Saga - 2019, Page 81
og menntun. Í kjölfar ólgu byltingaráranna leituðust miðjusækin
stjórnmálaöfl víðs vegar um álfuna við að koma á stöðugleika með
því að nýta hið opinbera til að skapa aukna efnahagslega velsæld.104
Ríkisvísindamaðurinn Lorenz von Stein fagnaði því að byltingarnar
hefðu markað endalok aldar stjórnarskrárinnar (þ. Zeitalter der Ver -
fassung) í anda frönsku byltingarinnar og upphaf nýrrar aldar stjórn -
sýslunnar (þ. Zeitalter der Verwaltung) í anda ríkisvísinda.105 Skýrslur
um landshagi endurspegla viðleitni fjölmargra Evrópuríkja þess tíma,
þar á meðal Danmerkur, Þýskalands, Portúgals, Ítalíu, Frakklands
og Spánar, til að koma á fót nýjum eða betrumbættum opinberum
hagstofum. Skýrslur um landshagi komu út í ritstjórn Jóns í fimm
bindum frá 1858 til 1875. Eftir 1875 tók íslenska landstjórnin við
útgáfunni og birti skýrslurnar í Stjórnartíðindum þar til Hagstofa
Íslands var sett á laggirnar árið 1914.106 Skýrslur Jóns mörkuðu því
upphaf reglulegrar útgáfu á hagtölum á Íslandi og voru í takt við
þróunina í ríkismótun víða á meginlandi Evrópu.
Ríkisþróun og upphaf íslenskra nútímastjórnmála
Upphaf nútímastjórnmála á Íslandi er oft rakið til baráttu fyrir (eða
gegn) þjóðfrelsi og einstaklingsfrelsi. Þannig hafi landsmenn skipast
í fylkingar á grundvelli þess hversu langt þeir vildu ganga í kröfum
gagnvart Dönum eða hversu langt þeir vildu ganga í að innleiða
frjálslyndar hugmyndir um einstaklingsfrelsi.107 Þetta voru mikil -
væg stef í stjórnmálum þess tíma. En hugmyndir Jóns Sigurðs sonar
um ríkisvald og ríkisvísindi opna á nýja túlkun til að dýpka skilning
farsældarríki jóns sigurðssonar 79
104 Christopher Clark, „After 1848: The European Revolution in Government“,
Transactions of the Royal Historical Society 6:22 (2012), bls. 171–197. Sjá einnig
t.d. Anna Ross, Beyond the Barricades: Government and State-Building in Post-
Revolutionary Prussia, 1848–1858 (Oxford: Oxford University Press 2019), bls.
60.
105 Siclovan, Lorenz Stein and German Socialism, bls. 132.
106 Skýrslur um landshagi á Íslandi I–V.
107 Sagnfræðingar hafa lengi skilgreint íslensk stjórnmál á nítjándu öld út frá
þjóðfrelsisbaráttunni eða þjóðríkismyndun, sjá t.d.: Saga Íslands IX. Ritstj.
Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason (Reykjavík: Hið íslenska bók-
menntafélag 2008), bls. 167–367. Í seinni tíð hafa sagnfræðingar lagt meiri
áherslu á togstreitu innan þjóðarinnar, einkum milli frjálslyndisstefnu og
íhaldssemi gamla bændasamfélagsins. Sjá t.d. Guðmund Hálfdanarson,
Íslenska þjóðríkið, bls. 45–76.