Sjómannablaðið Víkingur

Ukioqatigiit

Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2008, Qupperneq 44

Sjómannablaðið Víkingur - 01.04.2008, Qupperneq 44
44 - Sjóm­annablaðið Víkingur­ Gámaskipið Mette Mærsk siglir undir traustri stjórn íslensks skipstjóra út úr skipasmíðastöðinni í Óðinsvéum. Nýtt skip Það er ekki oft sem ég fjalla um afhendingar á nýsmíðuðum skipum á þessum síðum. Hér kemur þó frásögn af einni slíkri. Það þykir nú vart til mikilla tíðinda að hið stóra skipafélag A.P. Möller í Danmörku fái afhent nýsmíðað skip því slíkt er að ger- ast svo til í hverjum mánuði allt árið um kring. Mér þótti þó við hæfi að segja ykkur lesendum frá því að í byrjun október s.l. fékk skipafélagið afhent 7000 TEU gámaskip frá Lindö skipasmíðastöðinni í Danmörku. Skipið sem er af gerðinni L 214, var skírt af frú Yumiko Arakawa sem er eiginkona stjórn- arformanns Bridgestone samsteypunnar, og fékk það nafnið Mette Mærsk. Það er þó öllu merkilegra að skipstjóri þessa nýja skips er íslenskur. Hann heitir Davíð Guðmundsson og hefur starfað á dönskum skipum allt frá því hann lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1977. Í þætti á DR1 sjónvarpsrásinni í Danmörku var svo viðtal við þennan stolta Íslending þar sem hann sagði fréttamanni frá nýja skipinu sem flokkast undir svokallað „grænt skip.“ Óskum við Davíð til hamingju með skipið. Davíð Guðmundsson skipstjóri lengst til vinstri ásamt útgerðarmanninum Eivind Koldin, guðmóður skipsins Yumiko Arakawa, forstjóra skipasmíða­ stöðvarinnar Finn Buus Nielsen og yfirvélstjóranum Harald Aastrup eftir nafngjöfina. Eins manns brú Góð vísa er víst aldrei of oft kveðin. Það virðist iðulega sem skipstjórnarmenn gleymi því að samkvæmt alþjóðasiglinga- reglum á ekki að vera einn maður á stjórnpalli á siglingu skips og allra síst að nóttu til. Nýlega dæmdi dómstóll í Southampton íslenska útgerð í sekt fyrir að hafa brotið siglingareglur, ISM öryggisstjórnunarkerfi og reglur um farmflutninga. Um var að ræða strandflutningaskipið Sunnu sem var í eigu NES skipa- félagsins í Hafnarfirði en skipið strandaði kl 04:40 að morgni 10. janúar 2007 á vesturströnd Swona á Orkneyjum. Sunna var lestuð 1900 tonnum af járngrýti frá Grundartanga og varð skipið fyrir umtalsverðum skemmdum við strandið. Náðist það á flot á háflóði daginn eftir með aðstoð dráttarbáts og björg- unarskips en Sunna var síðan dregin til hafnar í Lyness. Við rannsókn á málinu kom í ljós að stýrimaður var einn í brúnni við strandið en um borð voru aðeins sjö skipverjar. Skipstjórinn hafði gefið þau fyrirmæli að hásetar gengju ekki vaktir í brú heldur ynnu aðeins í dagvinnu á siglingu skipsins. Þremur mánuðum áður hafði skipstjórinn verið aðvaraður eftir hafn- arríkisskoðun (Port State Control) að samkvæmt STCW sam- þykktinni væri þess krafist að útvörður væri á stjórnpalli ásamt stýrimanni meðan skuggsýnt væri eða myrkur. Skipstjórinn var ákærður og sakfelldur fyrir dómstóli í Kirkwall og hlaut sekt upp á 2500 pund fyrir að hafa ekki mann á vakt með stýri- manni. Réttarkerfið lét þó ekki þar við sitja og í september s.l. var útgerðin dæmd til að greiða 10.500 pund auk 5.987 punda til viðbótar fyrir þessi þrjú brot. Því er við að bæta að útgerðin lýsti yfir sekt sinni fyrir dóm- stólnum. Jæja, félagar, nú er að hafa í huga að ef þið ætlið að spara gjaldeyrir og virða lög þá hafið háseta með ykkur á vakt að næturlagi. Kreppan skellur á Það er skammt stórra högga á milli en í síðasta blaði sagði ég frá metnaðarfullum áformum Evergreen skipafélagsins um upp- byggingu skipaflota síns. Nú hafa þeir tilkynnt að hætt sé við áform um smíði skipagerðar sem átti að geta flutt 12.400 TEU. Fleiri fregnir af samdrætti í þessum geira flæða yfir nánast á hverjum degi. Stöðugt fleiri útgerðir hætta við nýsmíðar enda fjármagn ekki eins aðgengilegt og áður var. Gríðarlegt áfall varð fyrir starfsmenn rúmenskrar skipasmíðastöðvar í eigu Daewoo samsteypunnar þegar smíði 8 4.250 TEU gámasysturskipa var slegin út af borðinu. !!! Nýjustu fréttir !!! Þær gleðilegu fréttir bárust rétt áður en Víkingur fór í prent- un að Kristo Laptalo hefði verið sýknaður af áfrýjunardómstól í Grikklandi þann 27. nóvember s.l. og losnaði hann samdægurs úr 17 mánaða fangelsisvist. Það tók fimm manna dómstólinn ekki nema tuttugu mínútur að komast að þessari niðurstöðu en þá höfðu vitnaleiðslur staðið aðeins yfir í dagpart. Meðal þeirra sem báru vitni var aðalritari IFSMA, Rodger MacDonald, sem sagði algjörlega útilokað að skipstjóri gæti vitað hvað væri falið í farmi skips hans. Fagna því öll hagsmunasamtök skipstjóra um heim allan, sem og allir skipstjórar, þessari niðurstöðu. Erfiðleikar skipstjóra Í framhaldi af máli Kristo Laptalo er rétt að láta þess getið hér að um þessar mundir munu, samkvæmt upplýsingum frá IFSMA, rúmlega 30 skipstjórar vera í fangelsum vítt og breytt um heiminn vegna starfa sinna. Af þessu hafa samtök skip- stjórnarmanna vaxandi áhyggjur þar sem ekki lengur þarf að finna hinn eina sanna sökudólg heldur er skipstjórinn sá sem lögreglan tekur fastan til að tryggja örugga réttarmeðferð og skaðabætur. En orð varaformanns sjómannafélaga Króatíu, sem hann viðhafði að dóminum í Grikklandi gengnum, læt ég fylgja hér með sem aðvörun til íslenskra skipstjórnarmanna: „Herramenn, farið varlega í að fara til Grikklands þar sem þið getið átt á hættu að fá 10 til lífstíðar fangelsi hvort heldur sem þið eruð sekir eða saklausir!“ Hilmar Snorrason skipstjóri Utan úr heimi

x

Sjómannablaðið Víkingur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.