Bændablaðið - 09.06.2022, Side 33

Bændablaðið - 09.06.2022, Side 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júní 2022 Eftir útskrift úr grunnskóla 1972, þar sem ég tók meðal annars pungapróf sem fylgdi réttur til að stjórna 35 tonna bát, var ég búinn að ákveða að fara í Myndlista- og handíðaskóa Íslands. Engin námslán voru í boði né fjárstyrkir af öðru tagi svo ég ákvað að taka mér árshlé frá skóla til að þéna fyrir námsdvöl í Reykjavík. Vann ég þá hjá Vegagerðinni um sumarið og veturinn eftir og fram á haust 1973. Þá um vorið fór ég í inntökupróf og var á meðal 20 sem náðu því prófi af um 120 sem það þreyttu. Það fór nú svo að fjárhagur leyfði ekki nema tveggja ára nám í skólanum og þá tók við byggingarvinna vestur á Ísafirði. Nýrnakvilli olli því svo að ég þoldi illa kulda og vosbúð, sem eðlilega fylgir stundum slíkri vinnu, svo ég greip tækifærið 1976 þegar snillingurinn Leo Jóhannsson, ljósmyndameistari á Ísafirði, óskaði eftir að fá nema á fjögurra ára samning. Var það nám í Iðnskólanum á Ísafirði, sem hluti af Tækniskólanum, tekið með vinnunni og kláraði ég sveinsprófið í Reykjavík. Eftir það ákvað ég að breyta örlítið til að nýju og fór í málningarvinnu í tvö ár á Ísafirði. Fékk síðan meistararéttindi í ljósmyndun 1982.“ Í málningarvinnu og myndasögumálun „Það var mjög skemmtilegur tími í málningarvinnunni og við tveir félagar í þeirri vinnu, sem báðir höfðum verið í Myndlista- og handíðaskólanum, fengum meðal annars það verkefni að myndskreyta stigahús í Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. í tilefni af 80 ára afmæli félagsins. Við máluðum fjölda verka þar sem við lýstum sögu félagsins í myndum upp allan stigaganginn. Sagan hefst á jarðhæð á myndum sem lýstu upphafinu 1912 og endar á þeirri fjórðu. Verkið tók nokkra mánuði og var afskaplega skemmtilegt að vinna í félagsskap með frábæru starfs- fólki Íshúsfélagsins.“ Ráðinn til Sjónvarpsins Haustið 1981 sá Hörður auglýsingu þar sem starf ljósmyndara í tæknideild Sjónvarpsins var auglýst laust til umsóknar. Hann sótti um og var ráðinn í ársbyrjun 1982 og flutti suður með konu og þrjú börn. „Við vorum þrír ljósmyndararnir sem unnum þar á „róterandi“ vöktum alla daga ársins. Einn var þá á fréttavakt og annar á vakt við filmuframköllun á meðan sá þriðji var í fríi. Það var mikið tekið af ljósmyndum fyrir fréttastofuna á þessum tíma og eins til notkunar við þáttagerð og kynningar. Í framköllunardeildinni sáum við um að framkalla allar slides-filmur sem tekið var á og allar 16 millimetra kvikmyndafilmurnar, líka fyrir kvikmyndagerðarfólk utan stofnunarinnar. Vídeó var þá nýlega byrjað að ryðja sér til rúms í kvikmyndatöku fyrir fréttastofuna. Samhliða þessum störfum var ég með stúdíó í auglýsingaljósmyndun úti í bæ og tók kynningarmyndir, meðal annars fyrir Íslensku óperuna.“ Fréttaritari og í dómnefnd Eurovision Hörður lét af störfum hjá Sjón- varpinu vorið 1985 í kjölfar vinnudeilna félaganna þriggja á ljósmyndadeildinni við yfirmenn Sjónvarpsins. Flutti hann þá með fjölskyldunni aftur til Ísafjarðar þar sem þau áttu íbúð og honum hafði boðist starf sem offsetljósmyndari í prentsmiðjunni Ísrúnu. Tengslum við sjónvarpið lauk þó ekki alveg þar sem hann tók að sér að vera fréttaritari á Ísafirði, auk þess að stýra dómnefnd vestra fyrir Eurovision. „Sinnti ég þessum hlutverkum í nokkur ár meðfram prentsmiðju- störfunum. Þá var Finnbogi Her manns son svo elskulegur að fá mig nokkrum sinnum til að aðstoða sig við hljóðupptökur á viðtölum fyrir Útvarpið þar sem hann var svæðisstjóri. Ég man að fréttir af slysum á þessum tíma þótti mér allra verst að sinna. Mörg skemmtileg verkefni fékk ég þó líka upp í hendurnar og stundum kom Ómar Ragnarsson fljúgandi vestur til að sækja mig þegar það vantaði tökumann í Ísflug við Hornstrandir, í stóðréttir fyrir norðan, eða eitthvað annað.“ Sogaðist hægt og rólega inn í blaðamennskuna „Á Ísafirði voru á þessum árum gefin út ýmis flokksblöð og héraðsfréttablöð. Þar sem ég átti tiltölulega auðvelt með að semja texta kom það oft fyrir að ég var fenginn til að redda málum þegar klára þurfti blöð fyrir prentun. Þetta ágerðist og smám saman fór blaðamennskan að verða stærri hluti af mínum störfum. Þar má helst nefna blöð eins og Vestfirska fréttablaðið, Forsíðuna og Vestra, auk nokkurra annarra blaða sem ég hjálpaði til að vinna. Reyndar má segja að fyrsta blaðið sem ég tók þátt í að skrifa, myndskreyta og ritstýra hafi verið skólablaðið Þróun í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Það var gefið út m.a. til að fjármagna skólaferðalag vorið 1972. Undir lok tíunda áratugarins var blaðaútgáfu og prentsmiðjustarfsemi farið mjög að hnigna á Ísafirði og hafði ég þá verið að senda DV fréttir annað slagið. Varð úr að ég sótti þar um starf hjá Óla Birni Kárasyni, núverandi alþingismanni, og flutti suður á ný með hluta af fjölskyldunni, sem var orðin einum dreng ríkari og einum sonarsyni, þann 17. júní árið 1999. Þá hafði ég eignast fjóra syni með fyrri konunni minni, Fríðu K. Albertsdóttur, en þeir heita Haukur Már, Jón Albert, Hörður Páll og Auðunn Birgir. Hörður Páll hafði þá eignast soninn Róbert Snæ með Ingibjörgu Hákonardóttur. Á DV lágu fljótlega saman leiðir okkar Vilmundar Hansen, núverandi blaðamanns á Bændablaðinu. DV lifði til ársloka 2003 og eftir lausamennsku í einn mánuð eða svo var ég ráðinn til Viðskiptablaðsins. Þar starfaði ég líka eitthvað við afleysingar hjá Fiskifréttum með snillingunum Guðjóni Einarssyni og Kjartani Stefánssyni. Rekstur Viðskiptablaðsins komst í þrot og var strax endurreistur þar sem ég fékk áfram starf og í gegnum allt þetta ferli fylgdumst við Vilmundur að.“ Hóf störf á Bændablaðinu á bóndadaginn 2011 „Undir árslok 2010 benti góður vinur minn, Rögnvaldur Bjarnason, mér á að verið væri að auglýsa eftir ritstjóra hjá Bændablaðinu. Í fyrstu taldi ég mig ekki hafa mikið í það starf að gera, en að áeggjan vina og núverandi eiginkonu, Bjarkar Guðlaugsdóttur, lét ég til leiðast að sækja um. Eftir að hafa farið í gegnum samtöl við Tjörva Bjarnason sviðsstjóra og Eirík Blöndal framkvæmdastjóra, afréðu þeir að ráða mig í þetta starf úr hópi 27 umsækjenda. Ég sagði því upp á Viðskiptablaðinu, að mig minnir á Þorláksmessu 2010, og fékk mig fljótt lausan. Byrjaði ég að skrifa fyrir Bændablaðið strax í fyrsta blað ársins 2011, þótt mér þætti betur við hæfi að hefja ekki formlega störf fyrr en föstudaginn 25. janúar, sem var sjálfur bóndadagurinn. Ég tók ráðningunni mjög alvarlega og var staðfastur í að gera allt sem ég gæti til að auka veg Bændablaðsins og virðingu. Það leið samt ekki á löngu þar til ég óskaði eftir liðsinni Vilmundar við það verkefni. Það kostaði auðvitað fórnir ef maður ætlaði að gera þetta vel og maður var í vinnunni alla daga ársins, líka í sumarfríum og á ferðalögum erlendis. Flest annað en vinnan var einfaldlega látið sitja á hakanum. Ef eiginkonan væri ekki svona skilningsrík hefði þetta aldrei gengið upp. Það vildi til að hún er fædd og uppalin í sveitinni í Eyjafirði og hafði því ekkert síður en ég gaman af að heimsækja bændur á þvælingi okkar um landið og í útlöndum. Síðan hefur tíminn verið afskap- lega fljótur að líða í krefjandi og áhugaverðri vinnu með skemmtilegu fólki hjá Bændasamtökum Íslands.