Saga - 2019, Síða 248
korn hafi mátt rækta og hafi verið ræktað við mun harðari kjör en við álítum
í dag að geti hafa gerst voru það því einnig og ekki síður þessi skipulagslegu
atriði sem líklega settu takmörkin. Er þá ekki gleymt áhrifum verðmunar
heimakorns annars vegar og aðkeypts (innflutts) korns hins vegar á fýsileika
þess að leggja mikla og sumpart erfiða vinnu á annatíma í kornrækt, saman-
ber orð Odds Einarssonar biskups: „að miklu hagkvæmara sé að kaupa inn-
flutt korn en baka sér árleg útgjöld við erfið akuryrkjustörf heima fyrir.“
(Íslandslýsing. Reykjavík. Menningarsjóður 1971, bls. 126).
Greining Árna Daníels á félagsgerð í tveimur hreppum í sitt hvorum
landshlutanum árin 1702–1713 leiðir til athyglisverðrar niðurstöðu um það
hvika (dýnamíska) kerfi sem markaði lífsferil flestra þar, að nær „allar fjöl-
skyldur í þessu samfélagi tilheyrðu (í alþjóðlegu samhengi) eins konar milli-
stétt bjargálna bænda“ (bls. 224–225). Í hvaða mæli á landsvísu þetta var
gildandi skal ekki fullyrt en bendir þó til að minna hafi farið fyrir lagskipt-
ingu íslenska bændasamfélagsins en hliðstæðra í nágrannalöndum, til
dæmis í Danmörku, svo og Englandi sem höfundur dregur sérstaklega fram
til samanburðar.
Með verki sínu dregur Árni Daníel fram athyglisverðar niðurstöður sem
sumar hverjar kalla á endurmat fyrri hugmynda um sambúð lands og
þjóðar um miðbik sögulegs tíma þjóðarinnar — að „landið hafi hvorki farið
illa með þjóðina né þjóðin illa með landið“ (bls. 11). Hann rær svo sem ekki
einn á báti í þessum efnum því Axel Kristinsson hefur meðal annars með
nýlegum rannsóknum sínum komist að niðurstöðum sem mjög falla í sama
far (Hnignun, hvaða hnignun? Reykjavík. Sögufélag 2018). Þótt eflaust megi
deila um einhver atriði í rannsóknum þessum víkja þau að mati skrifarans
fyrir aðalatriðinu, að um er að ræða rannsókn á búskaparkerfi sem heild,
rannsókn sem byggist á nálgun viðfangsefnisins úr þremur ólíkum áttum:
rannsókn byggðarskjala, tölulegu mati á framleiðslugetu landsins í ljósi
fóðurþarfar og loks rannsókn á félagskerfi þess samfélags sem mótast hafði.
Vegna þeirrar heildarsýnar virðast meginniðurstöður verksins traustar og
að flest vötn þeirra falli til Dýrafjarðar: Að landið, á því tímabili er til rann-
sóknar var, hefði getað borið umfangsmeiri og fjölbreyttari landbúnað en
þörf þjóðarinnar krafðist en að pestir fimmtándu aldar hafi öðru fremur séð
fyrir eðlilegum vexti hennar.
Texti bókarinnar er víðast skýr og vel læsilegur þótt fjallað sé um tyrfið
efni á pörtum. Prófarkalestur er með ágætum. Lesarinn datt um augljósa
misritun í 13. línu á bls. 249, „2000 e.Kr.“ á áreiðanlega að vera „f.Kr.“. Að
„safnað væri töðu — kúamykju — í fjósum allan veturinn“, sjá neðst á bls.
172, er einhver fljótaskrift og fáein hugtök hefði þurft að endurskoða/lag-
færa, svo sem „útibeit“, bls. 163, „miklu af húsdýrum“, bls. 172, „heyrækt“,
bls. 173, en sérstaklega hugtakið „fallþungi“ á bls. 178 sem sýnilega er þar
notað um annað en hefðbundið er. En allt eru þetta minni háttar atriði sem
litlu breyta um meginmálið: Að Árni Daníel Júlíusson hafi með rannsóknum
ritdómar246