Morgunblaðið - 26.08.2022, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 26.08.2022, Blaðsíða 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 26. ÁGÚST 2022 alfína og eitursnjalla formála sem er þá líklega með hans seinustu skrifum. „Þetta eru frábærar bækur. Ætla að gefa Kolbeini syni mínum Ljóðveldið Ísland, ég held að sú bók geti kveikt áhuga ungs fólks á ljóðlist. Ég er búinn að stútfylla hann af ljóðlínum, elsku drenginn. Hann situr á Tenerife og sendir mér línur eftir Stein Steinarr. Svona spillir mað- ur ungviðinu,“ sagði Eiríkur við mig og í orðunum þessi skemmti- legi vafningur af sjálfshæðni og kærleik sem einkenndi svo margt sem hann sagði. Og auðvitað stoltið yfir ástkærum syni sínum, Kolbeini Orfeusi. Hann kvaðst líka vera með þrjú eigin verk í smíðum seinustu mánuði. Í skrifum Eiríks var allt- af ákefð og ástríða, dáleiðandi hrynjandi og sláttur sem hann átti einn. „Rétt á meðan við lifum, rétt á meðan við deyjum“, það verður titillinn á minni bók,“ sagði hann við mig fyrir nokkrum vikum. „Farðu með það hægt, ég treysti þér.“ Ég lofaði að setja titilinn í leynihólf en nú dreg ég hann úr leynihólfinu því að titill- inn talar nú svo nístandi til mín í kjölfar þessara sorgarfrétta; seg- ir svo margt, kannski allt. Rétt á meðan við lifum, rétt á meðan við deyjum. Þessi hverfula andrá sem hefur enga merkingu en þó alla merkingu, lífið. Lokaorð Eiríks í samtali okkar fyrir tíu dögum voru: „Hlusta nú á Low á fullu blasti, Bowie mun ganga af manni dauðum.“ Ekki var það Bowie blessaður í þessu tilviki, en angurvær huggun þó að vita að Bowie hafi verið með þessum fallega dreng til hinstu stundar. Í gegnum Bowie lá sterk og óslitin taug okkar á milli, sú sterkasta. Dauðinn kom í ágúst, vetur kom í ágúst, tíminn afhjúpaði sitt djöfullega eðli. Orðin fjúka í vind- inum um Vesturbæinn. Blíðlynd- ur og ljúfur, eldskarpur og með ríka réttlætiskennd, í senn sterk- ur og viðkvæmur, í senn kald- hæðinn og rómantískur, hlýr og forvitinn, örlátur, alltaf örlátur, alltaf gefandi, með sitt skelmis- lega bros og óræðan glampa í augum, dansandi á línu á víxl yfir kastljósum og kafaldsmyrki í sín- um skjannahvítu buxum, svo grannur að stundum fannst manni hann ætla að leysast upp fyrir framan augun á manni og breytast í svartar iðandi nótur. Og núna stíga þær upp, þyrlast út í buskann og við heyrum tónlist hverfa í fjarskann en vera samt svo nærri. Ekkert hefur breyst. Allt hefur breyst. Sindri Freysson. Hann barði að dyrum fundar- herbergis Rásar 1 fyrir um ald- arfjórðungi. Í svörtum leður- jakka, svörtum gallabuxum, svarthærður, með svarta gler- augnaumgjörð og svarta skegg- rót. Fyrir sátu starfsmenn bók- mennta- og menningarsviðs rásarinnar að ræða efni og aðferðir í dagskrárgerð. Hann viðurkenndi síðar að hafa verið skíthræddur við þetta óárenni- lega gengi – lét þó tilleiðast og slóst í hópinn með sitt farteski. Eiríkur Ómar Guðmundsson var fræðimaður, rithöfundur, skáld, harmonikku- og píanóleik- ari, söng og dansaði. Ekki síst í þemagleðskap, afmælisfagnaði og öðrum uppákomum sam- starfsmanna. Oft. Hann var bjartur svartálfur, Láki jarðálfur, jafnvel Gottfried Leibnitz – allir í senn. Gat glatt og hvatt samstarfsfólk en fyrr en varði brjálað suma þeirra; snúið öllu og öllum á haus með stór- kostlegum yfirlýsingum um ágætasta stjórnarfar, menningu, vondar, góðar og framúrskarandi bókmenntir, skipulag, efnahag og ástand