Saga - 2019, Page 97
kómískari máta en samskiptum hans við alþýðukonur.42 Í tilfelli ætt-
stóru kvennanna er helst gefið í skyn að Wendel sé þeim ekki sam boð -
inn en í tilfelli alþýðukvennanna eru lýsingarnar ekki aðeins berorðar
heldur hreinlega subbulegar: „Ýmsar mannraunir kvaðst [Wendel]
hafa komizt í, er hann rjálaði við pútur sínar. Sagðist hann einu sinni
hafa lent í mannasaur, er hann gerði myrkraverk sín við skækju þá, er
Guðrún hét. Öðru sinni gerði flenna nokkur frá Hábæ honum þann
ómaka, að hún meig á hann, er hann sarð hana suður hjá skothúsi“.43
Í huga Árbókarritara virðast vera tengsl milli kynlífs með alþýðukon-
um og að komast í beina snertingu við úrgang. Það er í ljósi þessa sem
skoða þarf langan klámbrag sem skólapiltar kváðu um Wendel og er
birtur í Árbókunum. Þar er hann sagður hafa haft sýfilis sjálf ur (þótt
þetta sé reyndar borið til baka af sjálfum Árbókarritaran um).44
Hér er vissara að taka aftur fram að augljóslega er ekki algjöran
trúnað leggjandi á frásagnir Árbókanna, þessara karlrembulegu og
hrokafullu skrifa frá pennum sjálfumglaðra forréttindadrengja.
Gróft orðalag á það til að draga alla athygli þess sem það les að gróf-
leikanum sjálfum og kann þá að gleymast að greina efni orðanna
nánar. Í þessu tilfelli verður að hafa í huga að undir subbulegu yfir-
borðinu má sjá stórmerka frásögn af áður lítt þekktum kima kyn-
ferðislífsins í Reykjavík um aldamótin 1900 sem væntanlega er ekki
skáldaður þótt hann kunni að vera færður í stílinn. Í fyrsta lagi
virðist hinn fjöldaframleiddi gúmmísmokkur hafa hafið innreið sína
til Íslands skömmu fyrir aldamótin. Þetta gerðist á sama tíma og
aukin umræða átti sér stað um kynferðismál og kynsjúkdóma, þar
sem greina mátti vaxandi ótta við sýfilis á Íslandi, og meint landnám
sjúkdómsins. Gúmmísmokkar sem þessir voru tiltölulega nýlegt
fyrir bæri. Þeir voru fyrst framleiddir um miðja nítjándu öld í Banda -
ríkjunum en voru enn sjaldgæfir (enda dýrir) víðast hvar í heimin-
um, jafnvel undir lok aldarinnar. Aðgengi að þeim var þannig mjög
takmarkað en helst naut notkun þeirra samþykkis hjá læknum og
yfirvöldum í Þýskalandi.45 Þannig kemur það ekki á óvart að
smokk arnir voru fluttir inn sérstaklega þaðan, í gegnum tengingar
kaupstaðasótt og freyjufár 95
42 ÞÍ. Menntaskólinn í Reykjavík 1930–0. A/3. Árbækur Lærða skólans 1895–
1902. IX. bindi (1899–1900), bls. 94–100.
43 Sama heimild, bls. 96.
44 Sama heimild, bls. 103.
45 Robert Jütte, Contraception: A History. Þýð. Vicky Russel (Cambridge: Polity
2008), bls. 120, 144–156. Vitanlega höfðu skinnsmokkar o.þ.h. þekkst áður hér-
lendis, en hafa varla verið algengir.