Studia Islandica - 01.06.1986, Page 210
208
Maðurinn er og alger andstæða eiginmannsins, álitlegur í
betra lagi. Að vísu er útliti hans lítið lýst, aðeins augun
taka á sig form í textanum, gluggar sálarinnar - móleit og
heillandi. Samdrátturinn á sér stað í gegnum fingraleik
Ólafar, sem fer mjúkum höndum um sár Þórhalls, og
augnaleik; lýsingin að því leyti hefðbundin.
Sambandið við Þórhall vekur Ólöfu upp frá dauðum til-
finningalega séð, enda er það líkast trúarlegri opinberun:
Nú kom uppbótin, endurfæðingin, endurlausnin mín og upprisan. Þarna
kastaði sálin af sér fjötrunum og tötrunum og varð laus úr læðingi
sínum. (117-118)
Myndmálið er kristilegt en einnig ber mikið á líkingum í
anda Gests Pálssonar. Ástin er leysing, fljót, sem brýtur af
sér klakabrynju langvinns vetrar. Vatnið er að jafnaði í
miðju myndar. Ólöf líkir sjálfri sér við lind, sem verið
hafði dauður stöðupollur, slýfóstra og ormamóðir, en er nú
tær og lífræn uppspretta.
Sársaukinn vekur Ólöfu fljótt af „hugsæisdvalanum".
Hún minnist þess að ást hennar er meinbugaást, veruleik-
inn kemur til hennar í formi skyldunnar: „Var ég svika-sek
við manninn minn og dóttur mína?“ (123) Hin gegnsæja
ást öðlast nú þéttleika því að Ólöf verður að velja, taka
ábyrgð á gjörðum sínum. Fyrst í stað vill hún fylgja þrá
sinni hvað sem það kostar. Á því augnabliki verður hún
heil í fyrsta sinn - tilfinning hennar og veruleiki eitt:
„Eg gæti gengið út í eld og vatn“, svaraði eg, „ef eg ætti til þín að vinna.
Eg skal afsala mér barninu — öllu, öllu skal eg afsala mér þín vegna, ef eg
held þér.“ (134)
En þetta augnablik vals og uppreisnar er ekki annað en
stundaralgleymi. Skynsemin er sterkari þránni. Þórhalli er
ljóst að ást þeirra er „eins og ævintýr austan við sól og vest-
an við mána“; (134) hún er „loftkastali, langt fyrir ofan
jörðina, eða neðan, - þar er ekkert upp né niður.“ (132)