Bændablaðið - 09.06.2022, Side 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júní 2022
Í upphafi þessa leiðara vil ég koma á
framfæri þökkum til Harðar Kristjánssonar,
fráfarandi ritstjóra Bændablaðsins til 15
ára, fyrir vel unnin störf.
Hörður hefur stýrt ritstjórn blaðsins með
miklum sóma og gert okkar blað bænda að
eftirsóttu lesefni fyrir alla landsmenn.
Einnig vil ég bjóða velkomna í stól ritstjóra
Guðrúnu Huldu Pálsdóttur, sem tekið hefur
við sem ritstjóri og er þetta fyrsta blað á
hennar ábyrgð.
Fæðuöryggi
Talsverð vinna hefur farið fram á skrifstofu
Bændasamtakanna í að fylgjast með þróun
markaða með aðföng til bænda og einnig
þær aðgerðir sem nágrannalönd okkar eru að
gera til að tryggja fæðuöryggi sinna þjóða í
samningum við bændur.
Nú hefur ráðherra matvæla skipað
svokallaðan spretthóp til að móta tillögur
til ráðherra um aðgerðir vegna þróunar á
mörkuðum.
Ég vil fagna því að ráðherra skipi þennan
hóp en hann fær ekki marga daga til að skoða
þessi mál, sem eru ansi umfangsmikil.
Vinnan sem fram hefur farið af okkar hálfu
nýtist vonandi inn í þessa umræðu og tekið
verði tillit til þeirra atriða sem við höfum haft
mestar áhyggjur af. En við sem framleiðendur
verðum einnig að leita allra leiða til að hagræða
í rekstri í flóknu umhverfi aðfangakerfisins.
Þar er af mörgu að taka; olíuhækkanir,
umbúðahækkanir, flutningshækkanir,
fasteignaskattshækkanir og svo mætti lengi
telja, svo ekki sé talað um verðbólgu og
vaxtahækkanir, en allt þetta hefur áhrif á
afkomu íslenskra bænda. En enn og aftur þá
er ábyrgð okkar sem frumframleiðendur mikil.
Bændur og búalið
Ég tel að bændur séu nokkuð bjartsýnir þrátt
fyrir allt og ekki skemmir tíðarfarið, sem hefur
verið með eindæmum gott meira og minna um
allt land. Þetta kemur upp á móti hækkandi
áburðarverði þar sem uppskera virðist stefna
í sæmilegar afurðir.
En sumarið er nú ekki búið en nauðsynlegt
að horfa á það jákvæða í þessari stöðu.
Annað verkefni sem við höfum verið að
vinna að er í samstarfi við laxeldisbændur sem
ætla sér að framleiða lax á landi.
En það er hvernig við getum nýtt þeirra
afurðir sem falla til við framleiðsluna í
hringrásarhagkerfi Íslands.
Það er mjög athyglisverð nálgun á þeim
vettvangi sem mikilvægt er að við sem bændur
komum að til að nýta þau verðmæti sem falla
til við þessa framleiðslu.
Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári.
Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins.
Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti
gegn greiðslu burðargjalds. Árgangurinn (24. tölublöð) kostar þá kr. 12.200 með
vsk. (innheimt í tvennu lagi).
Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar 8.000 með vsk.
Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík.
Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar −
SKOÐUN
Traust og „chill“
Það hlýtur að heyra til undantekninga
að landbúnaðarmiðaður prentmiðill
sé sá stærsti meðal fréttamiðla hjá
einni þjóð.
Lestrartölur sýna, svo ekki verður um
villst, að Bændablaðið er leiðandi miðill
sem lesinn er um allt land, í reynd sá
víðlesnasti á landsbyggðinni og í öðru sæti
yfir mest lesnu prentmiðla á landsvísu.
Lesturinn hefur aukist verulega innan
borgarmarkanna, svo að Vesturbæingar
jafnt sem Vestfirðingar virðast skófla efni
blaðsins í sig.
Varla er hægt að nefna starfsvettvang
sinn án þess að lenda í stórskemmtilegum
og vel þegnum samræðum um hið mæta
Bændablað.
Þetta kemur ekki af sjálfu sér. Inntak
og ímynd blaðsins byggir á mannauðinum
sem að því stendur og Bændablaðið hefur
verið svo heppið að hafa sannkallaða
hamhleypu í brúnni. Það er mikill
sjónarsviptir af Herði okkar Kristjánssyni
í starfsmannahópnum. Hann hefur haldið
vel utan um okkur sem hér vinnum, verið
bæði fyrirmyndarleiðtogi og traustur
vinur. En um leið og hann er yfirmáta
dagfarsprúður þá gegnir öðru máli við
ritstörfin; hann mundaði skarpan penna
og tókst gjarnan að varpa einstakri sýn
á málefni með slíkum hætti að fáir gátu
leikið það eftir.
