Hugur og hönd - 2021, Blaðsíða 27
27HUGUR OG HÖND 2021
Á Akureyri býr Margrét Vera Benedikts-
dóttir og hún kann að spinna. Margrét er
með litla vinnustofu í kjallaranum heima
hjá sér þar sem hún litar ull og spinnur
skrautlegt ævintýraband. Hún hefur
spunnið í tíu ár og er sjálfmenntuð.
„Ég hef alltaf haft gaman af handavinnu,“
segir Margrét. „Móðuramma mín kenndi
mér að prjóna og hekla. Í handavinnu
í grunnskólanum var ég nemandinn
sem kláraði vetrarverkefnin á mánuði
og endaði eitt skólaárið á því að sauma
harðangur og klaustur og fannst það
alltof tímafrekt. Á tímabili heklaði ég
utan um allt á heimilinu og eitt árið
fengu allir sokka frá mér í jólagjöf. Það
er bara svo hræðilega leiðinlegt að gera
það sama aftur og aftur þannig að það
voru engir tveir sokkar eins!“
HALASNÆLDA Í KRUKKU
Margrét Vera er útskrifuð af myndlistar-
kjörsviði listnámsbrautar Verkmennta-
skólans á Akureyri en tók líka áfanga á
textílkjörsviði skólans í vefnaði. En hvernig
stóð þá á því að hún fór að spinna band?
„Föðuramma mín gaf mér gamla
halasnældu sem ég notaði bara sem
skraut,“ segir Margrét og bætir við að hún
hafi einhvern tímann ákveðið að finna
út úr því hvernig halasnælda virkar. Hún
byrjaði á gulri ullarkembu sem átti líklega
að þæfa úr. „Úr þessu varð eitthvað alveg
hræðilegt en mér tókst samt að prjóna
eyrnaband,“ segir Margrét og hlær.
Þarna kviknaði áhuginn og Margrét
segist hafa farið að viða að sér bókum
og blöðum um spuna, aðallega á ensku,
og horfa á myndbönd um sama efni.
Hún segist hafa áttað sig fljótt á því að
ekki er ein leið sú rétta í spunanum.
Vinnubrögð í spuna séu misjöfn eftir lönd-
um og menningarsvæðum. Hún segist
hafa sogað þetta í sig eins og svampur
og prófað sig áfram. „Allt í einu fann ég
að ég var komin á réttan stað, búin að
finna mitt svið til að vinna með,“ segir
hún. „Þetta gerðist eiginlega alveg óvart,
bara vegna þess að ég átti þessa gömlu
snældu sem skraut í krukku í stofunni.“
HIÐ ÓHEFÐBUNDNA
MEIRA SPENNANDI
Margrét segist strax hafa orðið mun
spenntari fyrir því óhefðbundna í spun-
anum. Að gera eitthvað nýtt. „Í byrjun var
ég alls ekki að hugsa um að vanda mig
við að hafa bandið jafnt eða praktískt.
Það var algjört aukaatriði, en fyrir vikið
var ómögulegt að prjóna sokka eða
nokkurn skapaðan hlut úr garninu mínu.
En svo þróaðist þetta.“
Margrét spinnur bæði á halasnældur og
rokk og nýlega fékk hún sér rafmagns-
rokk. Hún segist vera veik fyrir tækjum
og á gott safn af snældum frá öllum
heimshornum. „Það er einfaldara að
vinna óhefðbundið, gróft og groddalegt
band á rokkinn þannig að ég nota hann
meira en snælduna. Líka þegar ég er
að gera það sem ég kalla kuðunga eða
spírala. Þessa hluti er erfiðara að vinna
á snældu en rokk. Á snælduna spinn ég
fíngerðara band og þarf að beita mig
hörðu að spinna gróft ef ég ætla að nota
hana. Þetta kemur í tímabilum en
stundum er ég alltaf með snælduna“.
Eins og áður sagði er Margrét Vera sjálf-
menntuð í spuna en hún hefur einnig
sótt námskeið í óhefðbundnum spuna
hjá Jacy Boggs og Esther Rodgers sem
báðar hafa komið hingað til lands á veg-
um Maju Siska og Spunasystra. „Það er
gaman að hitta aðra sem eru að spinna
og sjá hvernig þeir hugsa,“ segir hún.
ÞÆGILEGA ELDHÚSLEGT!
Margrét Vera vinnur ekki aðeins úr
íslenskri ull heldur kaupir ullarkembu
og lokka erlendis frá af ýmsum dýrateg-
undum sem gefa ull. Hún spinnur líka
úr silki og náttúrutrefjum á borð við hör
og þá má ekki gleyma textílglimmerinu.
Hún fær erlendu ullina mestalla litaða,
en íslensku ullarkembuna kaupir hún
ólitaða frá Ístex og litar sjálf. „Ég nota
matarlit og edik eða ediksýru,“ segir
Margrét aðspurð um litunina og segir
hana „þægilega eldhúslegt“ verkefni sem
ekki krefjist mikillar nákvæmni. „Mismun-
andi gerðir af matarlit skila mismunandi
útkomu. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki
sökkt mér meira niður í litunina er sú að
ég hef miklu meiri áhuga á spunanum.
Ég reyni að ná dýptinni í litina með því að
blanda saman mismunandi trefjum. Ull,
silki, hör og glimmer, en íslenska ullin er
nær alltaf uppistaðan í bandinu hjá mér.
Hana lita ég sem fyrr segir með matar-
litum og gefur það mattan grunn til að
byggja á. Ég er frekar glysgjörn og mér
finnst glimmerið og silkið njóta sín best
á þessum matta grunni, andstæðurnar
bæta hvor aðra upp í þessu eins og svo
mörgu öðru. Stundum kembi ég svo
alls ekkert saman, tek bara handfylli af
hinu og þessu og spinn bara hvert á
eftir öðru,“ segir Margrét og bætir við að
einu mælingarnar sem hún geri séu af
nauðsyn, en hún mælir lengd og þyngd
á hespunum og setur á þær upplýsingar
um prjónastærð.
ENGAR TVÆR HESPUR EINS
Útkomuna segir Margrét Vera fara eftir
því í hvernig skapi hún er hverju sinni,
hvaða árstíð er þegar hún spinnur og svo
framvegis. Yfirleitt spinni hún ekki nema
eina hespu af hverju. „Fólki finnst þetta
oft erfitt ef það langar að kaupa hjá mér
garn í heila flík. En þá segi ég að best sé
að fara út í búð, kaupa lopa eða eitthvað
venjulegt garn sem tóni vel við. Þannig
nýtur bandið mitt sín best. Ég segi stund-
um við þá sem sjá mig gera eitthvað
svona alveg galið, að ég geti leyft mér
að gera hluti sem eru ópraktískir og sem
ekki var hægt að gera í gamla daga því
þá þurfti að búa til eitthvað brúklegt og
nýta tímann og efnið vel. Í dag er hægt
að leyfa sér að gera bandhespu sem
kannski mun alla tíð bara sitja í einhverri
skál eða hanga uppi á vegg.“
Heimasíða Margrétar Veru:
www.verayarn.com
AF ÞVÍ AÐ ÉG ÁTTI ÞESSA GÖMLU HALASNÆLDU Í KRUKKU Í STOFUNNI
VIÐTAL VIÐ MARGRÉTI VERU BENEDIKTSDÓTTUR