Gnúpverjinn - 01.12.1992, Blaðsíða 27

Gnúpverjinn - 01.12.1992, Blaðsíða 27
Var nú erindi skólastjóra að leyfa þeim nemendum sem þess óskuðu að yfirgefa skólann um sumarið en greiða þeim sem eftir yrðu fyllsta kaup, þar sem hann sagðist ekki þola að slælega væri unnið. Þá áttu nemendur að hafa sitt matarfélag og annast rekstur þess, en skólabúið hafði þá síðustu árin séð nemendum fyrir fæði. Engar mótbárur komu fram við þessar hugmyndir skólastjóra og komu þær því til framkvæmda. Eessar ákvarðanir urðu mér býsna afdrifaríkar. Féll nú í minn hlut að gerast "matarstjóri" næsta vetur, en það var formennska í þriggja manna matarnefnd sem sjá áttu um málefni matarfélsags. Var þetta býsna mikið starf, einkum um haustið og fram eftir vetri, þar sem ganga þurfti frá byrgðum að haustinu eins og gerðist víða á þeim tíma til sveita þar sem engar frystigeymslur voru og samgöngur litlar og erfiðar að vetrinum. Urðu því frístundir fáar með þessi störf samhliða náminu. Þessar ákvarðanir urðu til þess að einhverjir nemendur yfirgáfu skólann um sumarið. Kannski var það daginn eftir þennan umrædda fund, sem ég var í verki ásamt félaga mínum úr Reykjavík, Sigurði Ágústssyni, sem sfðar var þekktur lögregluþjónn í Reykjavík. Einnig vann hann ötult starf að slysavörnum. hélt m.a. námskeið í skyndihjálp úti um land á vegum Rauða krossins. Kom hingað í sveitina tvisvar með slík námskeið. Hann spyr mig nú hvort ég hafi ákveðið hvenær ég héldi heim. Eg sagði honum að svo væri. Þá förum við á sama tíma svaraði hann. Þá sagði ég án þess að því fylgdi nokkur alvara: "Kannski að þú sláir til og verðir mér samferða suður?" Það var því líkast að Sigurður hæfist þarna allur á loft við þessi orð mín. Þetta sama kvöld fékk hann einn félaga okkar sem þarna var á kunnum slóðum til fylgdar við sig að leita að fölum hestum. Þegar þeir komu heim um nóttina hafði Sigurður keypt tvo all álitlega hesta og þar með var suðurferð okkar ráðin. Voru nú frístundir notaðar til undirbúnings ferð okkar. Tíðin hafði verið erfið til heyskapar fram til þessa. Höfðum við ákveðið að leggja upp 12. júlí sem bar upp á laugardag. Daginn áður var veður drungalegt með óveðri að kvöldinu svo ekki var efnilegt ferðaveður ef svo héldist, en þegar litið var út að morgni var komið logn og heiður himinn. Klukkan var orðin ellefu þegar lagt var upp frá Hólum. Eitthvert erindi áttum við á einum bæ neðarlega í Hjaltadal og varð af því nokkur töf. Síðan var haldið suður Blönduhlíð og yfir til Varmahlíðar þar sem við keyptum okkur hressingu. Þá var haldið vestur yfir Vatnsskarð. Fagurt var að líta til baka yfir Skagafjörðinn á leiðinni upp á Vatnsskarðið. Heiður himinn og kyrrð, loftið svo tært sem verða mátti eftir rigningu fram á nóttina. Þessi blómlega byggð umvafin svipmiklum og tignarlegum fjöllum og útverðirnir í norðri, Ðrangey og Þórðarhöfði og tjörðurinn sléttur svo langt sem augað eygði. Mér fannst þarna engin undur þótt Skagfirðingum þætti vænt um byggð sína. Leið okkar lá nú vestur um Vatnsskarð og vestur til Blöndudals þangað sem dragferja var á Blöndu. Það mun hafa verið nærri þeim stað sem Blanda var brúuð nokkru síðar. Tók ferjan í einni ferð okkur ásamt hestum okkar. Þarna höfðum við Iagt nokkra lykkju á leið okkar til þess að eiga ekkert undir duttlungum Blöndu suður í óbyggðum. 27

x

Gnúpverjinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Gnúpverjinn
https://timarit.is/publication/1637

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.