Studia Islandica - 01.06.1986, Page 238
236
Þá var sem glóandi járni væri stungið gegnum höfuð Hrólfs og hann flúði
á brott, óður af ótta, án þess að gera sjer hina minstu grein fyrir því, er um-
hverfis var. Og andarnir eltu hann æpandi, hvæsandi og öskrandi eins og all-
ir djöflar helvítis hefði sloppið út. Það lá við að óhljóðin sprengdu hljóð-
himnurnar í eyrum hans og alt varð eldrautt fyrir augum hans. En á undan
honum valt höfuð uppvakningsins f snjónum eins og gulur logi, illúðlegt og
afskræmt . . . (127)
í þessari sögu er hið demónska ekki aðeins afleiðing
sjúks hugar heldur veruleiki. Höfundur leikur ekki, líkt og
Jóhann Sigurjónsson, á strengi óvissunnar.
7. atriði: Lokaatriðið í harmleik Hrólfs gerist á gamlárs-
kvöld. Þá er haldin hátíð á prestssetrinu og dansaður álfa-
dans umhverfis bál til að fagna nýju ári og berja niður tröll-
skap vetrarins. Sólrún og Sigvaldi eru álfakóngur og álfa-
drottning, fögur svo allir falla í stafi, æskuglöð og fagn-
andi. En þegar hátíðin stendur sem hæst kemur Hrólfur að
„náfölur í framan og augu hans tryllileg“, (134) sársauka-
kennt bros um varirnar. Hann grípur bjálka úr eldinum og
særir álfakónginn, tekur síðan á rás og drekkir sér í fljót-
inu.
Sé sagan skoðuð í heild verður ljóst að höfundur tengir
saman á markvissan hátt myndmál og frásögn. Fyrri fjögur
atriðin mynda í þessu kerfi eina samfellu, þrjú hin síðari
aðra.
Sagan hefst við upphaf sumars og sekkur inn í djúpan
vetur, sem nær jafnt til mannlífs og náttúru. Tortímingin
bindur þó ekki enda á lífið því við eldinn á gamlárskvöld
tengjast Sigvaldi og Sólrún með fullu samþykki prests.
Ástin, sem kviknaði í upphafi bókar, verður að veruleika
undir lok hennar, um leið og nýtt ár rennur. Lokaorðin
hljóða svo: „Hann [Sigvaldi] varð mildur og rólegur á
svipinn, sem honum hefði orðið það ljóst, að hann væri
vaknaður til lífsins og ástarinnar.“ (138)
Hinn demónski vetur var eldraun, sem ástin þurfti í
gegnum til að verða til. Við sögulok er sigurinn hennar:
hún endurnýjar og vekur til nýs lífs, jafnframt því sem hið