Saga - 2019, Side 66
tengja ríkisvísindi við auknar sjálfstjórnarkröfur innan Danaveldis
á fjórða og fimmta áratugnum. Ríkisvísindamenn í Slésvík-Holtseta -
landi líkt og Friedrick Dahlmann og Lorenz von Stein, sem kenndu
meðal annars við háskólann í Kiel, kölluðu eftir því að kennsla í
ríkis vísindum yrði efld til muna til að skapa grundvöll fyrir aukinni
sjálfstjórn. Stein lagði til að héraðið færi að fordæmi Prússa sem
hefðu orðið að stórveldi vegna öflugrar stjórnsýslu og hefði hún
verið reist á ríkisvísindum.49
Málflutningur Jóns á fimmta áratug nítjándu aldar tók í ríkum
mæli mið af stjórnunarmiðaðri orðræðuhefð ríkisvísindanna. Þannig
hóf Jón fyrstu alþingisgrein sína í ritinu árið 1841 með samanburði
á ólíkum stjórnarlögum og rakti möguleika þeirra til að uppfylla til-
gang hins opinbera um farsæld og velgengni þegnanna. Í anda ríkis -
fræðinganna benti Jón á að farsældartilgangurinn ákvarðaði hinar
algildu reglur sem öll landstjórn átti að taka mið af: „Þegar bera skal
saman stjórnarlaganir, til að sýna hver bezt sé, þá verður fyrst að
athuga, hverr að sé tilgángur allrar stjórnar, og þvínæst meta stjórnar -
laganirnar eptir því, sem þær nálgast tilganginn meira eður minna.“
Jón leit svo á að „tilgángur allrar stjórnar, [væri] að halda saman öll-
um þeim kröptum sem hún er yfir sett, og koma þeim til að starfa
til eins augnamiðs, en það er velgengni allra þegnanna, og svo mikil
framför bæði á andlegan og líkamlegan hátt sem þeim er unnt að
öðlast“.50
Litið var því á stjórnarformið fyrst og fremst sem hagkvæmt
fyrir komulag og metið eftir notagildi eða hversu vel það gæti tryggt
tilgang stjórnarinnar. Einveldi var staðfastasta stjórnarformið en þó
óheppilegt eitt og sér vegna þess að einvalda konungar hefðu til-
hneigingu til að velja sér til ráðgjafar þá menn sem væru þeim best
að skapi frekar en þá sem hæfastir væru. Slíkum ráðgjöfum væri
fyrst og fremst annt um að „halda valdi konúngs síns og velgjörðar-
manns sem hæst á lopt“ en „skeyta miður um tilgáng stjórnarinnar
eður hag þegnanna“. Valmennastjórn eða aristókratía kom til móts
við helstu galla einveldisins „því betur sjá augu en auga, og þó þeir
menn ráði aðeins sem mestir eru maktarmenn í landi, þá eru þar þó
fleiri kraptar á hræríngu til ráðagjörðar“. Þessi stjórn gat farið vel
meðan „góður andi er í þjóðinni“ en hætt var við því að upp kæmu
sveinn máni jóhannesson64
49 Lindenfeld, The Practical Imagination, bls. 109–110; Siclovan, Lorenz Stein and
German Socialism, 1835–1872, bls. 98.
50 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 68.