Saga - 2019, Page 15
Þó nokkur tími leið áður en Gunnlaugur Scheving fór að leggja
leið sína í Múlakot. Þegar hann sneri heim frá námi settist hann að í
heimabæ sínum, Seyðisfirði, og lifði þar við kröpp kjör. Lítill skiln-
ingur var á myndlist í þorpinu og ritaði hann bréf til vinar síns,
Ragnars Ásgeirssonar landbúnaðarráðunautar og garðyrkjumanns,
í júlí 1933 og ræddi um hve erfitt væri að búa þar, svo útskúfaður frá
listmenningu.6 Að endingu gafst hann upp og flutti til Reykjavíkur
sem var eini staðurinn þar sem hægt var að lifa á listinni. Í kjölfar
þess átti myndlist Gunnlaugs eftir að taka markvissum breytingum.
Það var þó ekki borgin og umhverfi hennar sem höfðu áhrif á það
því á þessum tíma „uppgötvaði“ hann Suðurlandsundirlendið, víð -
áttu þess og fjarlæg fjöllin. Í augum Austfirðings var það lands lag
nær fjallalaust en bjó á sama tíma yfir andrúmslofti ómælanlegs frelsis
þar sem fjöllin voru ekki lengur umvefjandi. Þessi kynni komu til
vegna Ragnars Ásgeirssonar sem þá bjó á Laugarvatni og bauð hon-
um að dvelja hjá sér um tíma. Eftir það fór Gunnlaugur margar bíl-
ferðir um Suðurlandið og kviknaði þar fjöldi hugmynda að verkum
er hann keyrði fram hjá sveitafólki við hefðbundin dagleg störf.
Vorið 1942 var Gunnlaugur við slæma heilsu. Hann hafði verið í
Grindavík í þrjár vikur en þurfti frá að hverfa vegna veikinda og lá á
spítala í níu vikur. Þegar heilsan var orðin betri og hann farinn að þrá
að komast út í náttúruna ritaði hann enn til Ragnars Ásgeirs sonar:
Nú er mér farið að batna, og mig langar út í sveit til að hreinsa mig. Jeg
þori ekki að fara út að hrauni aftur því ég veiktist er jeg kom þangað,
en þraukaði í þrjár vikur, en varð svo að fara hingað. Jeg var þar í fyrra
en þá varð jeg líka lasinn, en þó ekki mikið. Nú vona jeg að mjer batni
sem fyrst, sem stendur er jeg svo þreyttur að jeg get ekkert gjört. Mig
langaði til að vera í Grindavík og var búinn að fá loforð fyrir skólanum
til að mála í en nú veit ég ekkert hvort jeg get verið þar. Kaldalóns hefir
fjölda af skyldmennum, þar er allt fullt. Ef þú veist um einhvern góðan
ódýran stað, og helst fallegan værir þú vís að hafa mig í huga. Jeg
ætlast nú ekki til að þú farir að útvega mjer neitt. Það væri aðeins ef þú
vissir um eitthvað, jeg veit nú heldur ekki hvenær ég kemst hjeðan. Jeg
vildi óska að ég gæti málað um lengri tíma úti á landi, en í Grindavík
held jeg sje ekki gott núna …7
menning og listir í múlakoti 13
6 Lbs. (Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, handritasafn) Lbs 107 NF.
Bréfasafn Ragnars Ásgeirssonar. Gunnlaugur Scheving til Ragnars Ásgeirssonar
10. júlí 1933.
7 Lbs. Lbs 107 NF. Bréfasafn Ragnars Ásgeirssonar. Gunnlaugur Scheving til
Ragnars Ásgeirssonar 16. maí 1942.