Saga - 2019, Qupperneq 102
Stærsta hættan, að mati Magga, var þannig að kynsjúkdómar —
sem samkvæmt honum fylgdu óhjákvæmilega kaupstöðunum —
brytust út fyrir sín eðlilegu heimkynni með flutningi alþýðufólks
milli kaupstaða og sveita. Sveitirnar bæri að vernda fyrir spillingu
og smithættu kaupstaðarins. Hér má sjá einkar greinilega átökin
milli sveita og þéttbýlis sem einkenndu svo mjög íslenska umræðu
og stjórnmál frá aldamótunum 1900 og víða hefur verið fjallað um.60
Þó var enn sem komið var fátt um lausnir. Þær einu sem Maggi
minntist á var ókeypis læknishjálp til sýktra annars vegar og lög-
leiðing og opinbert eftirlit með vændi hins vegar, eins og tíðkaðist í
Danmörku.61 Maggi taldi kynsjúkdóma og vændi þannig sam-
tvinnuð fyrirbrigði. Dönsku leiðina sagði hann þó ekki geta átt við
á Íslandi. Ástæðan var einföld: „Prostitution í sinni upphaflegu
merkingu hefir aldrei þekst hér á landi og þekkist ekki, svo eg viti,
enn. Má þakka það því, hvað kjör manna til þessa hafa verið jöfn, og
engin fátækt til í samanburði við önnur lönd.“62 Það er óneitanlega
kaldhæðnislegt að Maggi, stúdent úr Lærða skólanum 1904, haldi
þessu fram, enda þarf aðeins að líta til Árbóka Lærða skólans til að
sjá hve lítt jöfn kjör alþýðukvenna og skólapilta, til dæmis, voru.63
Umræða Magga var mjög í takti við erlenda strauma. Fyrri
heims styrjöldin hafði aukið áhyggjur ríkisstjórna Evrópu og Banda -
ríkjanna af kynsjúkdómum, sérstaklega sýfilis, sem ógnaði heilsu
þjóðarlíkamans þegar hann var talinn minnst mega við því: Sjúk -
dómurinn lagðist af þunga á hermenn og gerði þá óvígfæra. Ýmis
ríki háðu því umfangsmiklar áróðursherferðir gegn kynlífi utan
hjónabands og vændi um þetta leyti. Andstaða við getnaðarvarna -
notkun á trúar- og siðferðisforsendum linaðist, þöggun á umræðu
um kynferðismál minnkaði og opinber fræðsla jókst.64 Í þessu ljósi
ber að skilja svargrein Árna Árnasonar læknis við frumkvöðulsgrein
þorsteinn vilhjálmsson100
60 Sjá t.d. Ólaf Ásgeirsson, Iðnbylting hugarfarsins, bls. 45–52, þar sem fjallað er um
hin meintu tengsl milli borga og úrkynjunar; Sigríði Matthíasdóttur, Hinn sanni
Íslendingur, bls. 115–172.
61 Varðandi vændislöggjöf í Danmörku, sjá Ida Blom, „From regulationism to the
‘Scandinavian Sonderweg’: legislating to prevent venereal diseases in
Denmark during the long nineteenth century“, Continuity and Change 20:2
(2005), bls. 265–286.
62 M. Júl. Magnús, „Um varnir gegn kynsjúkdómum“, bls. 37–40, einkum bls. 40.
63 Varðandi útskriftarár Magga, sjá: Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár frá land-
námstímum til ársloka 1940 V, T-Ö (1952), bls. 433–434.
64 Jütte, Contraception, bls. 157–215; Quétel, History of Syphilis, bls. 176–210.