Saga - 2019, Side 134
ljúfsáran söknuð eða angurværa þrá eftir hinu liðna og kunnuglega,
líkt og David Lowenthal hefur lýst og fjallað var um hér að framan.
Tillagan um nýjan miðbæ á Selfossi byggir á þessu: Að fortíðin sé
kunnugleg, kalli fram ákveðin áhrif og laði að fólk. Þá má spyrja hvaða
þættir séu líklegir til að laða fram ljúfsára fortíðarþrá sem hafi slíkt
aðdráttarafl að heimamenn og gestir sæki í nýjan miðbæ á Selfossi.
Í viðtölunum var áberandi hvernig nútíma og fortíð var stillt
upp sem andstæðum þegar kom að manngerðu umhverfi. Fram kom
hjá arkitektum miðbæjartillögunnar að þær forsendur sem væru
fyrir hendi í nútímanum, meðal annars með stærri og dýrari lóðum
samfara kröfum um aukið nýtingarhlutfall og hagkvæmni, tak-
mörkuðu möguleika á að skapa manneskjulegt umhverfi. Ekki væri
endilega við vinnu arkitekta að sakast:68
Mælikvarðinn er orðinn of stór. Húsin eru of há. Skugginn of mikill.
Vindurinn of mikill. … fjölbreytnin lítil. … Þannig að þetta eru allt
þættir sem hafa neikvæð áhrif á þínar upplifanir og hvernig þér líður í
svona umhverfi. Þetta hefur kannski líka eitthvað með efnið að gera.
Þetta er allt svona ópersónulegt, eða svona tæknilegt, klæðningarefni,
steinsteypa, álklæðningar, eitthvað svona.69
Því horfa hönnuðirnir í þessu verkefni aftur til fortíðar. Þeir leita til
baka í annað byggingarlag, aðra mælikvarða, ólíka efnisnotkun og
fjölbreyttara litaval sem sé ólíkt byggingum nútímans:
Við getum séð fyrir okkur 200 metra langa húsalínu, eða götulínu, þar
sem að eru sirka þrjú hús við. Og svo getur þú séð hinum megin við
götuna þar sem standa kannski tuttugu hús á sömu lengd. Öll mismun-
andi að lit, lögun, rytma, í frágangi og bera þetta tvennt saman. Það er
akkúrat það sem skilur á milli. Það er fjölbreytileikinn, mælikvarðinn,
nálægðin. Þú nærð tengingu, þú sérð þökin.70
Ólík efnisnotkun, litanotkun og mælikvarði eru meðal þess sem skilur
að nútíma og fortíð að mati beggja arkitekta. Fortíðin sé fjölbreytt,
andstætt nútímanum sem sé einsleitur.71 Þá kom fram í viðtölunum
vilhelmína jónsdóttir132
68 VJ 2, 2016; VJ 3, 2016.
69 VJ 2, 2016.
70 Sama heimild.
71 VJ 2, 2016; VJ 3, 2016. Sambærileg atriði komu fram í máli beggja arkitekta. Þeir
töluðu m.a. um „mælikvarða“, „mannlegan skala“ og „efnisáferð“ og að
gömul hús byggju yfir ákveðnum „notalegheitum“ sem nýbyggingar skorti.