Morgunblaðið - 26.08.2022, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 26.08.2022, Blaðsíða 17
MINNINGAR 17 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. ÁGÚST 2022 ✝ Eiríkur Ómar Guðmundsson fæddist í Bolung- arvík 28. septem- ber 1969. Hann lést í Reykjavík 8. ágúst 2022. Foreldrar hans eru Guðfinna E. Benjamínsdóttir og Guðmundur P. Sigmundsson, en hann lést 25. ágúst 2006. Bræður Eiríks eru Kristján og Sigmundur. Sonur Eiríks er Kolbeinn Orfeus, fæddur 19. mars 2004. Barnsmóðir Eiríks og fyrrver- andi sambýliskona er Margrét Kristín Blöndal og stjúpdóttir umsjón með Víðsjá og Lestinni þar sem hann fjallaði um menningarmál af ýmsum toga. Fyrsta skáldsaga Eiríks, 39 þrep á leið til glötunar, kom út árið 2004. Síðan sendi hann frá sér fleiri bækur; Undir himninum 2006, Sýrópsmánann 2010, 1983, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaun- anna 2013, og ljóðabókina Blindur hestur, sem kom út 2015. Síðasta skáldsaga Eiríks, Ritgerð mín um sársaukann, kom út árið 2018. Árið 2008 kom út bók Eiríks um skáldskap Steinars Sig- urjónssonar, Nóttin samin í svefni og vöku, en Eiríkur rit- stýrði endurútgáfu heild- arverka Steinars þetta sama ár. Þá skrifaði Eiríkur fjölda ritdóma, tímaritsgreina og út- varpspistla um bókmenntir, menningu og samfélag. Útför Eiríks verður frá Hallgrímskirkju í dag, 26. ágúst 2022, klukkan 13. Vaka Blöndal. Systir hennar er Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir. Eftir grunnskólanám í Bolungarvík fór Eiríkur til náms í Menntaskólanum við Sund og út- skrifaðist þaðan vorið 1988. Hann lauk BA-prófi í al- mennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og MA-prófi í íslenskum bók- menntum frá sama skóla 1995. Eiríkur starfaði við dagskrár- gerð á sviði menningar hjá Rás 1 Ríkisútvarpsins frá árinu 1997 og hafði lengst af Nú heyrum við ekki framar lagið „Kirkjan ómar öll“ spilað á píanóið klukkan 18 á aðfangadag eins og Eiríkur Ómar gerði svo fallega áður en sest var og borð- aður jólamatur. Hjartað mitt er fullt af sorg. Augun full af tárum. Hvað gerð- ist? Ég veit það ekki vel. Minningarnar sækja á, „Minn- ingarnar vakna, nálgast nótt“ eins og Alfreð Clausen söng svo fallega. Ég minnist margs. Við áttum margt sameiginlegt, tónlist og bækur sem við lásum. Við töluðum mikið saman. Við töluðum um RÚV sem við elsk- uðum. Raddirnar þar flottar. Ég minnist setningarinnar „má ég koma með“ sem ómar í hjarta mér. Við hittumst nokkrar mömmur í Bolungarvík heima hjá einni; tilefnið að heilsa sumri eða fagna vertíðarlokum þar sem við rauluðum nokkur lög. Og hann fimm ára sat úti í horni, hlustaði og raulaði með. Eitthvað síaðist inn. Svo var þetta endurtekið heima á Höfð- astíg, sett í kassettutækið og spil- að meðan það entist. Ég minnist ferðar til Akureyr- ar. Langidalurinn of langur og þá fannst okkur tilvalið að fara að kveðast á. Máttum þó ekki hafa of hátt því bílstjórinn þurfti að fylgjast með hljóðinu í bílnum. Á leið á Þingvöll. Alltaf tónlist í tækinu. „Hvað er þetta? ég hef ekki heyrt það áður?“ Og ég svar- aði: „Þetta er hann Sigurður að syngja „Nú stendur mikið til“.