Bændablaðið - 09.06.2022, Side 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júní 2022
Hörður Kristjánsson, fráfarandi
ritstjóri Bændablaðsins, hóf störf
hjá blaðinu á bóndadaginn 2011.
Í ritstjórnartíð Harðar hefur
Bændablaðið vaxið og dafnað og er
í dag eitt mest lesna blað landsins
sem áunnið hefur sér traust lesenda
og auglýsenda.
Að sögn Harðar hefur hann lagt
áherslu á að vera gagnrýninn á
heiðarlegan hátt og segja sannleikann
í skrifum sínum, en núna sé kominn
tími til að láta öðrum eftir starfið enda
sé hann að komast á virðulegan aldur.
Hörður fæddist á Engjavegi 3
á Ísafirði 8. júní 1955, daginn fyrir
afmælisdag móður sinnar, sem hét
Jóna Örnólfsdóttir en faðir hans
var Kristján J. M. Jónsson. Húsið
sem Hörður fæddist í var pínulítið
bárujárnsklætt timburhús, líklega
innan við 50 fermetrar.
„Þar bjó ég ásamt foreldrum
okkar og þremur eldri bræðrum,
Jóni Þorberg, Magnúsi og Indriða
Arnari ásamt systur minni, Þorgerði
Margréti. Þegar ég var fjögurra ára
gamall, eða 1959, var flutt í nokkuð
stærra húsnæði að Seljalandsvegi
54, sem er innar í hlíðinni ofan við
gamla Ísafjarðarkaupstað. Þremur
árum seinna bættist svo einn bróðir
enn í barnahópinn, Kristján Friðrik.“
Teiknikunnátta og sagnagerð
í blóð borin
Hörður segir að teiknikunnátta hafi
honum verið í blóð borin enda hafi
móðir hans verið mjög listfeng
þótt hún hafi fengið fá tækifæri til
listiðkunar vegna reksturs á stóru
heimili. Blaðamennska og sagnagerð
má líka að verulegum hluta rekja til
móðurættarinnar, þótt líka sé stutt í
slíkt í föðurfjölskyldunni.
Fræg eru rit langafa hans, Reinalds
Kristjánssonar landpósts fyrir vestan,
sem heita Á sjó og landi. Þar er meðal
annars hans lýsing af vettvangi
Skúlamálanna svokölluðu á Ísafirði
sem ollu miklum flokkadráttum.
Þakkar barnaskólakennara úr
Skáleyjum áhugann á ritlist
„Sem krakki man ég fyrst eftir mér
þriggja til fjögurra ára með blýant í
hönd og reyndi þá oft að herma eftir
Jóni, elsta bróður mínum, sem var
afskaplega góður teiknari.“
Ritfærni sína vill Hörður tileinka
gamalli og góðri kennslukonu í
Barnaskólanum á Ísafirði, Kristínu
Jóhannesdóttur frá Skáleyjum á
Breiðafirði. „Kristín var afskaplega
snjall og skilvirkur kennari. Til að
þjálfa málnotkun og textagerð í
íslensku lét hún okkur krakkana
reglulega gera ritgerðir, einu sinni
til tvisvar í viku. Ýmist lagði hún
efnisvalið fyrir eða krakkarnir
áttu að skrifa ritgerðir eftir eigin
höfði. Þarna byrjaði sú þjálfun í
samningu texta sem reynst hefur
mér afskaplega vel í gegnum tíðina.
Ég held að úr þessum eina
bekk hafi sprottið einir fimm
nemendur sem hafa komið að
blaðamennsku og ritstörfum með
einum eða öðrum hætti einhvern
tíma á ævinni. Það hjálpaði líka til
að í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði
var svipaður háttur hafður á í
íslenskukennslu fyrstu tvo bekkina.
Þar kenndi Finnur Torfi Hjörleifsson
um tíma af mikilli festu.
Þessir kennsluhættir gátu ekki
annað en kallað fram ritfærni
hjá þeim sem voru á annað borð
meðtækilegir fyrri slíku og fyrir það
er ég afskaplega þakklátur.“
Foreldrarnir dugnaðarforkar
„Það má sannarlega segja að
kröfurnar í þjóðfélaginu á sjötta og
sjöunda áratug síðustu aldar hafi ekki
verið sérlega miklar og kaupgetan til
húsnæðiskaupa heldur ekki mikil.
Til að drýgja tekjurnar voru foreldrar
mínir með nokkrar kindur, eins og
algengt var á Ísafirði á þeim árum,
og nokkrar hænur að auki. Þau voru
miklir dugnaðarforkar, enda þurfti
virkilega að hafa mikið fyrir lífinu
til að komast af.
