Saga - 2019, Blaðsíða 230
Árni Heimir Ingólfsson (bls. 31–55) skrifar um sálmasafnið Hymnodia
sacra (Lbs 1927 4to) sem séra Guðmundur Hákonarson tók saman á meðan
hann var djákni í Holti undir Eyjafjöllum, vafalítið að fyrirmynd danskrar
bókar, og kláraði þegar hann var kominn að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum
haustið 1742. Guðmundur mun hafa gert sér vonir um að verkið yrði prent -
að en svo illa vildi til að sama ár gáfu báðir biskupar út ný sálmasöfn, annað
að Hólum og hitt í Kaupmannahöfn. Guðmundur hlaut að bíða og á endan-
um varð verk hans grundvöllur að sálmabók sem Hálfdan Einarsson gaf út
að Hólum árið 1772. Í greininni er þessi saga sögð og efni handritsins ítar -
lega sundurgreint, með áherslu á vönduð vinnubrögð höfundar, sem og
tengslin við hina prentuðu útgáfu. Hliðstæð er grein Svanhildar Óskars dótt -
ur og Katelin Parsons um ritstörf Guðmundar Runólfssonar sem tvítugur
afritaði prentaðan grallara með fáeinum viðbótum (Þjms. 7351) og safnaði
sálmum Hallgríms Péturssonar auk þess sem hann afritaði prentaða sálma-
bók (JS 209 8vo). Guðmundur var lengi sýslumaður Kjósarsýslu og lét árið
1778 prenta bókarkorn um Guðrúnu Einarsdóttur biskupsekkju, sem hann
hafði unnið fyrir ungur. Til er brot úr handritinu sem hann sendi norður að
Hólum og gefur allt þetta höfundum færi á að ræða þrenns konar tengsl
handrita og prentunar, nefnilega handrit ætluð til útgáfu, handrit skrifuð
eftir prenti og handrit sem einfaldlega voru handrit.
Líkt og Margrét tekur Silvia Hufnagel fyrir bækur prentaðar á Hólum
en ekki út frá innihaldinu heldur leggur hún mat á hönnun titilsíðna í prent-
aratíð Péturs Jónssonar árin 1773–1780. Formsatriði eru tekin fastatökum og
sýnt hvernig stærð bóka speglaði innihald og hvernig breytingar á leturgerð,
römmum og fleiru benda til markvissra vinnubragða og viðleitni til að gera
betur. Bagalegt er að höfundur skuli ekki ræða ofangreint prentsmiðjuhand-
rit Guðmundar Runólfssonar, þar sem á spássíu má sjá ákvarðanir Péturs
um leturstærð og fleira (bls. 119–121). Mál hefðu þurft að fylgja ljósmyndum
af titilsíðum og tafla yfir stærðir hefði komið sér vel. Sem viðbót um Pétur
má nefna að hann átti fyrst Ingveldi Jónsdóttur og þau skildu vorið 1777. Til
er uppskrift eigna og skipting, hann hélt bókbandsverkfærum og handritum
rímna og sagna en hún fékk mestallt guðsorðið (ÞÍ. Sýsl. Skagafjarðarsýsla
ED1/1, 2. Skiptabók 1773–1786, bl. 32–36).
Nokkuð skortir upp á flæði á milli greina og sjaldan er vísað á milli um
sameiginleg atriði (bls. 97, 163, 171, 202, 287, 325), til dæmis ekki í þremur
greinum sem fjalla um lestur og menntun kvenna. Ekki fylgir samantekt í
bókarlok eða greining á því hverjar væru helstu niðurstöður eða jafnvel
næstu skref. Lesendur verða þá bara að hugsa sjálfir, svo sem oft vill verða,
og að öllu samanteknu er hér á ferðinni veglegt safn fyrirtaksgreina sem sýna
grósku í rannsóknum á þeim stórmerkilega efnivið sem íslensk handrit frá
síðari öldum eru — og þar af leiðandi afbragðsgóð fræðileg landkynning.
Már Jónsson
ritdómar228