Saga - 2019, Page 89
opinber skrif lækna, en sú starfsstétt hafði víðtækt leyfi til að ræða
hið forboðna í ljósi sérstakrar þjóðfélagsstöðu sinnar. Síðast en ekki
síst voru undir lok tímabilsins, á fjórða áratugnum, götublöð farin
að koma út í bænum sem gengu lengra en áður var leyfilegt í opin-
berri umræðu um kynferðismál, en þar var jafnan skrifað undir dul -
nefni.
Öllum þessum heimildum ber að taka með nokkrum fyrirvara
hvað varðar raunverulega atburði en þær eru hins vegar sérstaklega
gagnlegar þegar kemur að því að opinbera orðræðu og hugarfar um
leynd eða hálfleynd umræðuefni. Skólapiltar tilheyrðu sérstökum
lok uðum hópi sem hafði það að reglu að halda eigin málefnum
leynd um fyrir þeim sem ekki stunduðu nám við Lærða skólann.15
Þeir gátu þannig skrifað frjálslega fyrir hver annan í því trausti að
skrifunum yrði aldrei dreift utan veggja skólans. Læknar töldust aft-
ur á móti skrifa í þágu vísindanna og lutu því ekki sömu siðferðis-
kröfum og aðrir, jafnvel í opinberri umræðu. Nafnlausir götublaða -
pennar þurftu heldur ekki að óttast illar afleiðingar af skrifum
sínum og gátu þess vegna ekki bara sagt hið forboðna heldur var
það þeim í hag að ýkja það og magna það upp. Ef umræddar heim-
ildir eru lesnar með þessa fyrirvara í huga má fá úr þeim mikils -
verða þekkingu sem annars er erfitt að nálgast.
Sjódónar og vændiskvendi í skrifum skólapilta
Á því tímabili sem þessi rannsókn nær yfir ríkti mikill ótti við kyn-
sjúkdóma út um allan heim. Frá lokum fimmtándu aldar hafði
alræmdasti kynsjúkdómurinn, sýfilis, smitað og lagt að velli millj -
ónir manna, sérstaklega í borgum, og vakið ótta og andúð á þeim
sem voru taldir smitberar. Sýfilis kann að hafa verið þekktur hér-
lendis frá því á sextándu öld en þó virðist hann hafa verið tiltölulega
sjaldgæfur, kom upp endrum og eins en hvarf jafnskjótt aftur.16
kaupstaðasótt og freyjufár 87
15 Bragi Þorgrímur Ólafsson, inngangur að Landsins útvöldu synir. Ritgerðir skóla-
pilta Lærða skólans í íslenskum stíl 1846–1904. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenn-
ingar 7. Ritstj. Bragi Þorgrímur Ólafsson (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2004), bls.
41–42; Heimir Þorleifsson, Saga Reykjavíkurskóla II. Skólalífið í Lærða skólanum
(Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1978), bls. 95–96.
16 Sjá yfirlit í Guðmundi Hannessyni, Samræðissjúkdómar og varnir gegn þeim.
Leiðbeiningar fyrir alþýðu, einkum farmenn (Reykjavík: Félagsprentsmiðjan 1920),
bls. 3–5. Erfitt er að segja til um hvort „sárasóttin“ sem reið yfir landið á sext-
ándu öld hafi verið sýfilis eður ei. Um tvo minniháttar sýfilisfaraldra á fyrri