í þessum allra besta heimi allra heima. Áður en menn vissu voru þeir orðnir arfaillir, svöruðu fullum hálsi með látum og skelltu hurðum. Endaði með hlátrasköll- um. Oftast. Þegar Eiríkur kom inn í starfsmannahóp Rásar 1 var hann vel þegin nýjung, bæði af okkur starfsmönnum og hlust- endum. Hann hafði ekki fengið „Útvarp Reykjavík“ í æð eða með móðurmjólkinni. Fjarri honum að líta á sig einungis sem opin- beran starfsmann, hann var útvarpsskáld sem lagði óhikað orð í belg. „Menning er að gera hlutina vel,“ sagði Þorsteinn heitinn Gylfason heimspekiprófessor. Stakir þættir Eiríks, þáttarað- ir og viðtalsþættir voru með ágætum. Pistlar hans um stöðuna í samfélags-, stjórn- og menning- armálum landsmanna í lista- og menningarþáttum rásar 1 síð- degis á virkum dögum, fluttir eins og honum einum var lagið, féllu mörgum vel í geð. Öðrum var meinilla við efni þeirra og framsetningu. Þessir höfðu betur og sú rödd hans þagnaði. Hann sagði þá tíma skrýtna, skrýtið að mega ekki segja neitt. Áður hefði hann mátt segja allt. Nú væru nýir tímar, ekki góðir. Erfiður biti að kyngja fyrir þann sem sagði útvarpsmann selja sálu sína og gefa allt; augna- ráðið, röddina, allt. Þrátt fyrir þessar játningar bar Eiríkur hulinshjálm. Fáir þekktu kvikuna sem ólmaðist þar undir. Með glampa í augum skipti hann svörtum klæðum út fyrir hvít. Og hvíti hesturinn hélt sína leið inn í myrkrið. Við syrgjum góðan félaga, við söknum hans, mikið. Og þökkum honum, mikið. Öllu hans fólki sendum við innilegar samúðarkveðjur. Ragnheiður Gyða Jónsdóttir og Ævar Kjartansson, starfsmenn Ríkisútvarpsins um langa hríð. Eiríkur var útvarpsskáld, það mesta sem við höfum átt. Undri var það líkast hvernig þessi drengur frá Bolungarvík gat náð hlustum þjóðarinnar. Vikulegum mánudagspistlum hans strax að loknum fjögurfréttum mátti eng- inn missa af – og það löngu eftir að línuleg dagskrá var liðin undir lok. Ekki að við ættum von á nein- um stórmælum eða áríðandi skila- boðum heldur hinu óvænta. Töfr- unum. Flutningurinn var kapítuli út af fyrir sig, hvernig hann lék sér að því að skipta um tóntegund í miðri setningu, hækkaði sig kannski um áttund til að leggja áherslu á eitthvað sem honum of- bauð í tíðarfari eða tíðaranda. Sí- fellustíll stráður óvæntum gull- kornum á borð við: „Svo birtir af degi, það er hefð fyrir því.“ Útvarpið, þessi hverfuli miðill, í þokkabót á tímum holskefl- umiðlunar þegar allt fer jafnóð- um í glatkistuna og samt man maður einstaka pistla Eiríks, þeir ná að lifa. Skáld og listamenn sakna vin- ar í stað, umfjöllun hans var aldr- ei formsatriði heldur innlifuð og ástríðufull. Maðurinn sjálfur eft- irminnilegur þar sem hann sveif um ganga útvarpsins eins og eng- ill á strigaskóm og glaðlegt ávarp hans gjarnan fylgt eftir með: „Ertu ekki góður?“ Síðan fréttin óheyrilega barst úr miðlinum sem var hans hafa margir rifjað upp ljóðlínur Jón- asar: „Skjótt hefur sól brugðið sumri“ og „Séð hef ég svaninn fljúga“ og jafnvel „Ég veit að lát- inn lifir“ … í viðleitni til að fylla tómið sem hann skilur eftir. Í hugann koma orð Eiríks sjálfs í minningarorðum um David Bo- wie: „Þegar miklir listamenn falla frá losnar mikil orka.