Studia Islandica - 01.06.1986, Page 185
183
bjargað frá drukknun á seinustu stundu af Hjalta. En sag-
an túlkar þetta atvik út frá guðlegri stjórnun, enda mælir
Páll lögmaður: „Petta er dómur drottins.“ (206) Forsjónin
tekur fram fyrir hendur mannanna. Á þessari stundu rofn-
ar hinn mannhverfi heimur og lögmálið opinberast, hin
„raunsæislega“ frásögn breytist í ævintýri eða öllu heldur
dæmisögu.
Atvikið í fljótinu jafngildir tvöfaldri skírn. Hjalti leysir
sig úr útlegðinni með því að vinna „hið mikla kærleiks-
verk“ og bjarga versta fjandmanni sínum frá dauða. Hann
hefur sigrast á illum hneigðum sjálfs sín, staðist raunina -
og fyrirgefið. Páll rís einnig til nýs lífs úr vatninu. Atvikið
þýðir fyrir hann lausn frá hatri, tortímingarfýsn og ein-
semd. Honum lærist að beygja skap sitt eftir að hafa auð-
mýkst fyrir versta óvini sínum. Áður hafði hann lifað í
„myrkri“ og „þoku“, umsetinn fjandmönnum og aðhlægj-
endum; nú opnast himinninn og sólskinið steypist yfir hann
í stórum fossum. (235)
Lausnaraugnablikið leiðir til þrefaldrar sameiningar í
heimi skáldsögunnar: elskenda, ættar, samfélags. Hámarki
nær hún í brúðkaupi Hjalta og Önnu, þar sem gamlir
fjendur sættast heilum sáttum: lögmaður og Eyfellingar,
Hallur grámunkur og Steinn á Fit o. fl. Elskendurnir ná
saman á nýjan leik og hefja „nýtt líf“ á kostamiklu höfuð-
setri í Fljótshlíð. Lýst er friði, einingu og sátt, sem ná ekki
aðeins til sögufólksins, heldur og náttúrunnar, tilveran öll
verður að dýrlegum gleðileik: „Það var sem suðurhimininn
speglaði, ekki einungis alt ísland, heldur ótal undralönd að
baki þess langt úti í regin-norðri, norður í hafsbotnum,
æfintýralönd, sem ekkert dauðlegt auga hafði litið.“ (239)
Hjalti og Anna hafa fundið sína „paradís“ að nýju. Að
einu leyti er hún þó ólík hinni upphaflegu. Reynslan hefur
rist þau rúnum og þau þroskast af því „að vinna sér frelsi
með þraut“. Hið nýja líf er ekki vellíðunin einber, eins og
í rómantísku sögunum, heldur samfall vellíðunar og þraut-
ar. Um það bera vitni orð Önnu undir lokin: