Hugur og hönd - 2021, Blaðsíða 16
16 HUGUR OG HÖND2021
VINNAN VIÐ VERKIÐ —
HIN MÖRGU SPOR
Vinnan við endurgerð kápunnar fór
fram á heimili Ólínu. Um hana segir
hún: „Ég vann 5 vikudaga, en setti mér
áfanga og reyndi að halda þeim — það
er eina leiðin, held ég.“ Vinnuna varð að
skipuleggja vel og hugsa fram í tímann
með hvert skref, enda lítið svigrúm fyrir
mistök, þar sem „[ekki yrði] auðvelt
að rekja upp; stundum er verið að tala
um 3-4 lög af efni og hvert lag er sér
saumað“.
Athyglisvert er að sjá hvernig hinar
útsaumuðu manna- og dýramyndir eru
saumaðar hver fyrir sig, en síðan festar á
útsaumaðan bakgrunn eftir á (myndir 4a
og 4b). Þessu er lýst í skrifum Matthíasar
Þórðarsonar, fyrsta þjóðminjavarðar
Íslendinga, um upprunalegu kápuna:
„Þar sem engla og dýrlingamyndir
og þeirra einkunnir [einkennis-
merki, innsk. greinarhöf.] eru
á útsaumnum eru þær saumaðar
á sérstaka áfestinga og striga,
og áfestingarnir saumaðir síðan
ofan á.“ Matthías varpar auk þess
ljósi á ástæðu þessarar tækni:
„Við þetta koma myndirnar betur
fram, verða eðlilegri og myndast
meiri dýpt í þær.“5
Útsaumurinn á kápunni er gull- og
blómstursaumur. Saumað er með gylltu
á bakgrunn og í útlínum, en marglitur
blómstursaumur er á manna- og
dýramyndum, á hlutum og á gólfum.
„Mér fannst saumurinn breytilegur og
ekkert var endurtekið, nema auðvitað
bakgrunnurinn,“ segir Ólína.
Hálfnuð með verkið var Ólína farin að
átta sig á því hvað hún var með í hönd-
unum og „nú var ég farin að vera með
áhyggjur: Hvað ef verður brotist inn?
Eða eldsvoði eða einhver hellir te, kaffi,
eða bjór yfir verkið? Er húsatrygging
nægileg?“ Því var ákveðið að David
Gazeley hjá Watts & Co. fengi myndirnar
jafnóðum og þær voru fullunnar, til
varðveislu í vel tryggðum húsakynnum
fyrirtækisins. „Einhverju yrði því bjargað,
skyldi óhappið henda hjá mér.“
Það gefur nokkra vísbendingu um um-
fang verksins að heyra að Ólína vann að
því um þriggja og hálfs árs skeið, og sat
við sauma í alls 1947 klukkustundir. Er þá
ótalinn allur sá tími sem fór í undirbúning
af ýmsu tagi, svo sem ferðir, símtöl og
fleira tengt verkefninu.
HEIM AÐ HÓLUM
Samansaumur og frágangur kantara-
kápunnar var unninn af sérfræðingum
Watts & Co.. Þar var hún sömuleiðis
geymd fullgerð þar til Margrét og séra
Jón Aðalsteinn tóku við henni og fluttu
hana með sér yfir hafið með flugi og alla
leið heim að Hólum.
B. Um kirkjuútsaum
Kirkjuútsaumur (ecclesiastical em-
broidery) er samheiti yfir flókinn og
margþættan útsaum frá miðöldum,
sem eftirsóttur var til skreytinga á
textílgripum kirkjunnar. Útsauminn
prýddu gjarnan ýmsar helgi- og
dýrlingamyndir.
Saumað var í hörundirlag eða
flauel með gull-, silfur- og
silkiþræði og notuð gullsaums- og
blómstursaumstækni. Ásaumaðar
perlur og gimsteinar tíðkuðust til
áhersluauka.
Kirkjuútsaumur var stundaður víða
um Evrópu. Sérlega nafntogaður
er enskur kirkjuútsaumur, einkum
frá blómaskeiði sínu á 13. öld fram
á fyrsta skeið 14. aldar (Opus
Anglicanum). Aðrir staðir unnu
síðar á hvað útsaum af þessum
toga varðaði, og má þar nefna
Flæmingjaland á 15. öld.
Samfara breyttum trúarlegum
áherslum við siðaskiptin varð mikill
hluti útsaumsgripanna eyðilegg-
ingu að bráð. Oft var þá reynt að
endurvinna málma í ísaumsþráðum
og ýmsa skrautsteina.
Myndir 4a og 4b: Bakskjöldur endurgerðarinnar á vinnslustigi.
Ljósmyndir: Simon Vaughan.
5Matthías Þórðarson, 1911, bls. 45