“ Megi sú orka ganga til liðs við allt sem honum var kært og dýr- mætt. Að aftur birti af degi. Pétur Gunnarsson. Eiríkur Guðmundsson var ein- staklega fær dagskrárgerðar- maður eins og allir dyggir hlust- endur Rásar 1 þekkja. Hann sinnti um árabil menningarum- fjöllun af ýmsum toga bæði í Víðsjá og Lestinni og gerði það af áhuga, þekkingu og ekki síst mik- illi ástríðu. Hann vakti oft bæði athygli og umtal fyrir pistla sína. Þar tók hann til umfjöllunar allt milli himins og jarðar, og sú um- fjöllun var gjarnan bæði óvenju- leg og skemmtileg. Eiríkur var einnig góður og áhugaverður rithöfundur og ljóð- skáld. Ljóðbréf nr. 3, sem barst ljóðaunnendum snemma á síð- asta ári, innihélt tvö ljóð eftir hann. Þar fjallaði hann í öðru þeirra um hauströkkrið og gaf í hinu hollráð um ástarsambönd. Þar segir m.a.: „Ef ástin kviknar á fimmtudegi, mögulega að kvöldlagi, er prýðilegt ef hún fölnar á fimmtudegi, nákvæm- lega hálfum mánuði síðar, helst síðdegis.“ Í ljóðinu Kvöld er ljóð- mælandinn að bíða eftir nýja hauströkkrinu, þegar tækifæri gefst m.a. til að stokka spilin upp á nýtt. „Ég ætla ekki að gefa þau, spilin, heldur halda þeim þétt að sjálfum mér. Sjá mína eigin speg- ilmynd sem hvergi framkallast betur en í nýja hauströkkrinu sem felur allt og leiðir allt í ljós.“ Við áttum stutt samtal á síð- asta ári um þessi tvö fallegu ljóð, töfra hauströkkursins og heppi- lega lengd ástarsambanda. Nú er Eiríkur farinn og við sem eftir er- um bíðum eftir hauströkkrinu. Fyrir hönd vina hans og sam- starfsfólks hjá Ríkisútvarpinu færi ég aðstandendum hans og vinum einlægar samúðarkveðjur. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. Daginn sem Eiríkur dó birtist viðtal Kate Kellaway í breska dagblaðinu Guardian við þýska kvikmyndaleikstjórann og rithöf- undinn Werner Herzog. Þar er hann meðal annars spurður hvort hann skynji persónur sínar – og manneskjur yfirleitt – sem óræð fyrirbæri. Í svarinu vitnar Herzog í kvikmyndina Woyzeck en þar segir ein persónan að allar mann- eskjur séu hyldýpi og að svimi bíði þeirra sem gefa sig eftir því. Eiríkur hefði kunnað að meta viðtalið. Náðargáfa hans í heimi skáldskapar var skjalfest. Sama gildir um hæfileika hans í skynj- un á stefnum og straumum í menningu og samfélagi sem fann sér farveg á öldum ljósvakans um áratugaskeið í ógleymanlegum viðtölum, bókmenntaþáttum og pistlum. Hann fæddist yst í Ísa- fjarðardjúpi og kann að hafa ferj- að með sér sjónarhorn sem ekki öllum er gefið í hundrað og ein- um. Viðmót hans var jafn dýr- mætt og sjónarhornið, ofið úr djúphygli, ljúfmennsku, gjafmildi og einhverju sem verður ekki fært í orð. Enginn á Íslandi mátti missa Eirík, við vitum það. Kannski er það tímanna tákn að hann hafi orðið fyrir opinber- um réttarhöldum vegna umfjöll- unar um bók í einu af jólabóka- flóðunum. Afstaða hans til fagurbókmennta hafði verið túlk- uð sem skortur á samlíðan og þar með var fjandinn laus. Þótt tím- arnir séu aðrir er eitthvað í rétt- arhöldunum sem minnir á átökin um módernisma á Íslandi um miðja síðustu öld. Gjáin sem þá myndaðist milli bókmenntavina tekur í það minnsta lengi við. Hvernig sem vindarnir blésu í borginni og menningu hennar minnti vegferð Eiríks stundum á örlög skálda fyrri tíma sem höfðu allt að gefa í veröldinni en hlutu sjálf að hverfa úr henni fyrir ald- ur fram. Síðastliðið haust átti hann að vera með okkur á Ísafirði og spá þar í heyranda hljóði í skáldsögu sína 1983, til heiðurs slagkrafti Vestfjarða í íslenskri bókmennta- og menningarsögu. Í fluginu vestur var sætið hans autt, atvik sem þá var hægt að skýra og fól jafnvel í sér fögur fyrirheit en varð að fyrirboða um ferðalok. Enginn