Studia Islandica - 01.06.1986, Page 271
269
dómur margra alda, samanþjappaður. Verk Jóhanns og
Gunnars eru skáldleg nýsköpun en um leið á myndforði
þeirra sér langa sögu í menningarhefðinni.
Form Jóhanns og Gunnars er auðugra að merkingu en
form eldri höfunda, þó er ýmislegt sameiginlegt með til
dæmis Fjalla-Eyvindi og sögunum um Höllu. Bæði verkin
lýsa ferð inn á eyðiland sem í senn er sálrænt og landfræði-
legt. Texti leikritsins hefur bæði lóðrétta og lárétta stefnu,
lýsing sálarlífs og náttúru er ein samofin heild, hið ytra
speglar hið innra og öfugt. Að þessu leyti notaði Jóhann
svipaða tækni og expressionistar síðar meir. Hið sama gild-
ir um Sælir eru einfaldir, sem er ein örfárra expressioniskra
skáldsagna í íslenskum bókmenntum. Hin raunrétta at-
burðarás hennar er öðru fremur hlutlæg speglun á ferðalagi
inn í dimma nótt sálarinnar. Ramminn er sniðinn eftir
sköpunarsögu Biblíunnar en henni snúið við og sagt frá sjö
daga sálarstríði manns, sem að lokum kiknar og gefst
„djöflum" sínum á vald. Vikuferðin liggur m. ö. o. ofan í
sálardjúpið eins og flótti og útlegð Höllu í leikriti Jóhanns.
Öll er sagan full af hnitmiðuðum, demónskum myndum:
kirkjugarður og líkaböng, sóttsmituð húsakynni og eldur
við sjóndeildarhring, myrkur, dauðafár og djöfull í
mannsmynd.
Verk Jóhanns Sigurjónssonar og Gunnars Gunnarssonar
dæmigera reynslu þeirrar kynslóðar, sem tók út þroska
sinn með nýrri öld. Stundum finnst mér að líkja mætti
henni við unglinginn íkarus, sem flaug svo nálægt sólu að
vængir hans bráðnuðu og hann steyptist í sjóinn. Þannig
breytti lífsreynslan mörgum þeirra úr „fálka“ í „orm“;
flugið kenndi þeim að staður manns er á jörðu, að upp-
reisnin gegn veruleikanum leiðir aðeins til sjálfstortíming-
ar. Ljóð Jóhanns, „Sorg“, sýnir þessi umskipti á einkar
skýran hátt. Líkt og Sœlir eru einfaldir lýsir það, með sín-
um hætti, hruni „hinnar mennsku borgar“, heimsslitum:
einn heimur líður undir lok um leið og annar rís á rústum