Þjóðmál - 01.09.2017, Page 30

Þjóðmál - 01.09.2017, Page 30
28 ÞJÓÐMÁL Hausthefti 2017 Ekki sérþýskt fyrirbæri Hugmyndafræði Kristilegra demókrata er ekki algjörlega þýsk uppfinning. Luigi Sturzo stofnaði fyrsta flokk Kristilegra demókrata árið 1919 á Ítalíu, en markmið þess flokks var að sætta Rómarkirkjuna við lýðræðislegt stjórnarfar. Þannig háttaði til að ráðamenn kaþólsku kirkjunnar voru á árum áður margir andsnúnir lýðræði, sem þeir töldu undirrót guðleysis, líkt og sósíalisminn. Stefna flokks Sturzo fól í sér trú á frjálsan markaðsbúskap en um leið voru boðaðar ýmsar félagslegar úrbætur. Kristilegir skildu sig frá hægriflokk- um þess tíma, þar sem þeir voru frekar hallir undir opinber afskipti af sumum sviðum þjóðlífsins og voru jafnvel hlynntir yfirþjóðlegu valdi. Annað sem greindi þá frá hægriflokkum var að kristilegir studdu samtök launþega. Fleiri flokkar kristilegra demókrata urðu til á árunum milli stríða og þá þegar mótuðust meðal fylgismanna þeirra hugmyndir um stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, sem sömu flokkar höfðu forgöngu um að hrinda í framkvæmd á sjötta áratugnum. Helmut Kohl kanslari er þekktur sem kanslari sameiningar Þýskalands, en hans hugðarefni voru ekki síður sameining Evrópu. Hin sameiginlega evrópska arfleifð var jafnvel ofar í huga sumra forystumanna kristilegra demókrata heldur en málefni einstakra ríkja og margir forystumenn kristilegra demókrata voru miklir hugsjónamenn og innblásnir af húmanískum kenningum. Helmut Kohl, kanslari 1982­1998, með Íslandsvininum Gerhard Stoltenberg, sem var fjármálaráðherra og landvarnaráðherra í ríkisstjórnum Kohls. Stjórnmál eftirstríðsáranna á meginlandi Evrópu fólu í sér meiri sáttfýsi en áður hafði þekkst. Hægrimenn tóku að aðhyllast marg- vísleg félagsleg réttindi og sameinuðust í kristilegu flokknum á sama tíma og sósíal- demókratar hurfu frá þjóðnýtingaráformum og gerðust um margt markaðssinnaðir. Til varð breið miðja í stjórnmálunum þar sem þessir flokkar færðust æ nær hvor öðrum og miklu meiri friður ríkti í stjórnmálalífi Vestur- Evrópu en verið hafði á árunum fyrir stríð. Verkalýðssambönd í kaþólska hluta Vestur- Evrópu voru allt frá stríðslokum víða undir stjórn kristilegra demókrata og kristilegu flokkarnir lögðu ríka áherslu á samræmingu félagslegra réttinda innan Efnahagsbanda- lags Evrópu (nú Evrópusambandsins). Þetta var nokkuð sem Margaret Thatcher, leiðtogi breskra íhaldsmanna, leit á sem argasta sósíalisma. Þrátt fyrir að flokkar kristilegra hafi átt drýgst- an þátt í að hrinda evrópskri samvinnu úr vör á sjötta áratugnum má segja að sósíaldemó- kratar hafi tekið við keflinu í þeim efnum. Þegar komið var fram á níunda áratuginn voru það menn eins og Jacques Delors og Franc- ois Mitterrand sem þrýstu á um sameiningu álfunnar. Kristilegir leiðtogar þess tíma voru þá fremur orðnir „flokksstjórnendur“ heldur en mennta- og hugsjónamenn. Nú er svo komið að hinir rótgrónu kristi- legu flokkar eru víðast hvar í kreppu utan Þýskalands og við frelsun ríkja Mið- og Austur-Evrópu undan oki kommúnismans urðu í fæstum tilfellum til kristilegir flokkar sem aðhylltust félagslegan markaðs- búskap. Víða hafa því orðið meiri öfgar í stjórnmálum þeirra landa en í vesturhluta álfunnar. Kristilegir eru enn öflugir í Hollandi, Christen­Demokratisch Appèl, og Austurríki, Österreichische Volkspartei, en milli CDU og austurríska systurflokksins eru náin tengsl. Sósíaldemókrataflokkar álfunnar glíma að sama skapi við alvarlegan vanda og margs konar nýir flokkar hafa sprottið upp hvar- vetna. Stjórnmálakerfið sem mótaðist á eftir- stríðsárunum er í deiglu.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.