Þjóðmál - 01.09.2017, Page 84
82 ÞJÓÐMÁL Hausthefti 2017
Orsakir
Í öðrum hluta bókarinnar eru tilgreindar
mögulegar ástæður þessarar þróunar. Sumar
eru augljósar. Það ætti til dæmis ekki að
koma neinum á óvart, sem eitt sinn hefur
verið unglingspiltur, að ótakmarkað aðgengi
að ókeypis klámefni gæti ruglað þá í ríminu.
En fleira kemur til að mati höfundanna.
Þeir hafa áhyggjur af upplausn fjölskyldu-
mynsturs ins; sífellt fleiri börn alist upp án
föður og þeir feður sem þó eru til staðar séu
að jafnaði ekki nægilega sterkar fyrirmyndir.
Þá er aukinheldur útbreidd fyrirlitning á
ýmsu sem áður töldust vera jákvæðir karl-
mannlegir eiginleikar; og sífelld niðurbæling
á þörfum drengja; svo sem eins og að fá að
hreyfa sig og fikta við áhættu sama hluti.
Þess í stað eru foreldrar að jafnaði sáttari
þegar drengirnir þeirra húka inni í skjóli frá
veðrum og vindi fyrir framan meinlausa
tölvuskjái – heldur en ef þeir eru að klifra upp
á bílskúra, tálga til vopn – eða jafnvel bara að
leika sér í íþróttum utan skilgreinds æfinga-
ramma og eftirlits fullorðinna „fagaðila“.
Skólakerfin fá líka sinn skammt af gagnrýni.
Í þeim löndum sem höfundar hafa skoðað
heyrir það til undantekninga að karlmenn
kenni í grunnskólum, og er staðan líklega
svipuð hérlendis. Að auki benda höfundarnir
á að mikil verðbólga hafi orðið í einkunnagjöf
á síðustu áratugum þótt ekkert bendi til þess
að nemendur í dag séu snjallari eða betur
undirbúnir en fyrri kynslóðir; þvert á móti.
Þetta telja höfundarnir að leiði til mjög
óraunhæfra væntinga ungs fólks um lífið og
tilveruna. Allir eru sagðir sérstakir og hæfi-
leikaríkir að „eitthvað stórkostlegt“ bíði þeirra
á fullorðinsárunum. Fyrir vikið virðist allt það
sem fyrri kynslóðir töldu vera sómasamlegt
líf verða að bragðdaufum vonbrigðum.
Foreldar eiga vitaskuld þátt í að byggja slíkar
óraunhæfar væntingar; enda má það kallast
harðneskjulegt foreldri nú til dags sem ekki
fullyrðir að barnið sitt sé snillingur ef því tekst
skammlaust að slafra upp í sig graut úr skeið
fyrir fermingu.
En það eru ekki bara slæmir ávanar og lélegt
uppeldi sem stuðla að hnignun karlmanna
á Vesturlöndum. Zimbardo og Coulombe
vilja meina að ýmislegt í umhverfinu hafi
ruglandi áhrif á kirtlastarfsemi líkamans og
þar með á magn og gæði hormóna. Einkum
eru það plastefnin sem hafa eyðileggjandi
áhrif á þetta grunnkerfi líkamans og veldur
því meðal annars að magn karlhormónsins
virðist vera að minnka verulega. Þar sem
hormónin stjórna svo miklu um líkamsstarf-
semina, og einkum heilastarfsemina, gæti
þessi þáttur verið sá illviðráðanlegasti.
Zimbardo hættir sér líka inn á það jarðsprengju-
svæði að velta fyrir sér hvort valdefling kvenna
kunni að hafa neikvæð áhrif á möguleika
karlmanna til þess að lifa fullnægðu lífi. Það
finnst honum ekki, en bendir á að hraðar
breytingar á hlutverkaskiptingu hafi áhrif;
þótt lausnirnar á fylgikvillum þeirrar jákvæðu
þróunar séu vitaskuld ekki fólgnar í að snúa
aftur til feðraveldisins. Það sé hins vegar rétt
að sýna því skilning að karlmenn þurfi að
aðlagast breyttum heimi.