Í viðtali hér í blaðinu segist Hörður
hafa lagt mest upp úr því að beita
gagnrýninni hugsun á öll viðfangsefni og
umfram allt að vera heiðarlegur og segja
fólki sannleikann með skrifum sínum
og efnistökum.
„Ég hef forðast að elta skrif annarra
fjölmiðla og upplýsa frekar um
áhugaverða hluti sem aðrir leggja sig
ekki eftir, eða nenna ekki að sinna. Ég
held að þetta sé lykillinn að velgengni
Bændablaðsins undanfarin ár. Slíkt gerist
þó ekki nema að allt starfsfólkið rói í
sömu átt,“ segir Hörður.
Það er varla hægt að fylla í fótspor
Harðar. Í ræðu minni í kveðjuhófi
fráfarandi ritstjóra óskaði ég eftir áskrift
að „chillpillunni“ sem hann virðist eiga
botnlausan forða af. En við vinnslu á
þessu fyrsta blaði mínu sem ritstjóri þá
átta ég mig á að „pillan“ er í raun það
frábæra fólk sem vinnur hér á blaðinu.
Á undanförnum árum hefur
Bændablaðið leitt umræður um brýn
málefni sem varða okkur öll. Hér má nefna
fæðuöryggi í landinu, orkumál, umhverfis-
og auðlindamál sem og heilbrigðisógnina
sem fylgir sýklalyfjaónæmi. Lengi vel
var blaðið nær eitt um að fjalla um þessi
viðfangsefni af þekkingu og gagnrýni.
En allt eru þetta mál sem hafa á síðustu
misserum komist í sviðsljós almennrar
fjölmiðlaumræðu og ekki að ósekju.
Þetta eru mál málanna. Þau tengjast
grunnþáttum lífsins og lífsgæða okkar.
Þetta eru málefni sem allir ættu að láta
sig varða.
Auðmjúk tek ég því við starfi Harðar
og mun af heilindum vinna að því að
halda áfram á þeirri vegferð sem hann
hefur leitt í yfir áratug.
Við munum halda áfram að fjalla um
grunnstoðir samfélagsins á gagnrýninn
hátt, byggja upplýsingar á okkar trausta
þekkingarbrunni og leitast eftir því að
varpa skýrri og skiljanlegri sýn á fjölbreytt
efnistök okkar. Ætlun okkar er að stunda
áfram metnaðarfulla upplýsingagjöf sem
mark er á takandi og tilgangurinn er ávallt
að lesandi Bændablaðsins geti myndað
sér upplýsta skoðun að lestri loknum.
/ghp
Íslenskur landbúnaður grunnstoð fæðuöryggis
Gunnar Þorgeirsson
formaður Bændasamtaka Íslands
gunnar@bondi.is
GAMLA MYNDIN
Ritstjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir (ábm.) gudrunhulda@bondi.is – Sími: 563 0318 – Blaðamenn: Ástvaldur Lárusson astvaldur@bondi.is – Hulda Finnsdóttir hulda@bondi.is –
Margrét Þóra Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigrún Pétursdóttir sigrunpeturs@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Þórdís Una Gunnarsdóttir thordis@bondi.is – Sími: 563 0303
Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Sími smáauglýsinga: 563 0300 – Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is
Frágangur fyrir prentun: Sigrún Pétursdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621
Bændaskólinn í Ólafsdal
Torfi Bjarnason skólastjóri á tröppunum en Áskell Ingimundarson við húsgaflinn. Myndin er tekin milli 1905 til 1910. Ólafsdalsskólinn var fyrsti
bændaskóli á Íslandi og tilgangur með stofnun hans að kenna bændum verklega og bóklega jarðrækt. Torfi Bjarnason, sem síðar var skólastjóri
skólans, fór til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur Íslendinga og hafði hann meðferðis til baka búfræðiþekkingu frá Skotlandi. Skólinn var
settur i fyrsta sinn 1. júní 1880 og hófu fimm ungir menn þar nám. Námsárið var frá vori til vors og námstíminn tvö ár. Áhersla í námi var á notkun
hestaverkfæra við jarðræktarstörf og heyskap og komu nemendur jafnframt að smíði á verkfærum. Bókleg kennsla var í reikningi, efnafræði,
grasa- og jarðræktarfræði, hagfræði og teikningu, húsdýrafræði og eðlisfræði. /VH
Kýrnar á Daufá. Mynd / Guðrún Björg Egilsdóttir