Fréttablaðið - 11.06.2022, Síða 34
Í auknum mæli
hefur almenni
byggðakvótinn ekki
verið að nýtast þeim
byggðum sem honum er
ætlað að veita stuðning.
Það gerist á þann hátt að
stærri skip hafa fengið
honum úthlutað þar sem
útgerðir þeirra skeyta
því lítt hvort gert er út frá
því byggðarlagi sem
aflaheimildirnar eru
veittar til.
Strandveiðar standa nú sem
hæst. Þátttaka er afar góð og
alls hafa 639 bátar landað á
vertíðinni. Afli hefur aukist
á öllum svæðum, en að
vanda mismikið.
olafur@frettabladid.is
Örn Pálsson er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeig-
enda. „Mér sýnist þeir á svæði A
eiga hvað auðveldast með að ná
skammtinum. Nú fer hins vegar að
nálgast sá tími sem fiskgengd eykst
á svæði C, sem á í raun allt undir
því að ráðherra tryggi veiðar til
ágústloka.“
Örn segir að miðað við ráðgjöf
Hafrannsóknastofnunar í fyrra
hefðu menn getað búist við minni
veiði. „Mínir menn á miðunum
segja svo ekki vera. Sú ánægjulega
þróun hefur átt sér stað að fiskverð
hefur hækkað frá síðasta ári. Það
hefur meðal annars leitt til þess að
menn leggja sig meir eftir ufsanum
þar sem aflinn hefur aukist um
rúm 200 prósent.
Meðalverð á þorski á mörkuð-
unum frá því strandveiðar hófust
2. maí stendur í 388 kr./kg en var
299 yfir sama tíma í fyrra. Það
munar um 30 prósenta hækkun. Í
ufsanum eru tölurnar 189 kr./kg á
móti 99 kr./kg í fyrra.“
Auk þess sem á sjöunda hundrað
sjómenn hafa atvinnu sína af
útgerð smábáta og rekstri sjálf-
stæðra fyrirtækja eru strandveiðar
gríðarlega mikilvægar fyrir fjöl-
marga. Fiskvinnslur og útflytj-
endur taka strandveiðifiskinum
fagnandi. Þessir aðilar geta keypt
þúsundir tonna á markaði yfir
sumartímann og selt á hæsta verði.
„Fyrir stuttu las ég viðtal við
aðila í Fiskifréttum sem rekur
fiskvinnslu í Hafnarfirði,“ segir
Örn. „Hann sagði fínan fisk koma
frá strandveiðiflotanum. Mikil
breyting hafi orðið til batnaðar á
meðferð aflans frá því strandveið-
ar hófust. LS hefur alltaf brýnt það
fyrir mönnum að ganga vel um, sá
áróður hefur skilað sér og nú sjá
menn um það sjálfir sín á milli.
Nú er það ekki liðið að menn fari
íslausir á sjó, þar sem kæla verður
strax eftir að fiskurinn er kominn
um borð til að tryggja gæðin.“
Örn segir helsta áhyggjuefnið
hvað varðar strandveiðarnar vera
ákvæði laga í stjórn fiskveiða um
stöðvun veiða þegar sýnt er að
leyfilegum heildarafla, að ufsa
undanskildum, verði náð.„Á fyrstu
19 dögum strandveiða er þorskafli
á dag að meðaltali 200 tonn. Eigi
strandveiðar að vara til ágúst-
loka verður að bæta við leyfilegan
heildarafla í þorski. Tíu þúsund
tonn duga engan veginn. Gríðar-
lega mikið er í húfi og allt mælir
með að ráðherra komi í veg fyrir
stöðvun veiðanna.“
Örn segir auðvelt að réttlæta
áframhaldandi strandveiðar þar
sem þær séu sjálfbærar að öllu
leyti. „Efnahagslega skila strand-
veiðar miklum verðmætum til
þjóðarinnar í formi tekna til þeirra
sem stunda þær, þjónustuaðila,
fiskmarkaða og fiskvinnslufólks,
svo eitthvað sé nefnt. Við þetta
má bæta tekjum til f lutningsaðila
yfir hafið og gjaldeyristekjum af
útflutningi. Nú, ég tala nú ekki
um ánægju þeirra sem neyta fisks
sem veiddur er af trillukörlum á
Íslandi.“
Að sögn Arnar er umgengnin
um auðlindina annar þáttur
sjálfbærninnar, umhverfisvænar
veiðar, engin hætta á ofveiði né að
gengið verði of nærri þorskstofn-
inum, allt sem þarf til að tryggja
veiðar í ágúst er eitt prósent af
leyfilegum heildarafla og málið sé
dautt. „Þriðji þáttur sjálfbærni sem
ég vil nefna er að atvinnuvegurinn
sé stundaður í sátt við þjóðina. Ég
fullyrði að svo sé. Hver getur lagst
gegn því að hundruð smábáta
stundi róðra yfir sumarið þar sem
einn er í áhöfn? Strandveiðarnar
eru nánast eini möguleikinn á að
ungt fólk hasli sér völl í útgerð. Við
megum ekki leggja stein í götu
þessarar nýbreytni í fiskveiði-
kerfinu, verðum að efla það enn
frekar.“
Ekki bara strandveiðar
Hvernig er það, er Landssamband
smábátaeigenda ekki með nein
önnur mál á dagskrá en strand-
veiðarnar?
„Jú, jú – hjá LS er hugsað um
fleira en strandveiðar. Sextán
svæðisfélög smábátaeigenda
hringinn í kringum landið mynda
Landssamband smábátaeigenda.