“ Og ekki að spyrja að því, hann fékk þetta í jólagjöf á næstu jól- um. Ég vil trúa því að við eigum eftir að hittast. Kannski Elvis vinur okkar verði með í för. Ég sakna þín. Ég elska þig Eiríkur Ómar. Mamma. Elsku Eiríkur, ég veit ekki hvort ég hef sagt þér frá því þeg- ar við Kristján, stóri bróðir þinn, hittumst í fyrsta skiptið. Við hitt- umst í Þjóðleikhúskjallaranum og sátum allt kvöldið og ræddum fjölskylduhagi okkar, sem er eitt mitt helsta áhugamál, reyndar. Við sögðum hvort öðru frá því að við ættum börn úr fyrri sam- böndum, ég tvo stráka og hann tvær stelpur. En svo sagðist Kristján líka eiginlega eiga stór- an strák á aldur við eldri son minn, hann héti Eiríkur. Hann væri samt ekki sonur sinn, heldur litli bróðir. Kristján var svo ánægður og stoltur af þessum litla bróður sínum, þetta var 1988 og þá varst þú 18 ára að útskrif- ast stúdent úr MS, sem þú klár- aðir auðvitað á undan jafnöldrum þínum með bravúr. Okkar samband var ætíð gott og ánægjulegt eftir að ég kom inn í fjölskylduna og vil ég þá rifja upp nokkrar góðar stundir sem við áttum saman með fjölskyld- unni, t.d. á Þingvöllum, þú með tösku fulla af bókum í farteskinu, fyrir norðan á Grund, líka með bókatösku, og á Melamótunum, þar sem þú settist ávallt við píanó ef þú gast, en sérstaklega er mér í fersku minni ferð okkar í vor í Hörpuna. Við fórum saman, þú, Kristján og ég, til að hlusta á þann mikla meistara Rufus Wa- inwright. Við ákváðum að borða saman á Horninu á undan og löbbuðum svo yfir í Hörpu. Þetta kvöld var svo ánægjulegt og skemmtilegt að því vil ég halda í minningunni um þig. Elsku mágur minn Eiríkur, vonandi ertu búinn að hitta afa, ömmu, pabba þinn, bræður mína og pabba minn, sem alltaf var miður sín þegar þú fórst í frí úr Víðsjánni. Guð verndi þig og blessi. Helga. Allt frá þeim dimma degi sem ég frétti að minn góði vinur Ei- ríkur Guðmundsson væri fallinn frá hef ég átt erfitt með að ná ut- an um þann veruleika. Fanga þá staðreynd að ég mun aldrei aftur heyra hláturinn, sjá brosið og hlusta á röddina sem sagði það sem þurfti að segja og gat fyrir- hafnarlaust lyft manni yfir hvers- daginn. En það er ekki að undra að ég nái ekki utan um fráfall Eiríks. Hann var engum líkur og bjó yfir gáfum og mannkostum jafnt sem manneskja og vinur. Það hafa verið forréttindi að eiga slíkan vin og fá hann inn í líf sitt á öðru ári í menntaskóla þar sem ég kynntist þessum greinda og vel gerða dreng sem bjó yfir gáskafullum húmor, hlýju og um- hyggju sem birtust alltaf í lág- stemmdu og ljúfu yfirbragðinu. Þegar við Eiríkur hófum svo báðir nám í bókmenntafræði við HÍ, haustið eftir stúdentspróf, naut ég þeirra forréttinda að verða vitni að einstökum náms- hæfileikum hans og sköpunar- krafti, sem hann umgekkst þó alltaf sjálfur af hógværð og lítil- læti. Því þrátt fyrir alla hæfileik- ana var Eiríkur, fyrir mér, alltaf eilítið feiminn drengur að vestan með alla burði til þess að sigra heiminn eða í hið minnsta Ísland. Og það gerði Eiríkur líka á sinn skapandi og skemmtilega hátt sem heillandi útvarpsmaður, rithöfundur og skáld sem svo sannarlega setti mark sitt á sam- tíma sinn og veröld. Þar vann Ei- ríkur verk sem verður seint full- þakkað. En ef ég á að eiga þess ein- hvern kost að ná utan um þá stað- reynd að ég á aldrei aftur eftir að eiga stund með mínum góða vini er óhjákvæmilegt að hafa hugann við allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Fljótlega eftir að við hófum háskólanámið vor- um við svo lánsamir að verða hluti af vinahópi sem hefur alla tíð síðan verið órjúfanlegur hluti af okkar lífi. Strákar, sem fyrst vildu bara hittast og spila fót- bolta einu sinni í viku, fundu sam- hljóm í tilverunni og gæfu til þess að rækta þann vinskap með þeim hætti að við höfum alla tíð síðan haldið hópinn. Í þeim vinahópi, sem tók sér reyndar fljótlega nafnið Hið al- hliða leikjafélag og hefur svokall- aða Hala innan sinna vébanda, var Eiríkur svo sannarlega elsk- aður og dáður fyrir alla sína góðu eiginleika. Innan þessa fallega vinahóps höfum við átt ótalmarg- ar góðar stundir, sem í dag öðlast dýpri merkingu í minningunum. Fyrir það er ég þakklátur en fyrst af öllu er ég þó þakklátur fyrir Eirík og allt það sem hann