugsvölun færðist yfir sál og líkama Geirmundar, eins og
hún hefði með saklausri vinarhendi dregið af honum synd
og sekt.“ (194) Þuríður er sakleysið, sem Geirmundur
hafði týnt, lífið, sem hann dreymir um að vinna á nýjan
leik. í henni finnur hann form fyrir þörf sína á samlíðun,
fyrirgefningu - félagslegri samlögun:
[. . .] og hún leit til hans hreinu, björtu augunum, sem honum virtist
mundu sjá gegnum holt og hæðir, lýsa friði og heiðviðri yfir lífið, má dökku
dílana burtu; hann hélt í höndina, sem lá kyrr, fullt svo lengi og títt er,
horfði beint framan í sakleysið, sakleysið sem hann hafði týnt, var nú svo
einráðinn að leita eftir; sannarlega var þó sakleysið til og nú mátti hann
horfa á það, þurfti ekki að líta til jarðar. (163-164)
Upphaf þessarar ástarsögu er þannig gjörólíkt upphafi
hinnar fyrri, enda er því lýst með kristilegu líkingamáli.
Þuríður er á flestan hátt andstæða Gróu heil og óspillt,
hrein og björt meyja, með græðandi mátt móður. Kærleik-
ur hennar þvær alla synd af Geirmundi, reisir hann til nýs
lífs - að hann heldur. Hlutverkum þeirra Gróu og Þuríðar
fyrir hann, þegar hér er komið sögu, má lýsa á eftirfarandi
hátt: