Saga - 2019, Page 194
að ímynda sér að þá hafi verið færri en 70 þúsund manneskjur í
landinu og alls ekki útilokað að þær hafi verið 100 þúsund“ (AK
119). Og annars staðar: „Við getum giskað á að mannfjöldinn hafi
verið 90 þúsund um 1400 en minnkað niður í 30 þúsund eftir svarta-
dauða 1402–04.“ (AK 122). Þessari skoðun, um hámarksfólksfjölda í
80.000–100.000 á fjórtándu öld, deilir Axel með Árna Daníel Júlíus -
syni.13 Ágreiningur minn við þá félaga snýst þá einkum um fólks-
fjölda á fjórtándu öld. Gallinn er bara sá að mikill fólksfjöldi á fjórt-
ándu öld hjálpar ekki til að skýra hinn mikla nautgripafjölda sem
birtist í fjósarústunum.
Annars vegar stafar það af því að ég leiddi til niðurstöðu um
heildarfjölda nautgripa á miðöldum með því að margfalda áætlaðan
meðalfjölda gripa í hverju fjósi með áætluðum fjölda býla. Að svo
miklu leyti sem fólksfjöldatalan er hækkuð með því að áætla fjölda
býla meiri en ég gerði þá fjölgar fjósunum og þar með nautgripum,
kannski ekki alveg að sama skapi af því að búast má við að stærri
hluti nýju byggðarinnar sé viðbótarbýli á býlum sem voru til fyrir,
og deildu þá kannski fjósi með þeim sem höfðu búið þar fyrir, eða
hjáleigur sem hafa síður dregið til sín athygli fornleifafræðinga en
lögbýli. En ástæðulaust er annað en að gera ráð fyrir að fjósunum
fjölgi umtalsvert ef gert er ráð fyrir meiri fólksfjölda.
Hitt er það að stærð uppgröfnu fjósanna skýrist ekki af fólks-
fjölda á fjórtándu öld vegna þess að aðeins eitt þeirra er frá fjór -
tándu öld, í Gröf í Öræfum. Hin eru öll eldri, flest miklu eldri (sbr.
töflu). Ef uppgrafnar fjósarústir frá miðöldum vitna um nautgripa -
búskap meira en 100.000 íbúa þá á það einna helst við elleftu til
tólftu öld.
Er þá nærtækast að álykta af fjölda fjósbása að fjöldi Íslendinga
hafi farið yfir 100.000 á elleftu og tólftu öld? Þegar ég skrifaði Lífs -
björg Íslendinga fannst mér það helst til einföld lausn að bæta bara
við fólki þangað til dæmið gengi upp. Svo margt hefur líka verið
skrifað um fólksfjölda í landinu um það leyti, þegar Ari fróði segir
frá því í Íslendingabók að bændur sem greiddu þingfararkaup hafi
verið 38 hundruð nálægt aldamótunum 1100, að ekki virtist hægt að
gunnar karlsson192
13 Árni Daníel Júlíusson, Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700.
Sagnfræðirannsóknir XXIII (Reykjavík: Háskólaútgáfan, Sagnfræðistofnun Há -
skóla Íslands 2018), bls. 123, 127, 149, 246. Bækur Axels og Árna Daníels komu
báðar út árið 2018 og halda fram sömu skoðunum um öll meginatriði. Ástæðu -
laust er hér að reyna að rekja hvað kom upphaflega frá hvorum.