Saga - 2019, Side 143
sýnilega þrívíddarhluti úr fortíðinni“ eða nýbyggingar með „and-
litságræðslu“ úr fortíðinni.109
Eins og getið var um að framan telur Holtorf að efnislegar vís-
bendingar um aldur þurfi að fara saman við væntingar áhorfenda.
Þannig þarf tillagan um nýjan miðbæ og þau hús sem þar verða
reist að falla að hugmyndum fólks um húsakost fortíðarinnar. Við -
mælendur stilltu nútíma og fortíð ítrekað upp sem andstæðum
þegar kom að manngerðu umhverfi og efnislegum þáttum sem skýra
aðdráttarafl fortíðar. Nútímanum var þannig lýst sem stórum og
einsleitum, úr áli og steinsteypu, sem skorti „notalegheit“ andstætt
fortíðinni sem hefði manneskjulegri mælikvarða, timbur, bárujárn,
litagleði og fjölbreytni.110 Þessir efnislegu þættir eiga sinn þátt í að
skapa það sem fólk telur vera trúverðuga birtingarmynd af fortíð -
inni. Litríkt timbur og bárujárn, smærri mælikvarði og byggingarlag
sem er tengt fortíðinni, líkt og fyrirhugað er að notast við á Selfossi,
eiga þannig þátt í að kalla fram tengsl gesta og gangandi við for -
tíðina, jafnvel svo að þeir skynji fortíðleika í nýja miðbænum.
Þegar hús úr fortíðinni eru endurgerð fylgja þeim frásagnir um
tilurð þeirra, hlutverk og endalok.111 Að endurgera hús í samtíman-
um ber jafnframt vitni um ákveðið gildismat þar sem talið er að
húsið eigi erindi við samtíðina og eigi til dæmis heima í menningar -
landslagi miðbæjar Selfoss. Samkvæmt hugmyndum Holtorfs þurfa
að vera haldbærar skýringar fyrir endurgerð húss í samtímanum
eigi áhorfendur að upplifa tengingu við fortíðina með fortíð leika.
Viðmælendur mínir úr hópi Selfyssinga lýstu almennt ánægju
sinni með að endurgera ætti hús frá Selfossi í hinum nýja miðbæ.
Átti það jafnt við um þá sem voru jákvæðir í garð tillögunnar og
aðra sem voru síður hrifnir af henni. Gamla mjólkurbúið bar oftast
á góma og voru viðmælendur mínir mjög jákvæðir gagnvart endur-
gerð á því sem og því að húsið Ingólfur, sem áður stóð á Selfossi,
myndi aftur eignast stað í bænum.112 Þannig sagði einn af viðmæl-
„ný gömul hús“ 141
109 VJ 2, 2016; VJ 3, 2016.
110 Sjá: VJ 2, 2016; VJ 3, 2016. Sjá einnig: VJ 8, 2017; VJ 9, 2017; VJ 11, 2017; VJ 13,
2017.
111 Ólafur Rastrick, „Movable Topographies“, bls. 153–155.
112 Húsið sem viðmælendur vísuðu til sem gamla mjólkurbúsins var tekið í
notkun árið 1929 og byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameist-
ara ríkisins. Húsið hafði tvær burstir og þótti glæsilegt en var rifið á árunum
1954–1955. Sjá: Guðmundur Kristinsson, Saga Selfoss II — frá 1930–1960, bls.
15–18.