Móðir mín, sá um heimilið og
öll bústörf sem til féllu. Hún var
húsmæðraskólagengin, listakokkur
og bakaði og prjónaði mikið
jafnframt því að sauma föt á
fjölskyldumeðlimi og jafnvel aðra
líka. Þessi kunnátta og listfengi
voru auðvitað mikils virði fyrir
fjölskylduna. Þegar eldri systkinin
fóru að fljúga úr hreiðrinu og við
yngstu synirnir vorum orðnir
stálpaðir, fór hún auk þess í fiskvinnu
til að auka tekjur heimilisins.
Faðir minn vann alla daga í vinnu
utan heimilis en sá um skepnuhald
og heyskap á kvöldin og um helgar.
Þegar ég fæddist starfaði hann hjá
Vegagerðinni. Þar tók hann að
sér að vera fyrsti jarðýtustjóri á
Vestfjörðum í júní 1946, þá 28 ára
gamall. Jarðýtan var af gerðinni
Allis Chalmers Model HD 10 með
vírahífingu á ýtutönn. Á þessu litla
verkfæri ruddi hann Óshlíðarveg á
árunum 1946-1950 og stóran hluta
af veginum um Súðavíkurhlíð og
víðar. Honum var nú ekki þakkað
meira fyrir sitt framlag en svo, að
þegar haldið var upp á 50 ára afmæli
Óshlíðarvegar, sem hann ruddi á litlu
ýtunni, var honum ekki einu sinni
boðið í hófið sem haldið var á Hótel
Ísafirði. Í boðinu voru margir af
hans fyrri félögum úr Vegagerðinni
til margra ára. Ég fann að honum
sárnaði þetta mjög.“
Börn lærðu snemma að vinna
„Það má segja að í hlíðinni hafi verið
hálfgerð sveitamenning samfara
lífinu í hinum mikla útgerðarbæ
Ísafirði. Krakkarnir tóku þátt í öllum
störfum eins og þurfti. Þar lærði
maður að vinna um leið og maður
var farinn að standa í lappirnar og
auk þess var afi með kýr og kindur
sem útheimtu líka okkar aðstoð eins
og annarra af hans afkomendum. Ég
og náfrændi minn, Gunnar Pétur
Pétursson, og jafnaldri vorum
auðvitað settir í heyskapinn eins og
aðrir þótt kornungir værum. Man ég
vel að hart var gengið eftir því að
við héldum okkur við efnið við að
rifja og raka strax frá fimm ára aldri.
Þetta hét að kenna fólki að vinna
og þótt okkur þætti það ekki alltaf
skemmtilegt held ég að það hafi ekki
gert okkur neitt illt.
Þegar maður eltist áttaði maður
sig þó fljótt á því að með því að
komast í fiskvinnu væri hægt að
komast á tímakaup sem var allt annar
hlutur. Tíu eða ellefu ára gamall fór
ég því að líta í kringum mig og faðir
eins vinar míns var með fiskvinnslu
sem mér þótti eftirsóknarvert að
komast í. Hann hét Þórður Júlíusson
og fór ég því á hans fund og sótti um
vinnu eins og fleiri jafnaldrar mínir
og var ráðinn í vinnslu á hörpudiski
sem veiddur var í Ísafjarðardjúpi.
Fljótlega fékk maður svo að fara og
taka þátt í útskipun á frosnum fiski
í flutningaskip.
Það leiddi mann svo áfram í vinnu
hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga þar sem
maður vann á sumrin og meðfram
námi í gagnfræðaskóla á vetrum.
Maður átti því fyrir flestum eigin
þörfum og þurfti ekki á vasapening
frá foreldrum að halda, enda ekki
mikið um slíkt að ræða.
LÍF&STARF
„Hef lagt mest upp úr að vera
gagnrýninn, heiðarlegur og
að segja fólki sannleikann“
– segir Hörður Kristjánsson, eftir að hafa starfað rúman áratug sem ritstjóri Bændablaðsins
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
Fráfarandi ritstjóri, Hörður Kristjánsson, ásamt eiginkonu sinni, Björk Guðlaugsdóttur, á góðri stund. Mynd / ghp
Engjavegur 3 á Ísafirði þar sem Hörður fæddist árið 1955. Bekkurinn hennar Kristínar Jóhannesdóttur, kennara í Barnaskólanum á Ísafirði, af árgangi
1955. Hörður Kristjánsson er í annarri röð lengst til vinstri.