gaf mér með vináttu sinni. Það skarð sem fráfall Eiríks skilur eftir sig í hjarta okkar allra verður aldrei fyllt. En allt það besta sem í honum bjó verður alltaf hluti af okkur og við mun- um halda minningunni um góðan dreng hátt á loft um ókomna tíma. Missir aðstandenda Eiríks er mikill og við Margrét sendum Guðfinnu móður hans, Kolbeini Orfeusi, Vöku, bræðrum hans Kristjáni og Sigmundi, fjölskyld- um þeirra og ástvinum öllum okkar inilegustu samúðarkveðj- ur. Magnús Guðmundsson. Til Eiríks Guðmundssonar (1969-2022) Allar stundirnar sem við áttum eftir að lifa saman hvert fara þær nú og minningarnar sem við eignuðumst saman, þungar kistur af þeim sem ég ber innra með mér þar til allt slokknar, fjársjóðs- kistur, hamingjukistur, fullar af flissi, tónlist, bókum, fullar af þér, sumar einungis opnaðar með ljóði – hvernig get ég opnað þær núna án þess að bresta og það sem ég les og þrái að deila með þér, eins og við gerðum svo oft, verður það hér eftir ávallt sem hníf- stunga, og bækurnar sem þú áttir eftir að lesa og skrifa, og hvað geri ég við söknuðinn sem fylgir mér eins og tunglið, sá gamli trompet, vindlaglóð, hestakerra, ljóðabálkur, fóstbróðir, tunglið sem er bæði bjart og heldimmt, eins og söknuðurinn sem hefur minnst tvær hliðar, ef ekki tólf, og hvernig get ég skammað þig núna lært af þér faðmað þig og hver á að spila á píanóið mæta í vinnu fyrir þig nota sundbuxur þínar, afhverju nam tíminn staðar hjá þér en ekki okkur, afhverju endaðir þú, barn fegurðar, möguleika, barn óvissu, halastjarna og munnharpa, í þröngri sprungu vítis, smánaður, og afhverju er söknuðurinn eftir þér stærri en dagurinn, nóttin, og hvernig lifi ég núna og hvernig get ég annað en brotnað týnst, gefist upp á göngunni, hætt að vakna, hver sefar okkur hvernig höldum við áfram nú þegar Nú þegar þú ert farinn þegar þú ert farinn þú ert farinn ert farinn farinn Þú Jón Kalman Stefánsson. Rétt á meðan við lifum, rétt á meðan við deyjum Og mér verður hugsað til smáa letursins, A Woman’s Face – Reprise (Sonnet 20) Lorelei Forbidden Colors Lilac Wine Lost Angel Fallen The Sensual World In Paradisum Take All My Loves (Sonnet 40) U (Man Like) The Maze Tell It Like It Is Dream Brother Where Are We Now? Auglit þitt slær í takt við brjóstvit. Hjartalag næmt, breyskt, rekur sig áfram á elds- neyti réttlætis, manngildis, sköp- unar, ástar. Bölið er blátt; sýni- legt myrkur, bjartur blámi Jarmans. Kjarninn er greind sem forgangsraðar heilindum ofar sýndarmennsku, uppistaðan tryggð, einlægni, viðkvæmni. Þú, maður sem þú. Í þér er rytmi sem geislar. Breiður. Forboðinn litur, mikilvægur. Alkemistinn, nil nisi parvulis. Í fráfalli þínu leynast skilaboð, boð sem breiðir arma sína utar vinaveggja, líkt og pistl- arnir. Rétt á meðan við lifum, rétt á meðan við deyjum Og mér verður hugsað til smáa letursins Á kodda þínum hvíla töfrar, í sæti þínu situr bryggja og utan um hnífapörin heldur kraftur. Rocket’s Tail. Kraftur sem við þekkjum … að minnsta kosti eft- ir keppumst, tilfinning sem hegg- ur gull úr grjóti, ferjar deyfð að drifi. Máttur sem upphefur það er máli skiptir, sáir orðum sem strjálast með vonarslegnum hljóðbylgjum fegurðar, þinnar, Eiríkur!!!!!!!!!!! Vinur minn skóg- urinn svartstirnið Það gerðist eitthvað daginn sem hann fór. Andinn reis og vék til hliðar. Annar tók hans stað og æpti af hug- rekki: ég er svartstirni, ég er svartstirni (Something happened on the day he died.) Spirit rose a metre then stepped aside. Somebody else took his place, and bravely cried (I’m a Blackstar, I’m a Blackstar). Frá þér geislar einstök arf- leifð; þýðingarmikil skynjun sem þú skilur eftir hjá þeim sem hlustuðu, þeim sem snertu, þeim sem fundu, arfleifð sem Maya Angelou greindi svo fallega þeg- ar hún skrifaði: „Ég hef lært að fólk mun gleyma því sem þú sagðir, því sem þú gerðir, en það mun aldrei gleyma hvernig þú lést því líða.