Saga - 2019, Page 77
þyrfti aðeins að tryggja „stjórnsemi og reglu alla“ sökum þess að það
voru ótal málefni sem krefðust „snöggra um bóta“ af hálfu ís lenskr ar
landstjórnar. Jón lagði áherslu á að „presta-kennsla, læknasetníng,
skólinn, barnauppfræðíng“ þyrfti „mikilla umbóta við“.84 Menntun
embættismanna, presta og al menn ings skipaði því veigamikinn sess
í hugmyndum Jóns. Hann færði í orð afar ríkismiðaða sýn á hlutverk
menntunar þar sem áherslan væri lögð á að félagsmóta einstaklinga
beinlínis til að þjóna markmiðum ríkisvaldsins, eða „vekja og styrkja
og fullkomna hjá enum ungu alla góða krapta, andliga og líkamliga,
og búa hvern um sig svo undir að þekkingu að hann geti eftir gáfum
sínum og stétt styrkt til að koma fram miði stjórnarinnar: framför og
velferð alls þess félags sem hún er sett til að ráða yfir“.85
Enn fremur átti landstjórnin að efla jarðrækt, „stofninn undir
allri landsins velmegun“. Hún átti að beita sér fyrir að Íslendingar
hagnýttu „gæði sjáfarins eins og mætti“, enda væru „fiskiveiðarnar
ágætasti stofn allrar auðlegðar og verzlunar og enna stærri fyrir -
tækja á landinu“. Jafnframt væri áríðandi að hið opinbera tryggði
„að samgaungur verði tíðari í landinu, með því að halda fram vega-
bótum af alefli“ auk „endurbóta á höfnum“.86 Landstjórnin átti að
„gera póstsamgaungur reglulegar og svo tíðar sem verða mætti“ og
„fjölga samgöngum við önnur lönd“. Hún skyldi tryggja að „sjó -
mannsefni og kaupmannsefni“ fengju „sæmiliga kennslu“ og grípa
til aðgerða sem gerðu „verzlun fjörugri í landinu sjálfu og við önnur
lönd“.87 Hér var því ekki um að ræða lágmarksríki í anda klass ískr ar
frjálslyndisstefnu. Innlendri stjórn var ekki ætlað að lækka skatta
eða veita einstaklingum meira frelsi en áður. Þvert á móti boðaði Jón
ríkisvald sem væri einbeitt, samþjappað og kraftmikið til að koma á
„góðri stjórn og reglu á landinu“ en hefði jafnframt „nóg frelsi og
styrk til allra framkvæmda“.88 Landstjórnin bæri meginábyrgð á að
tryggja framgöngu alls sem gæti „eflt andlega og líkamlega framför
þegnanna, komið upp mentun, bætt siðferði og reglusemi, komið
upp dugnaði og velmegun í landinu“.89
farsældarríki jóns sigurðssonar 75
84 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 112.
85 Jón Sigurðsson, „Um skóla á Íslandi“, Ný félagsrit 2 (1842) , bls. 80.
86 Jón Sigurðsson, „Um alþíng“, Ný félagsrit 2 (1842), bls. 28.
87 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 112–113; Jón
Sigurðsson, „Um verzlun á Íslandi“, Ný félagsrit 3 (1843), bls. 123.
88 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á Íslandi“, Ný félagsrit 1 (1841), bls. 71.
89 Jón Sigurðsson, „Um félagsskap og samtök“, Ný félagsrit 4 (1844), bls. 16.