Saga - 2019, Blaðsíða 106
að, og ekki síður íslenskir“.76 Með auknum samgöngum milli Ís -
lands og útlanda hefði hættan aukist, eina leiðin til að berjast gegn
þessu að mati Guðmundar var „góð og gild þekking“: „Það getur
enginn forðast þá hættu, sem hann hefir enga hugmynd um, eða þekkir
engin ráð til að komast hjá.“77 Hins vegar hafði fram að þessu ekki
verið leyfilegt að ræða þessi málefni opinberlega „nema á gagns-
lausu rósamáli“.78 Gegn þessu átti bók Guðmundar að berjast.
Í samræmi við það fjallaði Guðmundur kinnroðalaust um smokka -
notkun þótt hann mælti frekar með rækilegri hreinsun kynfæranna
eftir áhættusamt kynlíf og skjótri læknisheimsókn.79 Allra best væri
þó skírlífið og áfengisbindindið, sem Guðmundur lagði þunga áherslu
á.80 Ekki bæri íslenskum sjómanni að stunda kynlíf með „þeim ara-
grúa skækja“ sem fyndist í erlendum hafnarborgum en Guðmundur
fullyrti að þær væru nær allar sýktar af kynsjúkdómum.81 Sjómenn
voru loks áminntir að þeir væru fulltrúar þjóðar sinnar erlendis og
bæri að haga sér sem slíkir. Í stað vændishúsa erlendra hafnarhverfa
lagði Guðmundur að sjómönnum að sækja leikhús eða taka lestir út
í hinar heilnæmu sveitir.82 Þjóðernisást var þannig stillt upp til varn-
ar erlendri spillingu kynsjúkdómanna.
Umræður á þessum nótum voru ekki eingöngu bundnar við
læknastéttina. Þann 24. september 1921 hélt Bandalag kvenna opinn
fund í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík um siðferðismál. Bandalagið
einkenndist af hugmyndafræði „siðferðislegrar kvenréttindastefnu“
eða „siðbótarstefnu“, sem lagði áherslu á að konur skyldu verða til
þorsteinn vilhjálmsson104
76 Guðmundur Hannesson, Samræðissjúkdómar, bls. 7. Skáletrun er Guðmundar.
77 Sama heimild, bls. 8. Skáletrun er Guðmundar.
78 Sama heimild, bls. 51.
79 Sama heimild, bls. 54–57. Athugið að hér eru fyrstu leiðbeiningarnar um notk-
un getnaðarvarna birtar á íslensku prenti. Þannig er hægt að leiðrétta Helga
Skúla Kjartansson í Ísland á 20. öld (Reykjavík: Sögufélag 2002), bls. 172, en þar
segir að slíkar leiðbeiningar hafi fyrst birst árið 1928.
80 Guðmundur Hannesson, Samræðissjúkdómar, bls. 57–62. Harðorðar viðvaranir
Guðmundar gegn sjálfsfróun (bls. 58–60) eru áhugaverðar. Sjálfsfróun er talin
leiða til lauslætis og ráð Guðmundar eru því einföld: „Við getnaðarfærunum
skal aldrei snerta að óþörfu.“ Þetta kallast á við orð Árna Árnasonar hér að
framan um að kynfræðsla eigi einna helst að miða að því að koma í veg fyrir
sjálfsfróun. Thomas Laqueur hefur skrifað um þessa læknisfræðilegu sýn á
sjálfsfróun sem almennan sjúkdóms- og spillingarvald í Solitary Sex. A Cultural
History of Masturbation (New york: Zone Books 2003), einkum bls. 185–358.
81 Guðmundur Hannesson, Samræðissjúkdómar, bls. 52.
82 Sama heimild, bls. 64.