Bændablaðið - 09.06.2022, Blaðsíða 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júní 2022
Dregið úr framleiðsluvilja
Þótt fæðuöryggi Íslendinga sé
líklega ekki ógnað alveg í bráð má
telja líklegt að dregið hafi mjög úr
framleiðsluvilja bænda í tilteknum
búgreinum, eins og Bændasamtök
Íslands (BÍ) hafa bent á.
Versnandi afkomuhorfur eru
til dæmis hjá kúabændum og
sauðfjárbændum þar sem afurðaverð
hefur ekki haldið í við verðhækkanir
á ýmsum liðum búrekstrarins.
Í flestum tilvikum eru
svína-, eggja fram leiðendur og
alifuglabændur algjörlega háðir
því að fá innflutta fóðrið þar
sem þessi dýr fá ekkert annað
fóður. Örfáar undantekningar
eru meðal svínabænda þar sem
heimafengið fóður er hluti af
fóðursamsetningunni. Bændur í
þessum búgreinum hljóta því að vera
mjög uggandi um framtíð sína – ef
einhver óvissa er um fóðurframboð
næstu mánaða.
Í tillögum matvælaráðherra til
fæðuöryggis Íslands, sem lagðar
voru fyrir ríkisstjórn fyrir skemmstu,
kemur fram að ein af undirstöðum
fæðuöryggis sé fjárhagsleg
afkoma bænda. Markvissa
flokkun landbúnaðarlands þurfi
til að auðvelda sveitarfélögum
ákvarðanatöku í skipulagsmálum,
jafnframt því að styrkja þurfi
undirstöður jarðræktar. Allt virðist
þetta vera knýjandi mál á þessum
ógnartímum.
Nautakjötsframleiðendur hættir
að setja gripi á
Unnsteinn Snorri Snorrason,
sérfræðingur hjá BÍ og staðgengill
framkvæmda stjóra, segir að þær
hækkanir sem nú þegar eru komnar
fram séu fordæmalausar. „Ef við
bara horfum á kostnaðarhækkun
á fóðri og áburði þá eru þetta að
lágmarki 6-7 milljarðar í hækkun
milli ára.“
Hann segir að bændur hafi í
gegnum tíðina orðið að taka á
sig verðhækkanir eða lækkun á
afurðaverði einfaldlega með því að
lækka sín laun eða jafnvel borga sér
engin laun. „Nú er hins vegar staðan
sú að bændur þurfa að taka ákvörðun
um að borga með framleiðslunni
með tekjum utan bús.
Það er ljóst að það hefur enginn
getu til þess til langs tíma. Enda
finnum við það í samtölum við okkar
bændur að nautakjötsframleiðendur
eru hættir að setja gripi á og
sauðfjárbændur munu draga
verulega saman í ásetningi í haust.
Það sama má segja um alifugla
og svínabændur. Þetta er alvarleg
staða því það tekur langan tíma að
ná framleiðslugetunni upp aftur.“
Framleiðslan flyst úr landi
Staða kjötframleiðenda er graf-
alvarleg, ekki síst í ljósi þess að
dregið hefur verulega úr tollvernd
á síðustu árum. „Innlenda fram-
leiðslan mun gefa eftir og við tekur
aukinn innflutningur á kjöti. Það
má ekki gleyma því að bændur
eru að framleiða afurðir sem fara
í frekari vinnslu hér á landi. Það er
gífurlegur fjöldi starfa í húfi upp
alla virðiskeðjuna. Ef það verður
samdráttur í kjötframleiðslu hér á
landi, sem nemur tugum prósenta,
þá erum við að sjá á eftir hundruðum
starfa sem flytjast úr landi.
Við erum líka að horfa til þess að
sú staða geti komið upp að ekki sé
til nægt fóður fyrir þá framleiðslu
sem er hér í gangi. Þar eru svína-
og alifuglabændur í mjög erfiðri
stöðu. Þær greinar eru þar að auki
sérstaklega viðkvæmar fyrir þessari
miklu hækkun fóðurverðs í ljósi þess
að fóðurkostnaður er hlutfallslega
hár kostnaður í þeirra framleiðslu,“
segir Unnsteinn Snorri.
Á föstudaginn skipaði Svandís
Svavarsdóttir matvæla ráðherra
starfs hóp sem mun vinna að
tillögum til að bregðast við
afkomuvanda bænda. Gert er ráð
fyrir að hópurinn skili tillögum
13. júní og í aðsendri grein í
blaðinu í dag gerir hún grein fyrir
ástæðum þess að vinna þurfi hratt.
Þróunin á aðfangaverðshækkunum
geti haft það í för með sér að
matvælaframleiðsla á Íslandi kunni
að dragast saman.
Það hafi hún áttað sig á eftir
samtöl við fjölda bænda, auk þess
sem þess sjáist merki, til að mynda
í fækkun nautgripa og fækkun
sauðfjárbænda.
Íslenskur byggakur. Í tillögum matvælaráðherra til fæðuöryggis Íslands, sem lagðar voru fyrir ríkisstjórn fyrir
skemmstu, kemur fram að ein af undirstöðum fæðuöryggis sé fjárhagsleg afkoma bænda. Markvissa flokkun
landbúnaðarlands þurfi til að auðvelda sveitarfélögum ákvarðanatöku í skipulagsmálum, jafnframt því að styrkja
þurfi undirstöður jarðræktar. Mynd / smh
Fóðurframleiðandinn Bústólpi á Akureyri. Mynd / AðsendHólmgeir Karlsson, fram kvæmda
stjóri Bústólpa. Mynd / Aðsend
Slæmt útlit er fyrir íslenska nautakjötsframleiðslu og eru bændur í mörgum
tilfellum hættir að setja gripi á. Mynd / smh
Unnsteinn Snorri Snorrason, sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands og
staðgengill framkvæmdastjóra. Hann segir að þær kostnaðarhækkanir sem
bændur hafi þurft að taka á sig séu fordæmalausar. Mynd / smh