Saga - 2019, Qupperneq 115
lega heilbrigð afkvæmi, séu hiklaust ófrævuð. Víðtækar ráðstafanir
séu gerðar til að útrýma kynsjúkdómum og saurlifnaði, t.d. með
upplausn Kommúnistaflokksins, lokun White Star og lögbanni við
útgáfu marxistískra klámrita.“115
Úrkynjun, kynsjúkdómar, klám og kommúnismi birtust þannig
í sömu kröfugerð og í sömu andrá og kaffihúsið White Star: Allt var
þetta tekið sem dæmi um erlendar sýkingar, framandi íslenskri þjóð,
sem lögðust sérstaklega á ungar konur í Reykjavík og spillti þeim.
Þetta var engin hending í þeirra augum heldur hluti af erlendu
sam særi gegn þjóðinni. Nasistar héldu því fullum fetum fram að
„Komm únistaflokkur Íslands og kaffihúsið White Star … hefðu um
undanfarin ár unnið skipulagsbundið hönd í hönd að útbreiða kyn-
sjúkdóma hér á landi“.116 Kaupstaðasóttin var þannig orðin að
vopni í höndum framandi afla.
Kaupstaðasóttin: Nokkrar niðurstöður
Í þessari grein hefur verið rakið hvernig áhyggjur Íslendinga af kyn-
ferði og kynheilbrigði ógiftra kvenna í kaupstöðum landsins jukust
stöðugt frá seinustu árum nítjándu aldar og fram eftir tuttugustu
öldinni, sérstaklega í Reykjavík. Þar hafði myndast nýr þjóðfélags-
hópur vinnukvenna sem setti svip sinn á bæinn og bjó til nýja stöðu
í kynferðismálum hans. Myndun þessa hóps með stöðugum straumi
kvenna í þéttbýli úr sveit var nefnd „kaupstaðasótt“ skömmu fyrir
aldamótin, tvírætt orð sem sjúkdómsvæddi þéttbýlis væð ing una og
Reykjavík sérstaklega.
Veiki þessi var kynferðisleg í eðli sínu. Í Árbókum Lærða skólans
má lesa um sambönd skólapilta úr efri stétt og þessara kvenna, sam-
bönd sem piltar litu á sem vændi og tengdu við óhreinindi og
kaupstaðasótt og freyjufár 113
115 „Kröfur þjóðfylkingarinnar“, Ísland 2:30 (1935), bls. 2. „Marxistísku klámritin“
eru meðal annars bók Katrínar Thoroddsen, Frjálsar ástir. Erindi um takmark -
anir barneigna (Reykjavík: A.S.V. 1931) og bók Aðalsteins Sigmundssonar
barnakennara, Á að fræða börn og unglinga um kynferðisleg efni? Fyrirlestur með
teikningum úr vinnubók skóladrengs (Reykjavík 1934). Sjá: S.J., „Heilbrigði
þjóðarinnar er í hættu“, bls. 1; Guttormur Erlendsson, „Sjálfstæði Íslands“,
Stúdentablaðið 13 (1936), bls. 4–9, hér bls. 8; „Siðspilling marxismans“, Ísland
2:27 (1935), bls. 1–2; „Kensluaðferðir í Austurbæjarskólanum. Teikningar í
heilsufræði.“, Þórshamar 1:5 (1934), bls. 4.
116 S.J., „Heilbrigði þjóðarinnar er í hættu. Vöxtur marxismans er orsök vaxandi
siðleysis þjóðarinnar“, Ísland 2:12 (1935), bls. 1, 4.