Saga - 2019, Page 207
að Eggert hafi löngum staðið öðrum bændum framar í jarðarbótum.
Hann var og stórtækur í nautgriparækt.22
Réttarrannsókn í Laxvogsmáli
Hinn 7. júní 1892 lögðu Þorkell Bjarnason, Eggert Finnsson og Hans
Stephensen fram kæru til amtmanns á hendur Þórði Guðmundssyni
á Neðra-Hálsi og Þórði Guðmundssyni í Glasgow fyrir að stunda
veiðar í net í Laxvogi. Veiðiaðferð þeirra töldu kærendur óheimila
samkvæmt laxafriðunarlögunum frá 1886. Settur amtmaður í Suður-
og Vesturamtinu, Kristján Jónsson, fól sýslumanninum í Gullbringu-
og Kjósarsýslu, Franz Eduard Siemsen, rannsókn málsins. Veiði
skyldi hætt ef brotleg reyndist og hinir brotlegu látnir sæta ábyrgð.
Aðkoma sýslumanns var þó ekki hnökralaus þar sem honum bar að
gæta hagsmuna þjóðjarðarinnar Valdastaða (í Laxárdal milli Neðra-
Háls og Sogns) sem átti hlut í veiðinni í Laxá. Sýslumaður gat þannig
ekki talist með öllu hlutlaus dómari en samt taldi amtmaður ekki
geta komið til álita að setja annan mann í málið.23
Lögregluréttur var settur á Neðra-Hálsi 21. júlí 1892. Samkvæmt
vitnaleiðslum stunduðu Þórður hreppstjóri og nafni hans í Glasgow
laxveiði með netum í Laxvogi. Tvær af þremur kvíslum, sem upp
koma á fjöru, voru þvergirtar og litu kærendur svo á að netin hindr -
uðu laxagöngu upp í ána og væri veiðiaðferð þeirra því ólögleg
samkvæmt laxafriðunarlögum. Veiðimennirnir töldu hins vegar að
þeim væri heimil veiði í sjó þar sem net þeirra lægju, þótt undir
rynnu árkvíslar um fjöru. Þórður hreppstjóri fór fram á að hinir
ákærðu fengju sér skipaðan talsmann og hæfilegan frest til andsvara
og féllst sýslumaður á að fresta málinu um sinn.24
Ekki var bókað hversu langur sá frestur skyldi vera en réttar-
rannsókn var fram haldið á Neðra-Hálsi tæpu ári síðar, þann 1. júní
1893. Þórður hreppstjóri var á staðnum en ekki er getið um Þórð í
laxveiði og friðun 205
22 Sjá nánar um feril Eggerts á Meðalfelli: Gísli Brynjólfsson, „Eggert Finnsson á
Meðalfelli“, Bóndi er bústólpi IV. Ritstj. Guðmundur Jónsson (Reykjavík: Ægis -
útgáfan 1980–1983), bls. 31–54; Haraldur Pétursson, Kjósarmenn, bls. 312 og 469;
HM. EF-19:3.9. Vinnuskýrslur Búnaðarfélags Kjósarhrepps 1898–1917.
23 ÞÍ. Sýsluskjalasafn. Gullbringu- og Kjósarsýsla. B/100, 4.
24 ÞÍ. Sýsluskjalasafn. Gullbringu- og Kjósarsýsla. GA/11, 2. Þingbók 1891–1895,
bls. 199–202.