fyllir skarð Ei- ríks en ekki einu sinni guðir geta rænt okkur ómældum gjöfum hans. Votta fjölskyldu hans og vin- um mína innilegustu samúð. Birna Bjarnadóttir. Án Eiríks Guðmundssonar eru bókmenntir okkar og fjölmiðlar fátækari. Minningin um mikinn listamann lifir. Ég votta fjöl- skyldunni samúð mína. Fleira en í fyrstu mun hafa virzt er svo andskoti satt að það er óskrifandi. (Sigfús Daðason) Snorri Másson. Eiríkur Guðmundsson leit á David Bowie, einn mesta tónlist- arsnilling 20. aldarinnar, sem eins konar sálufélaga. Bowie var engin venjuleg poppstjarna held- ur fjölhæfur listamaður, eigin- lega náttúruafl sem mótaði tíð- arandann með víðtækum áhrifum sínum, langt út fyrir svið tónlist- arinnar. Hann var innblástur fyr- ir fólk á sviði lista, fræði- mennsku, tísku og pólitíkur og fyrir hina jaðarsettu með „andro- gynous“ útliti sínu og öllum þeim öðrum sjálfum sem hann notaði í listsköpun sinni. Skáld, hugsuður og andlega leitandi. Eiríkur, út- varpsmaður, fræðimaður, rithöf- undur, næmur á fólk og skarp- greindur, tengdi við þessa afburðasnjöllu veröld Bowies vitsmunalega og tilfinningalega. Árið sem Eiríkur fæddist var tímamótaverk Bowies, Space Oddity, frumflutt á sama tíma og fyrsta geimfarið landaði mönnum á tunglinu. BBC bannaði spilun lagsins vegna textans um geim- farann Major Tom, sem missti jarðsamband og hvarf út í geim- inn – en það var spilað samt! Ann- að sjálf Bowies sem heillaði Eirík var Ziggy Stardust, geimveran sem notaði útvarp til að koma boðskap um von til mannkyns andspænis miklum hamförum. Eiríkur var ekki passívur aðdáandi Bowies, sem lýsti tón- smíðum við leitina að Guði. Held að leitin að hinu andlega og þráin eftir æðra réttlæti hafi verið sá kjarni í listsköpuninni sem gerði það að verkum að Bowie, með öll- um sínum öðrum sjálfum, varð eins konar annað sjálf Eiríks – sem útvarps- og fjölmiðlamanns. Með pistlum sínum í útvarpi kom hann við kaunin á valdhöfum og áhrifafólki. Afleiðingar þess taka sinn toll. Eiríkur var ekki vellauðug og heimsfræg rokk- stjarna sem gat ögrað samtíman- um – heldur starfsmaður á rík- isstofnun sem er hugsanlega á köflum hallari undir kerfishugsun en þau háleitu markmið að vera vettvangur lýðræðislegrar um- ræðu og mismunandi skoðana. Það vakti ekkert annað fyrir Eiríki en að kalla eftir betra sam- félagi – þannig dró hann upp ein- falda mynd af Bolungarvík æsku sinnar, þar sem pabbi hans var kennari, móðir hans ljósmóðir, útgerðarmaðurinn í plássinu vel liðinn og bræður hans „allt góðir menn“. Man fyrst eftir Eiríki haustið 1993 á ritstjórn Heimsmyndar í Aðalstræti 4 þar sem hann stóð álengdar, dökkhærður, fallegur, feiminn og athugull. Í júní 2012 sendi hann mér skilaboð um að hann og mamma hans myndu koma á kosningaskrifstofuna á kjördag. Engin von um sigur en Eiríkur áttaði sig á inntaki fram- boðsins. Viðbrögðin við ótímabærum dauða Eiríks sýna hvað hann snerti marga persónulega með velvilja sínum og að það munaði um rödd hans á hinum opinbera vettvangi. Eiríkur gaf og gaf af sjálfum sér. Í lagi Bowies Soul Love er fjallað um móður sem syrgir son er féll í stríði. Við móður Eiríks langar mig að segja: Sonur þinn var hugrakkur og færði persónu- legar fórnir fyrir hugsjón sína um betri heim – en kveikurinn sem stjórnaði brunanum í lífskertinu hans var á margföldum hraða. Við Kolbein Orfeus langar mig að segja: Nafnið sem hann gaf þér felur í sér þá von að framferði