Studia Islandica - 01.06.1986, Page 162
160
bundnu tvískiptingu mannssálarinnar í „efra“ og „neðra“;
annars vegar er svið „göfugra tilfinninga“, sem hefja
manninn upp á við, hins vegar svið dýrslegra ástríðna, sem
draga hann niður á við. Þessi tvískipting er, eins og komið
hefur fram, ein af hugmyndafræðilegum forsendum bæl-
ingarinnar. Hið „óstjórnlega“ eðli erosar er fordæmt og
jafnaðarmerki sett á milli ástríðna og lasta, hið hvatræna
bannsungið. í mörgum sögum beinir Jónas spjóti sínu gegn
hinum ástríðuhöldnu, þeim, sem einskis svífast til að full-
nægja þörfum sínum þótt þeir brjóti með því guðs og
manna lög. Góð dæmi eru Ólafur biskup í Randíði á
Hvassafelli og Magnús í Magnúsar þætti og Guðrúnar.
Báðir eru „tilfinningalausir“ óþokkar, þ. e. þá skortir sam-
visku og siðgæðiskennd, og stjórnast af djöfullegum
hvötum. Ólafur: manna grimmastur og fégráðugastur og
notar vald sitt til að steypa saklausum í glötun. Magnús: of-
stopafullur ríkismaður, drykkjurútur og saurlífisseggur,
taumlausar hvatir draga hann til skírlífisbrota og loks
grimmdarlegs morðs. í sögum þessara þokkapilta sækir
höfundur efni sitt til tíma þegar undirokunin gerðist hvað
verst. Þrjótarnir hljóta þó báðir „makleg málagjöld“, því
Magnús glatar öllu fyrir dómi og gefið í skyn að Ólafs bíði
refsing annars heims.
Þótt heimsmynd Jónasar sé frábrugðin heimsmynd Gests
og félaga sverja mörg verk hans sig í ætt við raunsæisstefn-
una. Sum þeirra hverfast til að mynda um ástina og nei-
kvætt samband hennar við samfélagslegt umhverfi. Stíll
þeirra er og oft hrollvekjandi raunsær. Merkilegasta sagan
af þessu tagi er skáldsagan Úr blöðum Jóns halta, sem
prentuð var í Nýjum kvöldvökum árið 1913. Öðrum þræði
er verkið hetjusaga manns, sem lifir af mikla niðurlægingu
og þjáningu. Hann verður fyrir barðinu á vægðarlausu
samfélagi og „kaldhæðni örlaganna“, þrýstist inn í myrkur
vonleysis og uppgjafar en þaðan að lokum fyrir mátt ástar.
í augum heimsins er hann úrhrak, fyrirlitinn og hæddur,
nánast útskúfaður. Innra með honum berjast hins vegar