“ Að vera gagnrýninn, heiðarlegur og segja fólki sannleikann „Það sem ég hef lagt mest upp úr hjá Bændablaðinu er að beita gagnrýnni hugsun á öll viðfangsefni og umfram allt að vera heiðarlegur og segja fólki sannleikann með mínum skrifum og efnistökum blaðsins. Ég hef forðast að elta skrif annarra fjölmiðla og upplýsa frekar um áhugaverða hluti sem aðrir leggja sig ekki eftir, eða nenna ekki að sinna. Ég held að þetta sé lykillinn að velgengni Bændablaðsins undanfarin ár. Slíkt gerist þó ekki nema að allt starfsfólkið rói í sömu átt.“ Hörður segir að flest fólk kunni að meta það ef maður kemur fram af hreinskilni og segir einfaldlega sannleikann. Maður eigi aldrei að láta aðra stýra ferðinni, hversu auðugir sem þeir eru, eða hátt þeir þykjast settir í þjóðfélaginu. „Eins og gengur þykir ekki alltaf gott að segja suma hluti opinberlega þótt sannir séu. Það hefur stundum orðið til þess að ýmsum hefur þótt á sínar tær troðið. Ég hef þá notið þess að sviðsstjóri og yfirstjórn Bændasamtakanna hafa alltaf staðið þétt við bakið á mér og fyrir það er ég afar þakklátur.“ Bestu óskir „Ég vil svo að lokum óska Bændablaðinu velfarnaðar og samstarfsfólki mínu þar, Guðrúnu Huldu Pálsdóttur, nýjum ritstjóra, Vilmundi Hansen, Sigrúnu Péturs- dóttur, Sigurði Má Harðarsyni, Margréti Þóru Þórsdóttur, Þórdísi Unu Gunnarsdóttur auglýsingastjóra og öllum öðrum sem tengjast starfseminni beint í dag, eins og Gylfa Þór Orrasyni fjármálastjóra, Sigríði Þorkelsdóttur og Jóhönnu Lúðvíksdóttur. Einnig fjölmörgum verktökum sem hafa komið að útgáfunni á Íslandi og erlendis á þessum rúma áratug. Þá þakka ég Bændasamtökum Íslands fyrir að hafa sýnt mér það traust að stýra þessum miðli og óska Gunnari Þorgeirssyni formanni og Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra, stjórn og starfsmönnum velfarnaðar í þeirra flóknu störfum. Það hefur verið einstaklega gaman og lærdómsríkt og mikill heiður að fá að kynnast öllu því góða fólki sem þar hefur starfað á þessum árum. Það á ekki síður við starfsmenn sem nú tilheyra Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Nautastöð BÍ og annarra tengdra stofnana landbúnaðarins. Einnig þess góða fólks sem fluttist með Búnaðarstofu yfir í núverandi matvælaráðuneyti. Af öðrum ólöstuðum vil ég sérstaklega nefna dr. Ólaf Rúnar Dýrmundsson og Sigurð Kristjánsson, sem reynst hafa mér og Bændablaðinu ómetanlegar hjálparhellur. Þá vona ég að bændum og búaliði í öllum búgreinum vegni sem allra best á komandi árum. Þjóðin væri virkilega í vondum málum ef ykkar nyti ekki við og þakka ég kærlega fyrir frábært samstarf. Án ykkar góðu vinnu væri tilgangur Bændablaðsins líka harla lítill,“ sagði Hörður Kristjánsson að lokum. Sárt saknað Starfsmenn Bændablaðsins þakka Herði samvinnuna á liðum árum. Annað eins ljúfmenni og dugnaðar- forkur er fátíður fugl. Það mun taka tíma að venjast því að hitta hann ekki reglulega og bjóða góðan daginn, eftir öll þessi góðu ár sem við höfum unnið saman. Takk fyrir mig Hörður. Síðasta tölublað Bændablaðsins farið í prentun 24. maí 2022 og starfsmannahópurinn á ritstjórninni undir stjórn Harðar. Sigurður Már Harðarson blaðamaður, Þórdís Una Gunnarsdóttir auglýsingastjóri, Sigrún Pétursdóttir blaðamaður, Guðrún Hulda Pálsdóttir, blaðamaður og verðandi ritstjóri, Vilmundur Hansen blaðamaður og Hörður Kristjánsson ritstjóri. Mynd / Erla Hjördís Gunnarsdóttir Með síðasta Bændablað sitt úr prentun hjá Landsprenti, talið frá vinstri: Guðbrandur Magnússon, framkvæmdastjóri Landsprents, Gylfi Geir Guðjónsson prentari, Hörður Kristjánsson ritstjóri og Stefán Stefánsson prentari. Mynd / Guðmundur Gíslason Fyrsta frétt Harðar á forsíðu fyrsta tölublaðs Bændablaðsins 2011 og forsíða síðasta tölublaðsins í hans stjórn 24. maí 2022.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.