þitt í lífinu verði svo fagurt að þú hrífir aðra með þér. Við Vöku, bræður hans og þau sem elskuðu hann vitna ég í nýleg skilaboð frá Eiríki með ljóðlínu Jónasar Hallgrímssonar: Andi Guðs á mig andi, ugglaust mun ég þá huggast. Kveð Eirík, vin minn, með orð- um Bowies til Major Tom áður en geimferðin hefst: Megi kærleikur Guðs umvefja þig. Herdís Kjerulf Þorgeirsdóttir. Samkvæmt rökfræði ljóðlist- arinnar er hver yrðing jafnan bæði og og ekki og. Hún stað- hæfir bæði sjálfa sig og andstæðu sína. Að dvelja í heimi sem lýtur þessum lögmálum er hvorki auð- velt né þægilegt. Til þess þarf maður getu til að sitja kyrr með efanum og öllum gátunum sem munu aldrei upplýsast að fullu; hafa neikvæða hæfni eins og Keats nefndi það. Eiríkur gerði sér bústað einmitt á þessu rökkv- aða svæði óvissunnar, þar sem hver setning er upp á móti sjálfri sér. „Það er lína sem ég skil ekki en skil samt betur en flest ann- að.“ Þannig talaði Eiríkur og þannig var hann, gangandi mót- sögn: alvarlegur og einstaklega fyndinn, afstæðishyggjumaður með óseðjandi réttlætiskennd, dómharður en þó með eindæmum opinn og næmur, kaldhæðinn og einlægur í sömu setningu. Að hitta Eirík var alltaf gaman og einstaklega örvandi, hugvekj- andi. Maður þurfti að hafa sig all- an við. Hugmyndir og tengingar komu á færibandi, það var eins og að spila borðtennis. Og þó var það ekkert líkt því að spila borð- tennis því borðtennis er leikur en hjá Eiríki var jafnan allt í húfi. Enginn afsláttur. Hlutir skiptu öllu máli og þó auðvitað engu. Bæði og og ekki og. Þessa listrænu jafnvægislist þekkja þeir sem lesið hafa bækur Eiríks þar sem hugmyndum sem myndu duga öðrum skáldum í heilar bækur og ríflega það er pakkað inn á eina síðu. Þetta þekkja líka landsmenn allir sem urðu áheyrendur að gjörningum Eiríks í útvarpi. Á árunum í kringum hrunið geystust pistlar hans eftir öldum ljósvakans; maður sat daufhuga í umferðar- teppu á Miklubraut í skammdeg- ishúmi, með opið fyrir viðtækið, algerlega óundirbúinn. Eftir að lestrinum lauk sat maður eftir forviða eins og maður sem hefur lent í hvirfilbyl: Hvað var þetta eiginlega? Blaðagrein, prósaljóð, einræða, ákæra eða játning? Allt í senn. Og þó ekkert af þessu. Bæði og og ekki og. Áhrif Eiríks á íslenska ljóðagerð og ljóða- flutning eru vanmetin, ómæld og munu vara lengi enn. Eiríkur var skáld af þeirri tegund sem aldrei tekur sér frídag því skáldskap- urinn var runninn saman við hann sjálfan. Eiríkur elskaði ljóð- listina ákaflega. Eiríkur var, þrátt fyrir sína smáþyrna, maður með opið hjarta og varð manni undarlega hratt einkennilega kær. Um þetta vitna margir þeirra sem á vegi hans urðu. Ég mun sakna þess að lesa eftir hann nýjar bækur, hlusta á hann í útvarpinu, grípa í hljóðfæri og syngja með honum, spjalla við hann um út- gáfustúss, lífið og ástina, bók- menntir og tónlist – allt það sem öllu skiptir, og þó ekki því ekkert skiptir máli. „Elskhuginn breytist í það sem hann elskar, og svo framveg- is,“ skrifaði Eiríkur. Fráfall hans kallar okkur inn á svæði ráðgát- unnar. Á listanum yfir ráðgátur er dauðinn efstur á blaði, feitletr- aður með rauðu bleki. Við neyð- umst til að iðka okkar neikvæðu hæfni um sinn þótt fæst höfum við nógu sterk bein til að dvelja á því svæði til frambúðar. Eftir sitja spurningar og svör sem eru öll á forminu: Bæði og og ekki og. Kolbeini Orfeusi, fjölskyldu og ástvinum Eiríks votta ég mína innilegustu