Studia Islandica - 01.06.1986, Blaðsíða 242
240
atviki, sem er eins konar hólmganga tveggja vilja. Stúlkan
ögrar piltinum til að síga í hamrana; hann hyggst síga í
handvað, hún krefst þess að hann hætti við, hann sígur.
Þessi atburður felur í sér hvörf í þroskasögu sögumanns og
þeirra beggja. Bernskan er að baki, leikurinn, og alvaran
tekin við, lífsháskinn. Pilturinn staðfestir sjálfstæði sitt
með því að síga, gerir uppreisn og verður að manni. Þegar
stúlkan brýtur eggið, fjöregg þeirra, slítur hann af sér trú-
lofunarhringinn, sem „var orðinn mér þröngur", sjálfstæð-
ið kostar aðskilnað. Lokaorð sögunnar fela í sér háði
blandið endurlit lífsreynds „kvennamanns“, en þau breyta
ekki alhæfingu sögunnar: að ást er stríð á milli kynja,
valdabarátta, líkt og önnur mannleg samskipti, að hún
krefst þess að þú takir eða látir, notir eða sért notaður.
Svipaðar hugmyndir virðast vaka fyrir höfundi í sögu-
brotinu Undan krossinum. Það er ófullgert og af þeim sök-
um ekki fullljóst hvert þemað er. Frásögnin fylgir ungri
sveitastúlku, sem missir foreldra sína og flyst til Reykja-
víkur á náðir frænku sinnar. Þar lætur hún flekast af ó-
prúttnum kvennabósa og er útskúfað, en leitar um síðir á
náðir trúar í raunum sínum. Af lokum sögubrotsins má
ráða að hún hyggist ganga í lið með hjálpræðishernum.
Þetta verk fjallar, líkt og Valshreiðrið, um „ófullveðja“ ást
og sjálfsuppgötvun einstaklings. Andstætt smásögunni
stefnir það hins vegar saman ástarþörf og samfélagsboði,
flækjan nær út fyrir hið sálfræðilega svið. Efniviðurinn er í
sjálfu sér lítið nýstárlegur og siðfræði höfundar hefðbund-
in. Hann er að auki ágengur í textanum og óspar á skýring-
ar og athugasemdir. Segja má þó að hinn slægvitri táldrag-
ari, Haraldur, sé nýstárleg persóna, því hann stjórnast ekki
af félagslegum metnaði, eins og hálfmenni Gests Pálsson-
ar, heldur gengst upp í miskunnarleysi sínu, og notar ann-
að fólk á meðvitaðan, sadískan hátt. En þó að lítil barátta
eigi sér stað í sál hans lifir hann líkt og hálfmennin á því að
grímubúast og blekkja.
Við komuna til Reykjavíkur er söguhetjan, Hólmfríður,