Saga - 2019, Page 109
Hér má sjá hvernig umræður lækna á fyrstu fjórum áratugum
tuttugustu aldar höfðu sjúkdómsvætt Reykjavík og þéttbýlis væð -
ing una sjálfa. Í gegnum samskipti sín við útlönd hafði Reykjavík
sýkst og smitaði nú út frá sér með vexti sínum. Þessi orðræða, sem
ég hef nefnt kaupstaðasóttina, var ekki aðeins stunduð innan hóps
lækna heldur hafði ratað inn í almenna þjóðfélagsumræðu og getið
af sér lagasetningu frá Alþingi. Í harðnandi pólitískum átökum
kreppu áranna virðast almennar áhyggjur af kaupstaðasóttinni hafa
stigmagnast og orðið öfgafyllri, þróun sem sjá má kristallast í
ákveðnu lítt þekktu blaðamáli frá miðjum fjórða áratugnum:
Umræðurnar um kaffihús við Laugaveg 11 að nafni White Star.
Alsvartasta hliðin á höfuðborginni
Kaffihúsið White Star var aðeins starfrækt í þrjú ár, 1932–1935, en
vakti engu að síður mikla athygli á sínum stutta líftíma.95 Fyrst var
fjallað um White Star í Alþýðublaðinu síðla árs 1932. „Gestur“ ritaði
þá í blaðið og benti á að það væri kominn „mikill stórborgarbragur
á Rvík … Hér eins og í öðrum borgum er kaffihúsalífið mikið … og
þar sem einhver gleðskapur er, t.d. danz o.þ.h., er jafnan fult hús“.
Gestur tók fram að hann hefði heimsótt „flestar stærri borgir í
Norðurálfu“ og kynnt sér kaffihúsalífið en hvergi hefði hann séð
„annað eins framferði á gestum eins og er á þessu „White Star““:96
Ég fékk mér þarna sæti við autt borð og drakk öl, en varla var ég seztur
fyr en vindur sér að mér þar ung stúlka (virtist vera 16–17 ára) og
settist á hné mér, og var hún all-ölvuð, og heimtaði hún af mér vín, sem
ég auðvitað ekki gat né vildi. Þegar ég svo ekki vildi nein mök hafa við
þessa stúlku, þá sá ég að hún endurtók sama leik við fleiri borð þar
inni, og árangurinn varð upp og niður. — Mér er sagt að sérstaklega sé
mikið um að vera þarna þegar útlend skip eru hér (einkum herskip) og
stúlkur þessar séu mjög áleitnar við dátana og aðra útlendinga, sem á
þennan stað koma. Jafnvel þó þær skilji ekki eitt einasta orð, sem þessir
menn segja, þá virðist samkomulagið ágætt.97
kaupstaðasótt og freyjufár 107
95 Guðjón Friðriksson skrifar stuttlega um White Star í Saga Reykjavíkur II, bls.
209–210, auk þess sem Hrafn og Illugi Jökulssynir fjalla ítarlega um skrif
nasista um White Star í Íslenskir nasistar (Reykjavík: Tákn 1988), bls. 188–199.
96 Gestur, „„Hvíta stjarnan“ á Laugaveginum“, Alþýðublaðið 1. nóvember 1932,
bls. 3.
97 Sama heimild.