Saga - 2019, Side 99
ljósi á kynferðislega undirheima Reykjavíkur eftir aldamótin. Hins
vegar má sjá það úr skýrslum íslenskra lækna að kynsjúkdómatil-
fellum í bænum fór að fjölga jafnt og þétt frá árinu 1898.50 Áhyggjur
lækna af ástandinu jukust í samræmi við það og er það í takti við
þróun mála erlendis upp úr aldamótunum.51 Þetta má til dæmis sjá
í bréfi sem Guðmundur Björnsson, héraðslæknir í Reykjavík, sendi
landlækni árið 1899. Guðmundur varaði við því að
útlendir fiskimenn [hafa] átt meiri mök við Reikvíkinga og Hafn firð -
inga á þessu sumri, en áður hefur gerzt. Margir af þessum útlend -
ingum hafa Gonorrhoe [lekanda] og tvo hef jeg sjeð með Syphilis sec-
undaria [sýfilis á öðru stigi]. Nú er mjer kunnugt um, að tvær lauslætis -
konur í Hafnarfirði hafa átt sífelld mök við þessa útlendinga … Mjer
hefir og borizt til eirna að unglingsstúlka hjer í Reikjavík hafi oftar en
einu sinni verið næturgestur í botnvörpuskipunum hjer á höfninni. Ef
þessu fer fram, má búast við því, að Gonorrhoe breiðist hjer út frekar en
áður og Syphilis verði hjer sveitlægur sjúkdómur áður vonum varir.52
Vert er að benda á að Guðmundur taldi sjúkdóminn enn ekki „sveit-
lægan“ þótt síðari tíma læknar hafi tímasett landtöku sýfilis þremur
árum fyrr. Þetta var þema í umfjöllun íslenskra lækna um sýfilis sem
samkvæmt þeim var alltaf rétt óorðinn að faraldri, eins og mun
koma í ljós. Guðmundur vildi afstýra hættunni með því að láta lög-
reglustjóra „hafa gát á vændiskonum og koma þeim undir læknis -
kaupstaðasótt og freyjufár 97
50 Sjá M. Júl. Magnús, „Um varnir gegn kynsjúkdómum“, bls. 35–36. Almennt
var orðræða um hættuna af kynsjúkdómum í fremur lauslegu sambandi við
raunverulegar smitunartölur. Sýfilistilfelli á Íslandi (bæði Íslendinga og útlend-
inga) náðu fyrst upp í tveggja stafa tölu árið 1906, þau urðu 40 árið 1914,
fækkaði þá aftur og voru yfirleitt um 30 á ári á öðrum og þriðja áratugnum.
Sýkingar jukust snögglega seint á þriðja áratugnum og náðu hámarki með 50
tilfellum árið 1932, fór þá sjúkdómurinn mjög í rénun. Lekandatilfellum fjölg -
aði miklu hraðar. Þau voru fá fram að 1898 þegar þau stukku úr 11 í 42, síðan
hækkar talan í reglulegum stökkum. Um miðjan fjórða áratuginn voru tilfellin
yfir 570 og fór fjölgandi. Sjá tölur hjá Guðmundi Hannessyni, Samræðis sjúk -
dómar, bls. 5; sama höfundi, Um skipulag bæja (Reykjavík: Prentsmiðjan Guten -
berg 1916), bls. 12; Hannesi Guðmundssyni, „Holdsveiki nútímans“, bls. 325;
sama höfundi, „Morbi venerei í Reykjavík árið 1933“, Læknablaðið 20:3–4 (1934),
bls. 33–36, hér bls. 34; „Kynsjúkdómabölið á Íslandi. Viðtal við Hannes Guð -
mundsson lækni“, Samtíðin 4:6 (1937), bls. 4–5, 7, 9, hér bls. 4–5.
51 Herzog, Sexuality in Europe, bls. 7.
52 ÞÍ. Skjalasafn landlæknis. C.7. Bréf til landlæknis 1895–1899. Guðmundur
Björnsson til Jónasar Jónassen 12. september 1899. Ég þakka Kristínu Svövu
Tómasdóttur fyrir að benda mér á þetta bréf.