“ Að fá ekki að spjalla aftur um það sem að innan gruggar, það sem við hreyfir, umvefur, inn þjappar. Það sem faðmar. Sárið er söknuður, það er þakklæti, það er kærleikur. Það er nýfundin einvera í því sem við saman átt- um. Ábyrgðarþungi sem blæs upp tómarúmið með orðlausum texta og mér verður hugsað til tjalds sem lekur, tilfinninga- lausra klukkna, krossfestra kenninga, vandaðra hjartna og hungraðra hendinga. Ég hugsa um þögnina sem þú sagðir „verri en lúpínu. Hún fyllir út í allar glufur“. Þögn þagnanna, þögul gára endis sem brýtur sér leið í gegnum öldugang þvaðursins, svamlar að rótum sára, mold minnis og uppsprettu andar, rignir niður veggi höfuðsins, smýgur inn í timbrið, fyllir út í allar glufur. Rétt á meðan við lif- um, rétt á meðan við deyjum. Sárið er allt það sem þú skilur eftir, allt það sem þú áttir eftir. Ég hugsaði dæmið greinilega ekki til enda, fyrirgef oss vort muldur dream brother in para- disum ég sendi þér nokkrar sónötur, tólf vatnsbaðaða flygla, ellefu postulínshjúpaða drengjakóra, tíu fimm mínútna langar grænar rósir, níu daga úr miðri nítjándu öld, átta þéttingsföst faðmlög, sjö blárauða svani með glitrandi sverð, sex miseitraðar meinlokur, fimm stíflaða tárakirtla, fjórar svartar dúnúlpur, þrjú seyði úr þínum uppáhaldsljóðum, tvo skýjastíga og einn undursamleg- an Orfeus. Ósíris fylgir þér restina af veginum, og þú veist vel að hjarta þitt stenst kröfur, mælist léttara en fjöður. Þú þekktir lífið, líkt og báran þekkir bakkann, Má ég biðja þig um að fylgja mér áfram? Anna Gyða. Ég dáðist alltaf að Eiríki. Líka löngu áður en ég kynntist honum, því vinkona mín benti mér á hann á götu og sagði að þar færi maður sem hefði tekið tuttugu bækur með sér í tjaldútilegu. Upp úr aldamótum vann ég í leikhúsi og fór í viðtal hjá honum, feimin og óörugg, en fannst á eftir að ég ætti jafnvel framtíð fyrir mér í útvarpi, hann lét manni líða vel og spurði faglega og fallega. Út- varpspistlar hans voru einstakir, á þá var hægt að hlusta aftur og aftur. Ég var farin að bíða í of- væni eftir því hvaða lag hann spil- aði í lok pistils; þau fullkomnuðu þá gjarna. Eitt slíkt lag hefur verið mitt eftirlæti í mörg ár vegna þessa og við áttum það til að senda það á milli okkar ef sér- lega vel lá á okkur, án nokkurra skýringa. Ég bar gæfu til þess að gefa út bækur hans, fyrst hjá Bjarti og síðan Benedikt, einstakur höf- undur sem var sönn gleði og inn- blástur að vinna með. Við urðum vinir. Öll mannamót voru skemmtilegri með Eiríki. Hann lét stundum næstum eins og hann væri ekki þar, hallaði sér kannski upp að dyrastaf og hall- aði undir flatt, samt aðalmaður- inn í hvítum jakkafötum, jafnvel þegar hann var svartklæddur. Hann lyfti öllum samræðum á æðra plan – með fáum en eiríks- legum orðum. Þegar hann settist við píanóið var samkvæmi full- komnað. Ég sakna Eiríks. Skáld- skaparins, samstarfsins og óvæntra funda á götu eða í laug. Guðrún Vilmundardóttir. Síðustu orðin hafa verið skrifuð. Ekkert fær lengur hamið vindinn. Þannig hefst „Það síðasta“, eitt ljóðanna í bók Eiríks, Blindur hestur. Og svo sannarlega hefur ekkert hamið sorgarvindinn síð- ustu vikur, eftir að hann skrifaði sín síðustu orð og lést, aðeins 52 ára gamall. Hvað þetta líf getur verið fjári grimmt og ósann- gjarnt … Dauðinn var svo sannarlega fjarri þegar við kynntumst og bundumst strax sterkum, traust- um vináttuböndum, strákahópur í bókmenntafræði við Háskólann fyrir rúmum þremur