samúð. Ragnar Helgi Ólafsseon. Ég er hérna handan við horn- ið. Bara rétt ókominn. Maður vissi aldrei hvort Eiríkur kæmi eða hvenær. Og stundum var hann horfinn áður en maður vissi af. Stundum sat hann lengur en allir aðrir. Hann var ólíkindatól. Maður hringdi til að athuga með hann. Já, ég er í næsta húsi. Stutt í mig. Hann kom. Eða ekki. Ein- hvern tímann hringdi ég og sagði að við félagar hans værum fyrir utan hjá honum þegar hann átti einmitt að vera kominn í annað hús að hitta okkur. Ha, eruð þið fyrir utan? Ég kem! Við hittum Eirík mun síðar það kvöld á allt öðrum stað. Eins og alltaf voru það fagnaðarfundir. Þegar ég kynntist Eiríki fyrst, í byrjun tíunda áratugarins, kom hann mér fyrir sjónir sem yfir- máta samviskusamur og klár náungi, hæfileikaríkur, fyndinn og umfram allt mikill bók- menntamaður. Í þrjátíu ár höfum við talað saman um skáldskap. Lengi vel eiginlega eingöngu um skáldskap. Við vorum samferða í gegnum meistaranám í íslensk- um bókmenntum. Tókum báðir ástfóstri við Matthías Viðar, mentorinn okkar. Skrifuðum báðir lokaritgerðir hjá honum. Vorum alla tíð síðan undir áhrif- um hans. Eftir ótímabært fráfall Matthíasar árið 2004 ritstýrðum við saman bók um hann. Við Ei- ríkur lögðum báðir fyrir okkur menningarblaðamennsku, hann á Rás 1, ég á Mogga og síðar Les- bók. Það var botnlaust stuð. Skrif um bókmenntir og menningar- ástand voru einhvern veginn dauðans alvara á þessum árum. Það varð að skilja við tuttugustu öldina og taka á móti þeirri nýju með opinn faðminn. Pólitík þeirr- ar gömlu var þrúgandi. Marka- leysi hinnar nýju tælandi. Eiríkur hélt til á mörkunum, í millibilinu, á mærunum, utan skil- greiningar, þar sem ekki var hægt að ná tökum á honum, á var- anlegum skilafresti. Um tíma fannst mér varla hægt að tala við hann um annað en skáldskap. Hann steig einhvern óbærilegan dans í kringum önnur umræðu- efni. Oft náðum við þó saman um börnin okkar sem voru jafnaldrar og samferða í gegnum skólakerf- ið, yngstu dóttur mína og Kolbein Orfeus, augastein Eiríks. Og þeg- ar ég gekk í gegnum skilnað var Eiríkur til staðar. Þá vorum við byrjaðir að vinna saman á Rás 1. Þar reyndist Eiríkur mér líka vel. Það var alltaf gott að leita til hans. Það tók samt ófá samtöl mánuð- um saman að fá hann til þess að hætta í Víðsjá og búa til nýjan þátt. Þegar mér tókst að sann- færa hann um að ég hefði fundið hárréttan makker þá sló hann til. Eiríkur og Anna Gyða gerðu Lestina að kjarnaþætti á Rás 1. Síðustu árin fóru samtöl okkar Eiríks að snúast æ meir um harðnandi baráttu hans við Bakkus. Þessi samtöl tóku oft á. Eiríkur fór undan í flæmingi. Og þegar hann loksins virtist viður- kenna vandann var eins og verk- efnið yxi honum í augum. Sjálfur varð ég smám saman máttvana og á síðustu mánuðum pirraður, reiður, vonsvikinn. Eftir erfiðan viðskilnað við Útvarpið síðastlið- ið haust ætlaði Eiríkur jú að koma aftur. Við vorum búnir að ræða það ítrekað. Já, ég kem! Auðvitað! En hann kom ekki. Að þessu sinni hafði ég ekki einu sinni leitt hugann að því að það væri raunverulegur möguleiki, þrátt fyrir aðvaranir um annað. Það fyrsta sem ég hugsaði var hvers vegna ekki mætti taka fram fyrir hendurnar á fólki í þessari stöðu. Ég sit uppi með þá spurningu og afneitunina á þeim möguleika að Eiríkur gæti látið sig hverfa endanlega. Núna! Löngu áður en öllu átti að ljúka. Þröstur Helgason.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.