Þau eru öll virk, halda árlega fundi,
kjósa í stjórn og álykta um ýmis
málefni. Allt frá stofnun LS, 5.
desember 1985, hefur félagið verið
heppið með stjórnarmenn í félög-
unum ásamt stjórn LS. Hjá stjórn-
málamönnum hef ég heyrt að þeir
komi málefnum smábátaeigenda
vel á framfæri þar sem hógværð
og kurteisi sé í fyrirrúmi. Það sé
gaman að eiga við þá samtal.
Allt þetta, auk stuðnings
almennings, hefur orðið til þess að
smábátaútgerðin hefur orðið sífellt
öflugri, sem marka má á að þeir
veiddu á síðasta fiskveiðiári 85.500
tonn með aflaverðmæti upp á 26
milljarða. Þar skoraði þorskurinn
hæst, var rúmur 2/3 aflans, ýsa um
14 prósent, aðrar helstu tegundir
voru grásleppa, steinbítur og ufsi.“
Miðað við heildarafla alls fisk-
veiðiflotans veiddu smábátar, að
sögn Arnar, á milli 21 og 22 prósent
alls þorsks, fimmtung af allri ýsu
og löngu, fjórðung keiluaflans
og 36 prósent alls steinbíts sem
landað var. Þá kemur grásleppan
öll í hlut smábáta.
Slagurinn stendur áfram
Örn segir LS horfa mjög til þeirra
veiðiréttinda sem áunnist hafa
gegnum tíðina. „Helst er til að
taka 5,3 prósent pottinn sem varið
er til strandveiða, línuívilnunar,
byggðakvóta, skel- og rækjuupp-
bóta og frístundaveiða.
Í auknum mæli hefur almenni
byggðakvótinn ekki verið að
nýtast þeim byggðum sem honum
er ætlað að veita stuðning. Það
gerist á þann hátt að stærri skip
hafa fengið honum úthlutað þar
sem útgerðir þeirra skeyta því lítt
hvort gert er út frá því byggðarlagi
sem aflaheimildirnar eru veittar
til. Í dæmi smábáta sem stunda
dagróðra er þessu ekki svo farið,
þeir eru gerðir út frá þeim stöðum
sem heimildunum er ætlað að
styrkja.“
Blaðamanni finnst fullyrðing
Arnar með ólíkindum og biður
hann að nefna dæmi þessu til
staðfestu. „Förum landshornanna
á milli eða alla leið til Þórshafnar,“
segir Örn. „Hreppurinn átti rétt á
að fá úthlutað um 90 tonnum af
þorski. Smábáturinn Litlanes ÞH, í
eigu Ísfélagsins í Vestmannaeyjum,
var einn þeirra og átti rétt á 40
tonnum. Með heimild í regluverki
stjórnar fiskveiða kom fyrirtækið
því þannig fyrir að byggðakvóti
bátsins var ekki veiddur af bát
gerðum út frá Þórshöfn, heldur af
togara fyrirtækisins sem gerður er
út frá Vestmannaeyjum. Þetta er
aðeins eitt dæmi um hvernig farið
er á svig við markmið almenns
byggðakvóta.“
Örn segist lengi hafa verið
þeirrar skoðunar að byggða-
kvótann eigi eingöngu að nýta af
dagróðrabátum, stærri skip hafi
ekki rétt á honum, þær heimildir
fari til f leiri smábáta og til strand-
veiða. Segist hann sannfærður um
að slíkt fyrirkomulag myndi nýtast
hinum dreifðu byggðum best.
Línuívilnun er eingöngu fyrir
dagróðrabáta. LS vill efla línuveið-
ar með því að ívilnað verði til allra
dagróðrabáta þar sem prósentan
verði hæst hjá þeim sem beita í
landi en fari svo stigminnkandi
eftir því verki sem unnið er áður en
línan er sett í sjó.
Hjá LS fer jafnframt mikil
orka í gerð umsagna við einstök
frumvörp sem eru til meðferðar
á Alþingi. Örn nefnir sem dæmi
stjórnarfrumvarp innviðaráðherra
um áhafnir skipa sem nú er til
meðferðar öðru sinni í umhverfis-
og samgöngunefnd. „Þar er gert ráð
fyrir að skylt sé að hafa stýrimann
í áhöfn standi róður lengur en 14
klukkustundir. Í breytingartillögu
meirihluta nefndarinnar er hins
vegar lagt til að miðað verði við 19
klukkustundir þar sem starfinu
megi gegna hásetar sem hafa að
baki ákveðinn siglingatíma án
þess að hafa réttindi sem stýri-
menn. Ákvæðið gildir til 1. júlí
2024. Verði frumvarpið að lögum
verður að leggja í áframhaldandi
baráttu til að koma í veg fyrir að
skylt verði að skrá stýrimann í
áhöfn smábáta, enda aldrei gert
ráð fyrir slíku í kjarasamningi LS
og sjómannasamtakanna,“ segir
Örn Pálsson og það er alveg ljóst
að baráttunni fyrir réttindum
smábátasjómanna er hvergi nærri
lokið. n
Veiðar smábáta skila 26 milljörðum beint
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að auka þurfi aflaheimildir til strandveiða í ár. FRÉTTABLADID/ANTON BRINK
Hafnarfjarðar-
höfn á fallegum
degi, smábátar
við leguna. Verði
aflaheimildir
til strandveiða
ekki auknar
stefnir í að smá-
bátar landsins
verði bundnir
við bryggju í
stað þess að
færa milljarða í
þjóðarbúið.
FRÉTTABLAðIð/gvA
4 kynningarblað 11. júní 2022 LAUGARDAGURSjómannadagurinn