Saga - 2019, Side 175
byggja brú á milli opinberra safna og þeirra aðila sem á hverjum
tíma starfa innan og til hliðar við heilbrigðiskerfið og hafa þekkingu
á notkun minjanna og áhuga á varðveislu þeirra í almannaþágu. Þar
má nefna til sögunnar ýmsar stofnanir, fyrirtæki, einstaklinga, fag-
félög starfsstétta og sérfræðigreinar á heilbrigðissviði, skóla og náms -
greinar á sviði heilbrigðisvísinda að ótöldum þeim fræðafélögum og
fræðimönnum sem starfa að rannsóknum og miðlun sögunnar.
Ekki stóð til að flytja allar íslenskar lækningaminjar í Nes heldur
var markmiðið þvert á móti að skapa yfirsýn yfir varðveittar lækn-
ingaminjar, jafnt innan og utan safna landsins, og samræma söfnun
og varðveislu þeirra í samvinnu við alla þá sem minjanna gæta.
Einnig var safninu ætlað að draga saman tiltæka þekkingu um notk-
un gripanna og gera aðgengilegar upplýsingar um þá þróun sem
hefur átt sér stað í heilbrigðisvísindum og tækni. Þá var það hlut -
verk safnsins að veita ráðgjöf á landsvísu um varðveislu lækninga-
minja, leiðbeina um rétt vinnubrögð og hlúa að samstarfi um skrán-
ingu og öflun þekkingar tengdrar lækningaminjum. Að lokum var
Lækningaminjasafni ætlað að taka þátt í að miðla heilbrigðissögunni
um land allt.
Safninu var með öðrum orðum ætlað að vera breiður vettvangur
fyrir rannsóknir og miðlun heilbrigðissögu, að samhæfa söfnun og
skráningu minjasafna, aðstoða stofnanir og félagasamtök við varð -
veislu minja og stuðla að varðveislu og miðlun bæði í safninu í Nesi
og um landið allt. Hlutverkið var umfangsmikið og til þess að upp-
fylla það var Lækningaminjasafninu sett stefna sem það starfaði
eftir. Stefnan, sem ber heitið „Stefna Lækningaminjasafns Íslands.
Söfnun, miðlun og fræðsla“, er aðgengileg á vef Lækninga minja safns -
ins sem er varðveittur í vefsafni Landsbókasafns Íslands – Há skóla -
bókasafns.9 Þar er fjallað um safnið, hlutverk þess, sögu og safneign
og mörkuð stefna um söfnun lækningaminja og um sýn inga- og
fræðslustarf safnsins. Hugtakið lækningar var skilgreint vítt, bæði
með skírskotun til almennra breytinga á kjörum og aðbún aði þjóðar-
innar og með hliðsjón af sögu vísinda og tækni. Tiltekið var að safn-
eign Lækningaminjasafns skyldi ekki binda við ákveðið sjónarhorn,
starfsemi, tímabil, starfsstétt eða landsvæði.
í minningu safns 173
9 Vef. „Stefna Lækningaminjasafns Íslands. Söfnun, miðlun og fræðsla“, Lækn -
inga minjasafn Íslands, 21. október 2009, http://wayback.vefsafn.is/wayback/
20121112175409/http://www.laekningaminjasafn.is/media/stefnur-og-skyrslur/
Sofnunarstefna-Laekningaminjasafns-Islands.pdf, 29. júlí 2019.