áratugum. Lífsgleðin og lífsþorstinn virtist taumlaus, og hópnum var gefið heiti – Hið alhliða leikjafélag, HAL, og meðlimirnir því Halarn- ir; það var spilaður fótbolti viku- lega árið um kring, farið saman út á lífið, rætt út í eitt um bækur, skáldskap og orð, hlustað á tón- list, farið í árlegar ferðir, innan- lands og utan; það var gaman hjá okkur og lífið gott. Eiki var yngstur í þessum samhenta átta manna vinahópi, hafði hoppað yf- ir einhverja bekki í grunnskóla, var óframfærinn og hógvær í byrjun en fékk snemma viður- nefnið „viskuhalinn“; langbesti námsmaðurinn, svo undarlega vel lesinn í öllu, svo greindur og snjall, flinkur píanóleikari og markaskorari, fallega stríðinn og fyndinn, og átti svo auðvelt með að leika sér með orðin. Og Eiríkur var svo sannarlega á sinni hillu í bókmenntunum og blómstraði í náminu. Fyrsti skáldskapur hans birtist í ársriti okkar bókmenntafræðinema og það varð ekki aftur snúið, hann var sílesandi og eftir BA-gráðuna bætti hann við sig meistaragráðu og sérhæfði sig í skáldskap átjándu og nítjándu aldar. Eftir námið leituðum við vinirnir í hópnum í nokkuð ólíkar áttir en höfum flestir starfað við fjölmiðla og fengist við ritstörf. Eiki talaði stundum um að hann hefði kosið að helga sig óskiptur skrifum, fræðum og skáldskap, og síðustu allmörg ár fékk hann nokkuð reglulega starfslaun og gat þá einbeitt sér að þeim um hríð. En eftir að hann lauk námi var þjóðin það heppin að hann lenti á Rás 1 ríkisútvarpsins og blómstraði þar heldur betur sem umsjónar- maður menningarþátta. Þótt feimnin og hlédrægnin hafi aldrei rjátlast alveg af honum, þá nut- um við þess að hlusta á sjálfs- öruggan, frumlegan, djúpan og hnyttinn útvarpsmanninn, sem fjallaði um menningu og listir af ástríðu, djúpri þekkingu og virð- ingu, og flutti einhverja skörp- ustu og best stíluðu pistla sem heyrst hafa á þeim vettvangi. Og viðtöl Eiríks við aðra listamenn voru mörg hver einstök, þar sem mættust jafningjar og rætt var á dýptina, um það sem skipti máli, í lífi og listinni. Eiríkur var einhver besti og snjallasti stílisti á íslensku síð- ustu áratugi, eins og sést á skáld- sögum hans, ljóðum og frábærum fræðiskrifum – svo ekki sé minnst á snilldarlega og seið- magnaða útvarpspistlana. Ekki eru allar bækur hans í opinberum gagnasöfnum; hann var snemma skipaður sagnaritari vinahópsins og fyrir tveimur áratugum færði hann okkur hinum kvöld eitt í Parísarborg hverjum sitt eintak af Sögu Hala og las kostulegt kverið fyrir okkur á ógleyman- legu kvöldi í 18. hverfi. Árin hafa liðið, líf okkar allra breyst með einum og öðrum hætti en traust vinaböndin alltaf haldið. Og enginn okkar hefði trúað því að sá yngsti færi fyrst- ur. Í öðru ljóði í bókinni Blindur hestur segir ljóðmælandi Eiríks: „Vil ekki lengur þurfa að hugsa um / dauðann, að ég sé kominn hingað til þess eins að deyja.“ Og ekki hefði neinn okkar í myrk- ustu draumum séð fyrir að við myndum nú gráta Eika fallinn rétt rúmlega fimmtugan fyrir fíkn sem molaði hratt undan hon- um lífsbrúna. Svo hörmuleg sóun á lífi og hæfileikum. Sama hversu margir tóku höndum saman um að hjálpa. En hingað kom hann heldur alls ekki til þess eins að deyja, þessi ljúfi, snjalli og góði vinur, svo fjarri því; svo margt hefur hann gefið og marga glatt, fjölskyldu sína, vini, hlustendur og lesendur. Og verkin hans öll, skrifin á sviðum fræða og skáld- skapar, sem og viðtölin sem hann tók og hljóðritanir með umfjöllun hans um líf og listir, eru fallegir og reisulegir minnisvarðar um óvenjulega hæfileikaríkan og greindan listamann. Og kæran vin. Einar Falur. Eiríkur Ómar Guðmundsson SJÁ SÍÐU 18

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.