Studia Islandica - 01.06.1986, Page 175
173
illmennis“ í sögunni er hún samsettur persónuleiki - ólíkt
Þuríði í Kœrleiksheimilinu. Borghildur er málsvari hefð-
bundinnar stéttaskiptingar, en tilraunir hennar til að halda
við status quo enda með ósköpum af því hún rís of hátt í
hroka sínum og tekur sér ónáttúrlegt vald yfir lífi annarra.
Framferði hennar leiðir til upplausnar í samfélaginu og
miðdepill þess, heimilið í Hvammi, sundrast. Sonurinn
leggur fæð á móður sína, húsbóndinn leggst í bæjaflakk og
hjúin gerast ótrygg. Sjálf einangrast Borghildur og glatar
virðingu samsveitunga sinna, kvenskörungurinn verður að
trúð. Hennar eigin dramb slær hana að lokum niður. Við
líkamlegt áfall losna tilfinningaleg öfl úr læðingi og hún
gerir yfirbót, reynir að sameina á ný það, sem hún hafði
sundur brotið. Það fellur hins vegar í hlut Höllu að sætta
mæðginin og sameina fjölskylduna í Hvammi. Hið endur-
reista samfélag er þó með öðrum hætti en áður; það er
samfélag sigraðs fólks, vaxið af falli og dauða.
í 3. og 4. hluta sagnabálksins fellur saga Höllu að nokkru
í skuggann, en framvindan, sem hófst í 2. hluta, heldur þó
áfram. Halla er nú komin í hlutverk hins miskunnsama
Samverja, hefur þroskast og yfirunnið hatrið, lært að fyrir-
gefa. Eftir dauða Jóhönnu kvikna ástartilfinningar með
þeim Þorsteini, en bæði beygja sig fyrir aðstæðunum. Halla
er sátt við hlutskipti sitt í ástlausu hjónabandi og tekur
skylduverkið fram yfir sjálfa sig.
Síðasti hluti verksins fær á köflum mýþíska dýpt því
hann lýsir raun, þar sem Halla gengur nánast í gegnum
dauðans dyr til nýs lífs. Hámarki nær frásögnin þar sem
Halla brýst til byggða í hörkufrosti og grimmdarveðri.
Heima sitja börn hennar sjúk í niðamyrkri andspænis líki
föður síns. Á leiðinni heyrir Halla á dauðastríð fatlaðs
niðursetnings, sem dvalist hafði hjá henni, en getur ekki
hjálpað, kemst sjálf með naumindum til bæja. Þessi bók
lýsir endanlegum ósigri heiðarbúanna - en um leið sigri,
því að lífið stenst eldraunina. Halla og börn hennar lifa af,
komast af heiðinni til manna. Við sögulok er skilist við