Saga - 2019, Page 119
vilhelmína jónsdóttir
„Ný gömul hús“
Um aðdráttarafl og fortíðleika
í nýjum miðbæ á Selfossi
Í nýjum miðbæ á Selfossi verða ríflega þrjátíu hús úr fortíðinni endurgerð.
Húsin eiga það sameiginlegt að þau stóðu áður víðs vegar um landið en
brunnu, voru rifin eða eyðilögðust með öðrum hætti og eru því ekki
lengur til í upprunalegri mynd. Hugmyndin byggi á því að skapa megi
áhugaverðan stað fyrir ferðamenn og aðlaðandi miðbæ fyrir heimafólk
með því að vísa til fortíðar. Greinin byggir á tilviksrannsókn þar sem nýju
miðbæjarskipulagi á Selfossi voru gerð skil í viðtölum við aðstandendur
tillögunnar og íbúa á Selfossi. Rætt er um þá merkingu sem fólk leggur í
nærumhverfi sitt, meðal annars með tilliti til skrifa fræðimanna á borð við
Laurajane Smith og Rodney Harrison um menningararf sem orðræðu.
Skoðað er hvaða máli söguvitund, þekking, staðsetning og samhengi
skiptu í viðhorfum viðmælenda til nýja miðbæjarins. Sérstaklega er fjallað
um það í hvaða tilvikum íbúar eru líklegir til upplifa fortíðleika, eins og
fræðimaðurinn Cornelius Holtorf hefur fjallað um það hugtak, og hvaða
þættir þurfa að vera til staðar eigi að skapa slíka tengingu.
Í mars árið 2015 var haldinn kynningarfundur í Tryggvaskála á
Selfossi að viðstöddu fjölmenni. Fundurinn var haldinn í tilefni þess
að Sveitarfélagið Árborg og Sigtún þróunarfélag höfðu undirritað
viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum miðbæ á Selfossi þar sem
reisa skyldi litrík og fjölbreytt hús úr fortíðinni.1 Í sjónvarpsviðtali í
kjölfar fundarins sagði þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur
Davíð Gunnlaugsson, meðal annars: „Þetta er algjörlega frábært.
Virkilega flott hönnun og mun skipta sköpum fyrir ekki bara þetta
sveitarfélag heldur Suðurland allt og fyrir Ísland mun þetta hafa
mjög jákvæð áhrif verði þetta að veruleika.“2 Af ummælum for-
sætisráðherra má ráða að væntingar til framkvæmdarinnar voru og
Saga LVII:2 (2019), bls. 117–151.
Vilhelmína Jónsdóttir, vij13@hi.is
1 Vef. „Ný heildarsýn á miðbæ Selfoss“, Sveitarfélagið Árborg 19. mars 2015,
https://www.arborg.is/ny-heildarsyn-a-midbae-selfoss, 28. febrúar 2017.
2 Vef. Magnús Hlynur Hreiðarsson, „Uppbygging nýs miðbæjar á Selfossi að hefj-
ast“, Vísir.is 20. mars 2015, http://www.visir.is/g/2015150329864/uppbygging-
nys-midbaejar-a-selfossi-ad-hefjast, 5. október 2016.